Tveir synir - tveir heimar

Tveir synir - tveir heimar

Á kristindómurinn nokkurt erindi við okkur í dag? Er ekki líf okkar á Vesturlöndum svo sneytt öllu trúarlegu að það að signa sig að morgni og fara með morgunbæn er ankanalegt? Að sækja kirkju og rækta trúarlíf sitt er ekki kappsmál nema fyrir fáeina!

Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?

Þeir svara: Sá fyrri.

Þá mælti Jesús: Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum. Matt. 21:28-32

Inngangur

Á kristindómurinn nokkurt erindi við okkur í dag? Er ekki líf okkar á Vesturlöndum svo sneytt öllu trúarlegu að það að signa sig að morgni og fara með morgunbæn er ankanalegt? Að sækja kirkju og rækta trúarlíf sitt er ekki kappsmál nema fyrir fáeina!

Jesús spyr okkur í guðspjalli dagsins: "Hvað virðist yður?" Hann beinir athygli okkar að því að gera vilja Guðs með dæmisögu um tvo syni. Annar neitar að fara eftir beiðni föður síns en sér sig svo um hönd og fer og vinnur verkið sem fyrir hann var lagt. Hinn játar því að fara strax en fór hvergi. Og Jesús spyr: Hvor þeirra gerði vilja föðurins? Auðvitað er það sá sem framkvæmdi verkið.

Jesús segir okkur með þessu að kristindómurinn er ekki eintóm orð heldur einnig verk. Það hljómar skringilega á íslensku að gera sannleikann, en þannig talaði Jesús. Kristindómurinn er ekki samansafn af kenningum, síður en svo, kristindómurinn er LÍF, snertir við manninum öllum, ekkert svið mannlegrar tilveru er undanskilið, eftir því sem Jesús segir. Og þegar það rennur upp fyrir okkur að Jesús er sannleikurinn, verður ekki undan skotist.

Hvað sýnist þér um kristindóm? Stundum sýnist mér hann vera óttalegt humbug, kerfisapparat, sem knúið er áfram af handafli fárra manna, lífvana og sneitt öllu því sem Jesús talaði um, öllu lífi, vegna þess að lítið er farið eftir orðum föðurins himneska. Hvað virðist þér? Er Jesús að spyrja þig og mig.

Ágætur þýskur guðfræðingur og lútheran þar að auki, Dietrich Boenhoffer, vaknaði upp við það að þjóð hans var farinn að hallast undir nasisma. Hann tók þátt í andspyrnuhreyfingunni og velti fyrir sér rökum kristins manns fyrir slíku andófi. Í bók sem hann skrifar stuttu áður en hann var tekinn fastur og settur í fangelsi velti hann því fyrir sér hvað það gæti kostað að fara eftir orðum Meistarans frá Nasaret. Hann spyr sig: "Hvað vildi Jesú sagt hafa við okkur? Hvað vill hann okkur í dag?"

Í fangelsinu skrifaði Didrich Bonhoffer talsvert eftir því sem blöðin og skrifærin leyfðu. Hann veltir fyrir sér stöðu kirkjunnar og kristinna manna í nýjum heimi. Hann skrifar:

“Kirkjan okkar, sem að undanförnu hefur haft það að markmiði að berjast fyrir því að viðhalda sjálfri sér, er alsendis ófær um að flytja heiminum og mönnunum orð friðþægingarinnar og frelsunarinnar. Þess vegna hlýtur hið gamla orð að verða kraftlaust og þagna, kristindómurinn í dag getur aðeins staðist í tvennu: í bæn og í því að gera það sem rétt er meðal manna. Öll kristin hugsun, tal og skipulag verður að fæðast að nýju af þessari bæn og þessari framkvæmd.”[2]

Bæn og verk, verk og bæn, bæn og verk, þannig er líf kristins manns, að biðja og iðja. Í guðspjalli dagsins spyr Jesús: Hvað virðist ykkur? Svo segir hann sögu af manni sem átti tvo syna. "Hvor þeirra tveggja gerði vilja föðurins?" Svarið liggur í augum uppi, sá sem gerði vilja föðurins.

Iðja

Það vill svo til að kristindómurinn er ekki steynsteypt hús né gamlar minjar um liðna tíð. Hann er ekki heldur vel skipulagt fyrirtæki né félagasamtök um eitthvað. Hann er ekki einu sinni trúarbrögð. Kristindómurinn allur snýst um framkvæmd; að framkvæma vilja Guðs hér og nú.

Hernig gerum við það? Við hlustum á það sem Drottinn okkar segir. Og spyrjum okkur: Hvað vill hann mér? Jesús sagði við lærisveina sína: "Fylg þú mér!" Og það er sagt að þeir stóðu upp og fylgdu honum. Þetta vill hann. Að þú standir upp úr þinni öruggu og venjulegu hversdagsveröld, ekki til þess að flýja neitt í burtu, nei, heldur til að lifa honum. Svo segir hann við okkur vegna þess að honum þykir vænt um okkur: "Farðu og seldu allar eigur þínar, komdu svo og fylgdu mér". Hann veit hvað það er sem bindur okkur. Það er okkar stærsta mein að við erum hætt að sjá Guð, við sjáum aðeins okkur sjálf, þannig fæðumst við, venjumst á að hugsa um það helst, að eignast og fá, verða rík og voldug. En tilhvers í ósköpunum, við deyjum frá þessu öllu? Verðum gömul og lúinn, glötum öllu úr höndum okkar, sum minninu og aðrir glórunni. En Guði þykir vænt um okkur þess vegna beinir Jesú augum okkar upp til Guðs, föður okkar á himnum. "Hafðu ekki áhyggjur," segir hann, "fuglarnir syngja um himinhvolfin og Guð nærir þá". Æ, svo sagði hann líka, vegna þess að hann elskar okkar: "Elskið óvini ykkar". Hvernig getum við gert það? Er ekki til einum of mikils mælst? Jú, það er svo. Og þá svara Jesús okkur: "Fyrir Guði er allt mögulegt!"

Þegar við nú höfum hlustað á þessi orð þá er komið að því að framkvæmd þau. Og fyrir okkur mennina er þá bara ein leið til sem guðspjallamaðurinn kennir okkur: Fylgdu Jesú, farðu í fótsporinn hans. Þá reynirðu að innsti kjarni lífsins er þetta sem Jesús sagði þegar hann skildist frá lærsveinunum að því er virtist: "Ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar!" Hvaða máli skiptir það okkur að hafa Guð með okkur en ekki á móti? Það er miklu meira brennandi spurning en við ætlum. Vaninn hefur blindað okkur. Ef við gerum það sem er rangt: ágirnumst eigur annarra, líf annarra, ljúgum, svíkjum, rænum og drepum. Svo langt göngum við nú ekki! Sá sem selur eiturlyf er að drepa. Sá sem rænir lífbjörg frá mönnum er að drepa. Sá sem rænir mannorði frá öðrum með ósannindum og svikum er að drepa. Jesús sagði: "Hver sem reiðist bróður sínum, skal svar til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis." (Matt. 5:22).

Ef Drottinn er með okkur í hita leiksins og alvöru lífsins lærum við að aga okkur, að spyrja eins og ef himininn væri yfir okkur, alsjáandi auga Guðs. En Jesús lætur sér ekki nægja óttablandna virðingu fyrir Guði, við eigum að elska hann, vegna þess að Guð er ástríkur faðir á himnum. Það er leyndardómurinn sem okkur er opinberaður í sögunni um Jesú.

Ef við göngum með þetta úr kirkju í dag og setjum okkur það að lifa samkvæmt orðum Jesú næstu viku eða bara í dag þá komumst við að raun um það að við erum í framkvæmdum okkar eins og lamaði maðurinn sem borinn var til Jesú. Við getum okkur ekkert hrært nema að þurfa að heyra þessi orð af vörum Drottins: "Barnið mitt, syndir þínar eru þér fyrirgefnar". Þá reynum við fyrirgefningu Guðs, útbreiddan faðm Guðs, orðin sem hann sagði við mig og þig: "Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér." (Matt. 11.28).

Biðja

Þegar við stígum þetta skref að breyta eftir orðum Drottins komumst við ekki hjá því að æpa til hans, fyrirgefið mér orðavalið, en bænin er þetta ákall í neyð eftir hjálp Guðs. Er það ekki svo að þegar við erum komin niður í raunveruleikann, orðin jarðtengd, þegar draumum okkar og blekkingum sleppir, þá höfum við þessa djúpu þörf eftir Guði? Þegar við erum komin í neyðarástandið. Merkilegt að það þurfi til - fyrr leitum við ekki Guðs.

Nú hefur Jesús fullvissað okkur um að við verðum bænheyrð: "Biðjið og yður mun gefast", segir hann, "leitið og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða". Ekkert foreldri myndi gefa barni sínu stein ef það bæði um brauð eða höggorm ef það bæði um fisk. Þannig talar hann við okkur. Miklu frekar mundi Guð gefa ykkur góðar gjafir. Bænin er þetta að taka við góðum gjöfum Guðs, biðja um þær og þiggja með þökk. Bænin er að reyna Guð af því sem hann er, góður, elskulegur og miskunnsamur.

Með þessu móti verður kristindómurinn afar nútímalegur. Við biðjum þá við okkar raunverulegu aðstæður. Ég valdi þennan sálm fyrir prédikun vegna þess að hann er með þessa góðu mynd, hversdagslegu og raunverulegu, eins og lífið er. Og þar er Guð, í bæn og verki reynum við það. Sigurbjörn Einarsson biskup orðar það svo í sálminum:

Í dagsins iðu, götunnar glaumi greinum vér þig með ljós þitt og frið. Hvar sem ein bæn er beðin í hlóði beygir þú kné við mannsins hlið.

Dugar það sem svar við spurningunni: "Hvað vildi Jesú sagt hafa við okkur? Hvað vill hann okkur í dag?" Að hann er hér og nú, með okkur í dag til að gefa okkur líf með sér. Það varð niðurstaða Boenhoffers í fangelsinu, vitandi að líf hans hékk á bláþræði, nútímaleg bæn sem ég vil flytja að lokum:

Hver er ég? Þeir segja það svo oft komi ég úr klefa mínum glaður, hress og öruggur eins og óðalsbóndi úr setri sínu.

Hver er ég? Þeir segja svo oft að ég tali við verðina óþvingað, vingjarnlegur, eins og ég væri fangelsisstjórinn sjálfur.

Hver er ég? Þeir segja líka að ég beri motlætið brosandi, rólegur, stoltur, eins og sá sem er vanur að sigra.

Er ég virkilega sá sem aðrir segja? Eða er ég sá sem mér finnst ég vera? Órólegur, friðvana, eins og fugl í búri, í angist og ótta, eins og tekinn hálstaki, og hungrar eftir litum, blómum, fuglasöng, þyrstur í góð orð og návist folks, titrandi af sorg yfir að vera niðurlægður og svívirtur, rótlaus bráð sífellt flöktandi vonar, vanmáttugur í áhyggjum mínum um ástvini sem fjarri eru, of þreyttur og tómur til að biðja, til að hugsa og skapa, máttvana og reiðubúinn að kveðja allt og alla?

Hver er ég, þessi eða hinn? Er ég einn í dag og annar á morgun? Er ég báðir í senn? Hræsnari fyrir mönnum, í eigin augum fyrirlitlegur, volandi, svikull? Eða líkist ég hið innra sigruðum her, sem í upplausn hörfar undan lokaárás sigurvegarans?

Hver er ég? Spurningar einverunnar gera mig hugstola. Hver sem ég er – þú þekkir mig, ég er þinn. Guð minn!

Úr Bænabók, Leiðsögn á vegi trúarlífsins, Séra Karl Sigurbjörnsson tók saman

[1] Upphaflega flutt við guðsþjónustu á Ólafsfirði 17. október 1999 [2] Person, Per Erik (1979) Att tolka Gud idag. Debattlijer i aktuell teologi, 27.