Láttu ekkert ræna þig gleðinni

Láttu ekkert ræna þig gleðinni

Hryggð er hluti lífsins. Við finnum til þegar við missum þau sem okkur eru kær eða þegar aðstæður verða okkur andstæðar á einhvern hátt. En loforð Jesú er óhagganlegt: Hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

Þegar frumburðurinn minn – sem núna er á 16. ári – var sex vikna fékk hann heiftarlega í eyrun með tilheyrandi næturvökum og gráti. Mér lærðist fljótlega að það sem virtist vera heil eilífð tók um síðir enda og við fengum frið fyrir eyrnabólgunum um sinn – þangað til næstu veikindi tóku við. Við þessa hversdagslegu lífsreynslu áttaði ég mig á því að lífið samanstendur af tímabilum. Stundum eigum við góða tíma. Stundum eru tímarnir erfiðir.

Við minnumst gjarnan gömlu daganna með eftirsjá. Það er eins og við munum ekki lengur það sem var erfitt. Allt var svo gott hér áður fyrr. Samt vitum við betur. Við viljum bara ekki muna það sem var erfitt. Eitt og annað verður til að minna okkur á, orð falla, lag heyrist í útvarpinu. Ýmislegt vekur minningar, bæði góðar og slæmar.

Í lexíu dagins sem er frá spámanninum Jesaja (43.16-19) minnir Guð okkur á hvernig hann hefur vakað yfir okkur alla tíð. Hann rifjar upp hvernig hann frelsaði Ísraelsmenn út úr þrælahúsinu, út úr Egyptalandi, eins og segir í grundvelli boðorðanna 10, fyrsta boðorðinu, og kom þeim í gegn um Rauðahafið. Við eigum hins vegar ekki að staldra við það sem var: Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? (Jes 43.17-18).

Það sem Guð gerði fyrrum er hann líka megnugur að gera í dag: Ég geri veg um eyðimörkina og fljót í auðninni (Jes 43.19). Guð hefur á svo margvíslegan hátt hjálpað mér í lífinu. Ég get fullyrt að án hans væri ég ekki á lífi. Alla vega lifði ég ekki því lífi sem ég geri í dag án hjálpar Guðs. Ég hef komist í gegn um erfið tímabil lífsins – sem eyrnabólgur sonar míns eru bara vægt dæmi um – og ég hef notið góðra tíma.

Þannig er það um okkur öll. Þannig er líka þjóðinni okkar varið. Íslenska þjóðin hefur séð það svartara, sagði maður við mig um daginn. Jú, víst höfum við bæði séð erfiðari tíma en þessa en tímarnir hafa líka verið hagstæðari að ýmsu leyti. Orð Guðs í lexíu dagsins minna okkur á að allt er þetta í hendi Guðs. Hann er þess megnugur að gera veg um eyðimörk lífs okkar og fljót í auðninni.

Og svo heyrum við orð Jesú um hryggðina og fögnuðinn (Jóh 16.16-23): Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Hryggð er hluti lífsins. Við finnum til þegar við missum þau sem okkur eru kær eða þegar aðstæður verða okkur andstæðar á einhvern hátt. En loforð Jesú er óhagganlegt: Hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Og Jesús heldur áfram og tekur líkingu úr lífi manneskjunnar: Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Við vitum að þetta er satt. Sum okkar hafa reynt þetta sjálf og önnur verið vitni að þrautum barnsfæðingarinnar og fundið gleðina þegar allt hefur lánast vel og barnið er komið lifandi í faðm móður sinnar. Þannig snýst oft hin mesta þraut til hins mesta láns.

Þegar ég var lítil stúlka las ég oft í sálmabókinni. Ég var alin upp á prestsetri norður í landi og hlýt að hafa verið afar trúrækið barn. Í gömlu sálmabókinni – þeirri sem var á undan sálmabókinni frá 1972 – var lítið vers sem ég skrifaði upp á ritvélina hans pabba og setti inn í fínu hvítu sálmabókina mína sem gamall maður gaf mér árið 1976. Þetta vers eftir sr. Björn í Laufási talaði til barnshjartans og ég kann það enn:

Sál mín hrind þú harmi´ og kvíða hvers kyns neyð sem fyrir er. Heyr þú raust þíns herra blíða hana segja láttu þér: Það sem horfir þyngst til móðs þér skal verða mest til góðs. Huggarinn á himni bætir hvað sem mæðir þig og grætir.

Það sem horfir þyngst til móðs – þér skal verða mest til góðs. Þessi viska hefur fylgt mér æ síðan og komið mér í gegn um erfiðu tímabil lífsins. Það er satt sem frelsarinn segir: Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Láttu engan og ekkert taka fögnuð þinn frá þér.