Í einum anda

Í einum anda

Á landsmóti erum við líka minnt á samstöðuna með bræðrum okkar og systrum annars staðar í heiminum. Að þessu sinni er sjónum beint að Malaví og þörfinni fyrir vatn. Unglingarnir leggja sitt af mörkum til að hjálpa öðrum til sjálfshjálpar og sjálfbærni, enda erum við minnt á að Kristur býr líka hjá þyrstum í Malaví.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
28. október 2012

H2Og er yfirskrift landsmótsins í ár

Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka. 1. Korintubréf 12.13

Landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar er að ljúka. Í fyrsta sinn var öllum æskulýðsfélögum landsins stefnt hingað á Austurland. Við á Fljótsdalshéraði nutum þess heiðurs í ár að vera gestgjafar mótsins. Í Jesú nafni fengum við bæði að gefa af okkur og þiggja í gleði, von og kátínu landsmóts.

Eitt af því sem einkennir landsmót er fjölbreytnin í hópi þátttakenda. Á landsmóti hittast strákar og stelpur, dreifbýlistúttur og borgarvargar, íþróttakrakkar og antisportistar, lærdómshestar, tölvuséní, listaspírur og svo eru það allir hinir... því að í æskulýðsstarfinu eru allir velkomnir og ekki gerðar sérstakar kröfur til að mega taka þátt.

Á landsmóti fá unglingarnir þess vegna að upplifa samstöðu með fjölbreyttum hópi jafnaldra sínum sem taka þátt í kirkjustarfinu um allt land. Á landsmóti fáum við að upplifa það að vera öll saman í einum anda, hver sem bakgrunnur okkar er.

Í orðum sínum til Korintumanna minnir Páll postuli á mikilvægi þess að kristnir menn leggi niður flokkadrætti sína og standi stöðugt saman í þeim anda, sem Guð vill gefa börnum sínum. Skírnin er merki samstöðunnar í Kristi.

Á landsmóti erum við líka minnt á samstöðuna með bræðrum okkar og systrum annars staðar í heiminum. Að þessu sinni er sjónum beint að Malaví og þörfinni fyrir vatn. Unglingarnir leggja sitt af mörkum til að hjálpa öðrum til sjálfshjálpar og sjálfbærni, enda erum við minnt á að Kristur býr líka hjá þyrstum í Malaví.

Þorgeir Arason, héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi