Löngu liðinn atburður sem er enn að gerast!

Löngu liðinn atburður sem er enn að gerast!

Enn er þörf fyrir boðskap barnsins frá Betlehem og börn samtímans þarfnast elsku okkar sem nærist af elsku Jesú Krists. Það erum blikur í á lofti í samtímanum. Börnin okkar eru að mörgu leyti berskjölduð fyrir andelgum hroða og eitri sem ausið er yfir þau af markaðsöflum sem hafa fá eða engin siðferðisviðmið. Og fjölmiðlarnir, svo góðir og nytsamir sem þeir annars eru, eru burðardýr.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
24. desember 2006
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi – og gleðileg jól!

Til hamingju með jólin og hina ótrúlega fögru og göfugu, íslensku jólahefð! Já, hún er einstök þessi hefð sem gerir aðfangadag að hátíð barnanna og barnsins í okkur öllum. Hefðin tengist innsta kjarna og inntaki jólanna, barninu sem lagt var í jötu meðal dýra og dauðlegra, fátækra manna.

Jólasagan er ótrúleg. Eiginlega of ótrúleg til að geta verið sönn. En sannleikur hennar liggur einmitt í því að hún er svo ótrúleg að engum spunameisturum hefði getað til hugar komið að láta hana gerast einmitt með þessum hætti. Við getum vel séð fyrir okkur hvernig nútíminn hefði látið þessa sögu gerast í anda X-factor þáttanna með sívaxandi spennu, og víxlverkun vonbrigða og hamingju. Nei, jólasagan er ekki eins og ævintýri, hvað þá raunveruleikaþáttur í sjónvarpi. Hún er í raun nöturleg en á sama tíma undursamlega fögur í einfaldleika sínum og fábrotnum aðstæðum, raunsönn í einfaldleika sínum og tærri fegurð.

Eitt af því sem gerir kristindóminn svo heillandi, sem raun ber vitni, er að í honum búa andstæður, sem stöðugt koma á óvart og sannfæra mann um að leikstjórinn í öllu þessu stórkostlega drama er persóna sem ekki hefur þá annmarka sem syndugir menn hafa. Að baki jólaundrinu er meiri snilld en mannlegur hugur býr yfir. Að baki jólaundrinu er almáttugur Guð sem teflir fram einum atburðinum á eftir öðrum í hjálpræðissögunni sem nær hámarki í fæðingu Krists. Og þvílíkt lokaatriði! Enn erum við að dást að þessum atburði sem markaði skil í sögu mannskyns, svo afgerandi skil að við miðum tímatal okkar við fæðingu frelsarans og komum enn saman á aðfangadagskvöld til að gleðjast og fagna yfir því að Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Veröldin er breytt! Hún á sér von!

Kristin trú byggir á sögulegum heimildum. Enginn þarf að velkjast í vafa um að Jesús Kristur var til. Um hann eru heimildir í kristnum helgiritum og ennfremur í ritum sagnaritara á fyrstu öld eftir Krist sem ekki tilheyrðu kristnum hópum. Fáar heimildir, ef nokkrar, frá dögum Jesú, eru studdar af eins áreiðanlegum handritum og Nýja testamentið. Rit fræðimanna frá sama tíma og tímanum fyrir Krist, rit sem flestir fræðimenn nú á dögum bera engar brigður á, eru samt ekki nándar nærri eins áreiðanleg og Nýja testamentið. Kristin trú byggir ekki á ævintýrum og skröksögum heldur vitnisburði samtímamanna, sem þekktu Krist, heyrðu hann tala, sáu hann vinna miskunnarverk, urðu vitni af krossfestingu hans og áttu samfélag við hann upprisinn. Þetta fólk sannfærðist um að barnið sem fæddist í Betlehem og var lagt í jötu, óx upp í Nasaret og varð fulltíða maður, sem ferðaðist um og kenndi, var meira en maður, var í senn Guð og maður. Kenning hans og líf allt er svo stórkostlegt að það tekur öllu mannlegu lífi fram. Samt var það ofur mannlegt, jarðneskt líf, sem þjáðist og fann til, barðist gegn órétti og valdníðslu, fordómum og hatri. Og varð að lokum að lúta í lægra haldi fyrir spillingu og hégóma dauðlegra, valdasjúkra manna og leiðitams hluta alþýðunnar sem skipti um skoðun eins og vindurinn.

Vandi okkar nútímamanna, margra okkar að minnsta kosti, er að aðstæður okkar, sem að sínu leyti eru þakkarverðar, eru orðnar fjarri þeim veruleika sem var hin fyrstu jól. En á sama tíma eru þau ótalmög sem búa við álíka kjör og samtímamenn Jesúbarnsins bjuggu við forðum: fátækt, órétt, kúgun, valdníðslu, allsleysi, örbyrgð.

Enn er þörf fyrir boðskap barnsins frá Betlehem og börn samtímans þarfnast elsku okkar sem nærist af elsku Jesú Krists. Það erum blikur í á lofti í samtímanum. Börnin okkar eru að mörgu leyti berskjölduð fyrir andelgum hroða og eitri sem ausið er yfir þau af markaðsöflum sem hafa fá eða engin siðferðisviðmið. Og fjölmiðlarnir, svo góðir og nytsamir sem þeir annars eru, eru burðardýr hinna andlegu eiturefna, einkum sjónvarpið. Og börnin eru ekki bara í hættu heldur og fullorðnir sem í vaxandi mæli láta undan andsiðferðilegum og lúmskum áróðri spunameistara græðginnar og hömluleysisins og freistast til þess að halda að taumleysið sé heilbrigt þegar það leiðir af sér sjúkt líf og óheilbrigði af mörgum toga.

En á sama tíma og hroðinn eykst er heimurinn að skreppa saman. Hann er í raun eitt stórt þorp. Íslendingar telja nú 307 þúsund manns en voru 250 þúsund fyrir nokkrum árum. Hvenær náum við því að verða 1 milljón? Og hversu stór hluti þjóðarinnar verður þá af öðrum uppruna en norrænum? Við verðum að læra að lifa í samfélagi ólíks fólks, af ólíkum uppruna og með ólíkar trúarskoðanir. En á sama tíma þurfum við að standa vörð um rétt okkar til að tilbiðja Guð á þann hátt sem við höfum kosið. Kristin trú hefur verið sjálfsögð lengi vel. En nú er sótt að henni af fólki með aðrar skoðanir sem ekki vill una kristnu fólki þess að vera í meirihluta og hafa sína siði og venjur. Fjölhyggjusamfélag byggist ekki upp með því að fela skoðanir, heldur með því að skoðanir séu viðurkenndar og virtar, að þær fái að vera uppi á yfirborðinu og njóti þar sannmælis, séu gagnrýndar og ræddar innan marka siðferðis- og stjórnarskrárákvæða og að enginn verði látinn gjalda trúar- eða lífsskoðana sinna.

Kristin trú er í grunninn trú sem boðar kærleika og réttlæti. Hvergi í heiminum eru lífskjör betri og lýðréttindi meiri en í hinum kristna heimi. Það er umhugsunarefni. Á 2. í jólum er svonefndur Stefáns dagur frumvotts haldinn heilagur. Þann dag er fyrsta píslarvotts kristninnar minnst. Í hátíðarguðsþjónustu á 2. í jólum mun ég ræða í prédikun minni m.a. þörfina fyrir að standa vörð um kristna trú og það að kostnaðurinn við að trúa kunni að verða meiri í náinni framtíð en hingað til í sögu kristninnar í landinu. Á nýársdag hyggst ég svo ræða trú og stjórnmál í víðum skilningi, líta um öxl og skoða atburði á sviði heimsmála í ljósi kristinnar trúar og velta fyrir mér hvort við höfum gegnið götuna til góðs.

En í kvöld fögnum við barninu sem fæddist á jólum, fögnum með börnum okkar og barnabörnum og leyfum barninu í okkur sjálfum að fagna því að Jesús er kominn í þennan heim. Atburður jólanna, hinn fyrsti atburður, er stöðugt að gerast. Kristur er og var og kemur, segir Jóhannes guðspjallamaður. Á himinfestingunni loga ljós sem við getum séð með berum augum, ljós sem kviknuðu fyrir þúsundum ára, sum um það leyti er Jesús fæddist – þau loga enn. Löngu liðnir atburðir eru enn að gerast og birtast fyrir augum okkar. Lífið er undur og kraftaverk! Kristur kemur í kvöld, hann sem er og var og kemur.

Til hamingju með jólin, til hamingju með að hafa verðveitt jólin í hjarta ykkar, til hamingju með lífið, til hamingju með að lífið er í hendi Guðs, að líf og dauði er í hendi Guðs og að við þurfum ekkert að óttast, því Guð er sestur að völdum í mildi og visku barnsins sem fæddist í Betlehem.

Gleðileg jól, í Jesú nafni. Amen.