Dagatöl

Dagatöl

Dagatöl eru samspil neyslu og aðhalds. Það að þurfa að neita sér um að opna öll súkkulaðifylltu hólfin krefst sjálfsaga. Þetta eina sem barnið hefur aðgang að (að því gefnu að dagatölin séu ekki mörg) eykur fljótt á löngunina í að frelsa alla hina molana, en það er auðvitað bannað. Það þarf að halda aftur af sér.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
15. desember 2021

Dóttursonur minn, orkubolti á þriðja ári, hélt lukkulegur á dagatalinu eftir að hafa, lögum og venju samkvæmt, fengið að opna fyrsta reitinn af 24.


Einn gluggi á dag


Súkkulaðið hafði fyrirsjáanleg áhrif. Andlitið ljómaði af brúnu brosi og óðara seildust litlir fingur í hina rammana sem voru enn óhreyfðir. Móðir hans þurfti að hafa sig alla við til að fá hann til að losa takið og að útskýra fyrir smábarninu hvernig málum væri háttað með þessi dagatöl: Aðeins má opna einn glugga á dag. Hún sagði okkur svo í óspurðum fréttum að þessa ásælni hefði hann trúlega fengið í arf úr föðurættinni, hversu líklegt sem það kann nú að vera.

 

Dagatöl skipa stóran þátt í lífi fjölskyldna á aðventunni. Um leið og barnsaugun opnast að morgni dags leitar hugurinn til þessara litríku spjalda.

 

Þau fanga líka ákveðna þætti aðventunnar, eða jólaföstunnar eins og við í kirkjunni köllum hana líka. Við getum sagt að þau færi föstuna – meinlætið – í nútímabúning. Dagatöl eru samspil neyslu og aðhalds. Það að þurfa að neita sér um að opna öll súkkulaðifylltu hólfin krefst sjálfsaga. Þetta eina sem barnið hefur aðgang að (að því gefnu að dagatölin séu ekki mörg) eykur fljótt á löngunina í að frelsa alla hina molana, en það er auðvitað bannað. Það þarf að halda aftur af sér.


Jafnvægisþraut

 

Þetta er ekki ósvipað hlutskipti samviskubitinna neytenda. Við reynum velja þessar svo kölluðu „vistvænu“ vörur úr hillum verslana. Þeim fylgja engu að síður kolefnisspor en um leið eru hinar látnar óhreyfðar, þær sem mögulega fara jafnvel enn ver náttúruna en þessar „umhverfisvænu“. Og þannig er tilveran á svo mörgum öðrum sviðum. Það er eins og lífið sé ævilöng jafnvægisþraut þar sem við látum eitthvað eftir okkur en neitum okkur um annað. Um leið dynja á okkur tíðindin um að lífsmáti þessi sé ekki sjálfbær. Við klárum auðlindir jarðar of ört.

 

Stundum læðist að manni sá grunur að rétt eins og dagatölin tilheyra ákveðnu skeiði ævinnar, þá verði þessi línudans neytandans einnig kenndur við tímabil í sögunni. Mögulega munu kynslóðir dóttursonar míns horfa til okkar með vorkunnsemi. Eða hvað er hægt að segja um kynslóðir sem breyta sífellt andstætt betri vitund? Það góða sem við viljum, gerum við ekki – eins og Páll postuli komst að orði á sínum tíma.


Áhrifamáttur hins fábrotna

 

Þegar svo allir gluggar dagatalsins hafa verið opnaðir er runnin upp þessi hátíð sem allt snýst jú um. Jólin eru lýsandi dæmi um áhrifamátt hins fábrotna andstætt varningnum sem fyllir híbýli okkar og ísskápa. Jólaguðspjallið hefur staðist tímans tönn í öllum sínum einfaldleik. Við lesum um fátækt fólk og um kornabarnið, tákn jólanna. Í varnarleysi sínu og auðsæranleika fyllir það líf okkar tilgangi og merkingu. Þannig verða börnin okkur áminning um að búa þeim góðan heim þegar þau taka við keflinu af okkur.

 

Þessi er boðskapur jólanna og sú er sannfæring mín að heimsbyggðin hafi meiri not af honum nú en nokkru sinni fyrr.


Aðventuhugvekja fyrir Vesturbæjarblaðið