Réttlátur friður

Réttlátur friður

Hugtakið réttlátur friður (e. Just Peace) hefur áunnið sér sess sem mótvægi við gömlu hugsunina um réttlátt stríð (e. Just War). Nú er álitið að ekkert sé til sem heiti réttlátt stríð og að friður geti aldrei orðið án réttlætis. Réttlæti er sem sagt grundvöllur friðarins, eins og segir í 85. Davíðssálmi: ,,Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.” Á 10. allsherjarþingi Heimsráðs kirkna, sem haldið var í Busan í S-Kóreu sl. haust, var samþykkt ,,Yfirlýsing á leið til réttláts friðar” (Statement on the Way to Just Peace). Hér verður gerð stuttlega grein fyrir aðalatriðum yfirlýsingarinnar en áhugasömum bent á textann í heild sinni á http://www.oikoumene.org/en/resources/documents/assembly/2013-busan/adopted-documents-statements/the-way-of-just-peace.

Tilgangur Guðs Í yfirlýsingu þingsins segir að réttlátur friður beini sjónum að tilgangi Guðs með mannkyn og sköpunina í heild sinni. Réttlátur friður byggir á voninni um andlega umbreytingu og er ákall um réttlæti og frið fyrir alla. Þar reynir á okkur hvert og eitt – að við lifum réttlátu og friðsömu lífi. Talað er um félagslegt réttlæti í stað forréttinda, efnahagslegt réttlæti í stað auðsöfnunar, vistfræðilegt réttlæti í stað neysluhyggju og réttlæti á sviði stjórnmála andspænis valdahyggju. Verkefnið er að frelsa fólk frá ótta og skorti, yfirstíga fjandskap, mismunun og kúgun, vernda þau sem eru varnarlaus og stuðla að varðveislu sköpunarinnar. Þannig er friður og umhverfisvernd nátengt því sköpunarverkið í heild sinni þarf á réttlæti og jafnvægi að halda.

Réttlátur friður byggir þannig á trú okkar á Guð sem skapara alls sem er. Auðlindir jarðar eru gjafir Guðs og ættu að gera öllum kleift að lifa með reisn og í fyllstu gnægð, án þess að gengið sé á náttúruna. Við trúum á Jesú Krist, friðarhöfðingjann sem kemur á sáttum milli Guðs og manns. Leið Jesú er leið virkrar auðmýktar, án ofbeldis. Við sem fylgjum Jesú ættum að fara sömu leið, leita sátta við samferðafólk okkar og vera tilbúin að þjást fyrir réttlætið í trausti til náðar Guðs. Og við trúum á heilagan anda sem gefur og viðheldur öllu lífi. Við tökum á móti helgandi nærveru Guðs og leitumst við að vernda líf og gera heilt það sem aflaga hefur farið.

Von og gjöf Með 2Pét 3.13 væntum við - eftir fyrirheiti Guðs - ,,nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr” og erum þess fullviss að þríeinn Guð muni fullna sköpunarverkið við lok tímans. Réttlæti og friður eru þannig sá veruleiki sem við viljum sjá í dag en líka fyrirheit um það sem koma skal – hvorttveggja í senn, von fyrir framtíðina og gjöf inn í aðstæður okkar hér og nú. Það sem að okkur snýr sem kristnu fólki er að byggja líf okkar á friði Guðs og láta sáttargjörð Krists gefa okkur kraft til að vera ,,umboðsmenn sáttar og friðar í réttlæti á heimilum okkar, í kirkjum og þjóðfélögum,” eins og segir í samþykkt 8. allsherjarþings Heimsráðsins (Harare 1998).

Meðal þess sem nefnt er í yfirlýsingunni er nauðsyn þess að rjúfa þögnina sem víða ríkir um ofbeldi á heimilum, í kirkjum og þjóðfélögum. Þjálfa þarf fólk til að vera boðbera friðar, t.d. með friðarfræðslu í kirkjum og skólum. Sérstakur kafli er líka um réttlátan frið við jörðina svo að hér verði áfram lífvænlegt. Þá er efnahagslífið til umfjöllunar með ákalli um að fara varlega með auðlindir jarðar, varast græðgi og auðsöfnun og gæta að því að allir jarðarbúar hafi aðgang að hreinu vatni, lofti og öðrum sameiginlegum gæðum. Ógnin sem stafar af tilurð vopna, ekki síst kjarnavopna, er einnig undirstrikuð og bent á mikilvægan þátt kirkna og kirkjusamtaka í sáttmálum gegn slíkri mannkynsvá. Friður er lífsmunstur Friður er lífsmunstur sem endurspeglar þátttöku manneskjunnar í ást Guðs til gjörvallrar sköpunar, segir í yfirlýsingunni. Saman heitum við því að leita friðar og vernda líf; biðja um frið, kenna og ástunda frið hvar sem við erum. Saman heitum við því að standa vörð um mannlega reisn og leggja stund á réttlæti í allri framgöngu. Að vernda líf í réttlæti og friði er okkar sameiginlega verkefni, hver sem við erum og hvar sem við dveljum.

Ég vil hlýða á það sem Drottinn Guð talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra er snúa hjarta sínu til hans. Hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann svo að dýrð hans megi búa í landi voru. Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast. Trúfesti sprettur úr jörðinni og réttlæti horfir niður af himni. Þá gefur Drottinn gæði og landið afurðir. Réttlæti fer fyrir honum og friður fylgir skrefum hans. Sálm 85.9-14

Guð lífsins, leið okkur til réttlætis og friðar!