Hvers væntir Guð af okkur?

Hvers væntir Guð af okkur?

Við þurfum ekki að líta langt yfir skammt til að sjá slíkt. Ef við sjáum það ekki með eigin augum þá fáum við fréttir af því úr fjölmiðlunum.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
19. janúar 2013
Flokkar

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í kvöld. Það er gott að finna þann góða hug sem ríkir hér á samkirkjulegri bænaviku. Það er gaman að fá að stíga út fyrir rammann og prédika á stað sem ég hef aldrei komið á og vita það að í fyrramálið og næstu daga verður líka farið á milli kristinna kirkna og safnaða og orðið boðað. Orðið, sem tengir okkur saman vegna trúar okkar á Jesú Krist.

Hvers væntir Guð af okkur? Við erum saman komin hér í kvöld undir þessari yfirskrift, hvers væntir Guð af okkur? Þetta er umhugsunarverð spurning. Oft heyrist spurningin hvaða væntingar hefur þú til framtíðarinnar, starfsins, lífsins?

Ég las í dagblaði svör við spurningum. Vegfarendur voru spurðir, hvað ætlar þú að gera um helgina? Fólk hafði áætlanir um það. Allt var það gagnlegt og gefandi, en ég tók eftir því að enginn minntist á það að hlú að trú sinni. Enginn talaði um að fara í kirkju, hlusta á Guðs orð.

Ég er alin upp á Ísafirði í næsta húsi við Salem, hús hvítasunnusafnaðarins. Þar bjuggu tvær fjölskyldur í mínu ungdæmi. Önnur var þar allan tímann, Guðbjörg og Sigfús með bönin sín fjögur. Uppi bjuggu sænskar fjölskyldur, fyrst Anderson fjölskyldan, svo Lindblom fjölskyldan. Þegar ég var í menntaskólanum áttum við að gera verkefni í félagsfræði. Minn hópur ákvað að taka viðtöl við útlendinga í bænum og komast að því hvers vegna þau hefðu flutt til Íslands og Ísafjarðar. Flestir útlendingarnir höfðu elt ástina eða komið til vinnu þegar enga vinnu var að hafa í heimalandinu. Nokkrir höfðu komið af ævintýraþrá.

Við tókum Gunnar Lindblom tali þar sem hann var við rammagerð í kjallaranum á Salem. Hvers vegna fluttir þú til Ísafjarðar spurðum við. Og hann svaraði vegna þess að Guð kallaði mig og sendi mig hingað. Við skyldum ekkert í þessu svari. Hvað var maðurinn að meina? Guð kallaði og hann fór með fjölskyldu sína til lands norður í höfum. Til að reka erindi Guðs og segja frá syni hans og andanum sem hann sendi. Ja, hérna hér. Við vorum skilningvana. Þó maðurinn talaði íslensku var eins og hann væri að tala erlent mál. Við skildum hann ekki.

Ég hef oft hugsað um þessa heimsókn til Gunnars Lindblom og fengið skilning á því sem hann var að segja því ég hef fundið þessa köllun í eigin lífi. Þegar ég sá yfirskrift þessarar alþjóðlegu samkirkjulegu bænaviku fyrir einingu kirkjunnar, Hvers væntir Guð af okkur, rifjaðist þessi atburður upp og orð Gunnars. Það er stundum tekið þannig til orða að við látum hjartað ráða. Þá látum við einhverja tilfinningu sem við fáum ráða för. En við getum ekki alltaf verið viss um að tilfinningin sé rétt og færi okkur á þann stað í lífinu sem við eigum að vera eða er okkur fyrir bestu. Það er nauðsynlegt að spyrja spurninga á lífsins leið, spyrja okkur sjálf, spyrja aðra. Og nú erum við spurð, hvers væntir Guð af okkur? Það er kristilega stúdentahreyfingin á Indlandi, sem fékk það verkefni að undirbúa þessa samkirkjulegu bænaviku, þar sem kristið fólk um allan heim sameinast í bæn fyrir einingu. Eins og kunnugt er er spurningin byggð á texta úr Spádómsbók Míka: „Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin, fram fyrir Guð á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með veturgamla kálfa?

Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta og tugþúsundum lækja af ólífuolíu? Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?

Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð“.

Það sem stendur í Biblíunni stendur þar vegna þess að það á sér samsvörun í lífi fólks. Og textinn talar til okkar af því hann á sér samsvörun í lífi okkar, lífsaðstæðum og í þeirri veröld sem við lifum í. Það þarf því ekki að koma á óvart að kristnir stúdentar á Indlandi velji texta úr spádómsbók Míka þegar þeir hugsa til kristinna systkina um heim allan og einingar þeirra. Míka átaldi félagsleg rangindi í landi sínu og í bók hans talar Guð til hinna undirokuðu og gagnrýnir misferli valdhafanna. Aðstæður margra á Indlandi eru um margt svipaðar og á dögum Míka þó margar aldir skilji að. Í efni frá alkirkjuráðinu sem þýtt hefur verið og finna má á veraldarvefnum segir að stúdentarnir vilji „minna á að baráttan fyrir félagslegu réttlæti er samofin kristinni trú. Dalítar á Indlandi eru beittir miklum rangindum enn þann dag í dag, en um 80% kristins fólks þar í landi koma úr hópi Dalíta. Þessi þjóðfélagshópur er á lægsta þrepi indversku stéttaskiptingarinnar, en hún skiptir fólki í háa og lága samkvæmt nákvæmum skilgreiningum um hreina og óhreina. Dalítar voru að fornu fari ,,hin ósnertanlegu” og myndu í dag vera skilgreind á jaðri samfélagsins. Þau eru áhrifslaus í stjórnmálakerfi landsins, búa við mikla efnahagslega mismunun og menning þeirra er undirokuð. Því miður hafa þessi áhrif náð inn í kirkjurnar í Indlandi af sögulegum ástæðum og mikil þörf er á því að benda á að allir menn, karlar og konur, eru jafnir í augum Guðs. Míka spámaður minnir á að réttlæti ætti að vera samofið trú okkar. Trúin öðlast eða glatar merkingu þegar kemur að spurningunni um réttlæti. Guð vill réttlæti, ekki fórnir, eins og segir á öðrum stað, og mikilvægast er að ganga með Guði í réttlæti og friði“. Spurt er: Hvers væntir Guð af okkur? Og svarið er að finna í helgri bók, eins og öll þau svör sem við þurfum að vita. „Þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð“.

Samkirkjuleg bænavika minnir okkur á mikilvægi samræðunnar. Í áratugi hefur ein vika í janúar, milli Pétursmessu og Pálsmessu verið helguð samkirkjumálum. Einingarvilji kristinna manna er meiri núna en oft áður í sögunni, því kristnar manneskjur skilja að eining er farsælli en óeining. Enda trúum við öll á Jesú Krist, hinn krossfesta og upprisna frelsara og vitum að hann er Drottinn okkar.

Við vitum líka að margt má betur fara í þjóðfélagi okkar og bænin er lykill að Drottins náð. Bæn er ein leið til að vinna gegna því sem eyðir og deyðir. Orðið gefur svo kraftinn og djörfungina til að færa til betri vegar það sem mismunar og skemmir. Við þurfum ekki að líta langt yfir skammt til að sjá slíkt. Ef við sjáum það ekki með eigin augum þá fáum við fréttir af því úr fjölmiðlunum. „Getur verið að sá þáttur menningarinnar sem þarf að breytast sé fólginn í breytingu á viðhorfi okkar til fólks? Gæti hugsast að við þyrftum að temja okkur að líta á persónur frá sjónarhóli þeirra gæða sem þær bera fremur en í ljósi þess sem þær kann að skorta? Þannig endar grein í Fréttablaðinu í dag sem ber nafnið „Fátækt er viðhaldið af góðu fólki“.

Fyrsta skref í átt til breytinga er að breyta viðhorfi. Það myndu mörg vandamál leyast ef við hefðum Guð með í ráðum. Ef við færum eftir Orði Guðs. Ef við treystum Guði fullkomlega. Þetta getum við upplifað og höfum upplifað og megum ekki sofna á verðinum að láta það heyrast til annarra. Lausn á margkonar vanda fæst með því að treysta Drottni fyrir lífi sínu og framtíð.

Gangan með Guði er spennandi. Hún er gefandi. Hún er styrkjandi. Og á þeirri göngu mætum við fólki sem er skapað í Guðs mynd og þráir það sem allar manneskjur þrá. Öryggi og hamingju. Þess leitum við öll, hvort sem við búum á Íslandi eða Indlandi eða annars staðar í veröldinni. Biðjum Drottinn okkar og frelsara að gefa okkur djörfung til að finna leiðir og vinna eftir þeim til að bæta líf bróður okkar og systur sem þjást. Biðjum þess að kristin trú móti samfélag okkar, hugsunarhátt og samskipti við annað fólk og hjálpi okkur að finna færar leiðir til að útrýma óréttlæti í veröld okkar.

Hvers væntir Guð af okkur: „Þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð“.