Skallapopphljómsveitin Klíkan söng um fjólublátt ljós við barinn fyrir nokkrum árum. Nú rennur upp fjólublái tíminn í kirkjuárinu, tími föstunnar þegar skrúði og umhverfi taka mið af lit iðrunar og undirbúnings. Fastan stendur frá öskudegi til bænadaganna fyrir páska. Hún er tími þegar sem hin trúaða er kölluð til að taka burt það sem skaðar og hindrar og setja í staðinn það sem auðgar og hjálpar.
Föstudagarnir 40 kallast táknrænt á við tímann þegar Jesús var í eyðimörkinni einn með sjálfum sér án þess að neyta matar, sem segir frá í Mt 4.1-11 og Lk 4.1-13. Kristið fólk um allan heim hefur föstutímann í heiðri, þótt með misjöfnum hætti sé. Sérstaklega kallar fastan á lífstíl einföldunar og fórnfýsi, í þágu trúarlegs undirbúnings og ögunar. Í veraldlegu samhengi tekur föstutíminn gjarnan á sig mynd aðhalds á mat og drykk og líkamlegrar ögunar - stundum í formi megrunar eða detox.
Tilgang föstutímans er vissulega að finna í föstunni sjálfri. Hún er andleg vorhreingerning sem hefst með því að við tökum stöðuna á okkur sjálfum og ráðumst svo í hreingerninguna með þeim tækjum og tólum sem gagnast best. Hreingerningin miðar að því að losna við það sem þvælist í veginum fyrir fullu og sönnu samfélagi við Jesú Krist og það sem hindrar okkur í þjónustunni við bræður okkar systur.
Á sama hátt og fastan miðar að því að taka í burtu það sem hindrar vöxt og þroska trúar og eftirfylgdar, hvetur hún til þess að iðka það sem er gott og þjónar öðrum. Góðverk, eins og ölmusugjafir eru hitt höfuðmarkmið föstutímans. Ölmusa samtímans felst í miklu meira en að gefa fé til þeirra sem eru án þess. Ölmusa er að gefa af sjálfri sér og getur verið tími, pláss, athygli, þolinmæði, vinskapur og kærleikur.
Gjafmildi og gát gagnvart auðlindum náttúrunnar og jörðinni okkar er líka nærtæk föstuiðkun. Fastan er barómeter á þau svið í lífi okkar þar sem ójafnvægi og misnotkun hefur búið um sig. Hún er líka tækifæri til að snúa við á þeirri braut og byrja að bæta um betur.
Fastan er þannig andleg vegferð með líkamlegum vörðum góðra verka og aðhalds. Kannski finnum við best á föstunni hvað líkaminn og andinn eru tengd - og að ekki gengur að reyna að rjúfa tengslin þar á milli.