Ljósið eilífa

Ljósið eilífa

Það er ótrúlegt hvað dimmir þegar slökkt hefur verið á aðventuljósum í gluggum borgarinnar og ljósin á svölum stórhýsanna taka sér hvíld til næstu aðventu. Ekki er þess nú langt að bíða og ég hef velt því á stundum fyrir mér af hverju við slökkvum öll þessi fallegu ljós einmitt mitt í mesta myrkri vetrarins.
fullname - andlitsmynd Guðný Hallgrímsdóttir
04. janúar 2006

Það er ótrúlegt hvað dimmir þegar slökkt hefur verið á aðventuljósum í gluggum borgarinnar og ljósin á svölum stórhýsanna taka sér hvíld til næstu aðventu. Ekki er þess nú langt að bíða og ég hef velt því á stundum fyrir mér af hverju við slökkvum öll þessi fallegu ljós einmitt mitt í mesta myrkri vetrarins. Þegar við höfum rétt haldið upp á hátíð ljóss og friðar, glaðst við litrík ljós umhverfisins jafnt sem við litla kertaljósið, þá er á einni nóttu komið myrkur yfir borg og bæ.

Reyndar ræddi ég þetta við fermingarbörnin mín í síðasta tímanum okkar fyrir jólin. Hópurinn minn saman stendur af flottum einstaklingum, öll með sín séreinkenni og hvert og eitt einstök sköpun Guðs. Við ræddum saman um ljósin í kringum okkur, ljósið sem logaði á aðventukransinum og ljósið eilífa sem inni í okkur lifir. Ég ákvað að spyrja þau hvernig þeim liði með það að öll litríku ljósin væru slökkt í byrjun janúar. Í því framhaldi hafði ég um það nokkur orð hvernig sumu fólki liði við það að búa í myrkri og sæju ekki ljósið góða í Jesúm Kristi. Ættu kanski erfitt með að festa hugann við logann eilífa. Eftir smá þögn heyrðist lítil rödd úr fermingarhópnum. ,,En Guðný nú ertu að bulla, það getur ekki komið myrkur í hjartað af því að Jesús er að fæðast og hann á heima í hjartanu. Jesús er búin að kveikja ljósið í hjartanu og þá er allt í lagi þó að það sé myrkur úti. Það er ekki lengur myrkur inni.” Til að leggja áherslu á orð sín sló hún þétt á brjóstkassann sinn.

Rafmagnsljósin litríku eru senn á bak og burt en eftir mun standa kertaljósið á eldhúsborðinu mínu. Lítið ljós sem samt skín svo fallega og yljar sálu og lífi. Ljósið minnir mig á ljósið eilífa sem logar eins lengi og ég gæti þess að halda lífi í loganum í hjarta mínu. Þá verður ekki lengur myrkur inni.