Klám

Klám

Við tökum heilshugar undir þessa bæn, bæn um endurnýjun, hreinsun, helgun. Og við biðjum þess að við mættum, hvert á okkar hátt sem einstaklingar, fjölskyldur og kristin trúfélög, standa vörð um rétt hverrar manneskju til að lifa með reisn og njóta virðingar.

Flutt 20. janúar 2018 · Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Á þessu ári eru 110 ár liðin frá því að átta daga bænavaka fyrir einingu kristinna manna var fyrst haldin. Forgöngu hafði séra Paul Wattson, anglikanskur prestur í New York. Það starf ásamt öðru var undanfari Alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar sem er haldin árlega hér á landi og víða um heim dagana 18 – 25. janúar. Fyrir 50 árum, árið 1968, var fyrst undirbúið sameiginlegt efni til notkunar um allan heim á vegum Alkirkjuráðsins og Kaþólsku kirkjunnar. Efnið, lestrar, bænir og hugleiðingar, kemur frá mismunandi löndum hverju sinni og er að finna í íslenskri þýðingu á www.kirkjan.is/baenavika/ og www.lindin.is/althjodleg-baenavika-2018/.

Draumastaður sjóræningja

Í ár kemur efnið frá kirkjum í Karabíska hafinu og er yfirskriftin „Hönd þín, Drottinn, hefur gert sig dýrlega“. Fjallað er um afleiðingar nýlendustefnunnar á karabíska svæðinu og ýmsa fjötra sem fólk glímir við, svo sem mansal, klám, ofbeldi, skuldir og fátækt.
Karabíska hafið, réttara Karíbahaf, áður Vestur-Indíur, er haf sem afmarkað er af norðurströnd Suður-Ameríku, Atlantshafinu, Mexíkóflóa og Mið-Ameríku. Þar er vinsælt að sigla um á skemmtiferðaskipum á slóðir sjóræningja fyrrum. Nýlenduveldið Spánn flutti reglulega um hafið stóra skipsfarma af góðmálmum og eðalsteinum frá Suður-Ameríku og því var Karíbahafið draumastaður sjóræningja fram á 18. öld.

Í Karíbahafi eru ekki færri en 7000 eyjar og því skipt í 25 yfirráðasvæði sem ýmist eru sjálfstæð ríki eða hlutar annarra ríkja. Sumar smáeyjanna eru í einkaeigu. Hafið dregur nafn sitt af Karíbum, indíánum sem bjuggu á eyjunni Hispaníóla þegar Kristófer Kólumbus kom þangað árið 1492, en það var Kólumbus sem gaf svæðinu nafnið Vestur-Indíur.

Skaðleg áhrif nýlendustefnunnar

Stórveldi Evrópu - Spánn, Bretland, Danmörk, Frakkland og Holland - lögðu svæðið undir sig á 16. og 17. öld og börðust einnig innbyrðis um yfirráð. Fjöldi Karíba á eyjunum hrundi eftir komu Evrópumanna þangað bæði vegna átaka, þrælahalds og sjúkdóma. Nokkur hundruð afkomendur þeirra búa enn á eyjunum og víðar og um 3000 Karíbar búa á Dóminíku. Aðrir frumbyggjahópar dóu út í kjölfar landnáms Evrópumanna á 17. öld vegna sjúkdóma og harðræðis.

Nýlenduherrarnir stofnuðu meðal annars sykurplantekrur og fluttu inn þræla frá Vestur-Afríku. Þrælahald var lagt af árið 1834 en sumsstaðar eru afkomendur þrælanna eru meira en 90% íbúa. Sumar eyjanna, eins og til dæmis Antígva og Barbúda, eru viðkvæmar fyrir náttúruhamförum. Þannig hafa fellibyljir valdið miklu tjóni frá 1995. Skortur á vatnsbólum takmarkar víða þróun landbúnaðar en ferðamannaiðnaður er víða meginstoð efnahagslífsins.

Jamaíka, Caymanneyjar, Púertó Ríkó…

Kirkjufólkið sem samdi efni bænavikunnar að þessu sinni kemur frá Antillaeyjum, Jamaíku og Caymanneyjum, Trínídad og Tóbagó, Púertó Ríkó, Bahamaeyjum, Antígva, Angvilla, Turks- og Caicos eyjum ásamt Gvæjana sem er á fastlandi Suður-Ameríku. Þau tilheyra anglíkönskum, öldungakirkjum og sameinuðum kirkjum, baptista og meþódistakirkjum, rómversk-kaþólsku kirkjunni og móravísku kirkjunni (hússítar).

Sem fyrr segir fjallar efnið um afleiðingar nýlendustefnunnar á karabíska svæðinu og ýmsa fjötra sem fólk glímir við, svo sem mansal, klám, ofbeldi, skuldir og fátækt. Þess er beðið að iðrun, sátt og endurreisn mannlegrar virðingar verði komið á, ekki síst fyrir tilstuðlan kirknanna sem veita margvíslega aðstoð á svæðinu.

Klámi líkt við þrælahald

Áhyggjur karabíska kirkjufólksins af klámi, ekki síst á netinu, er umfjöllunarefni dagsins. Þau segja: „Klám hefur afar neikvæð áhrif á mannlega reisn, einkum þegar börn og ungmenni eiga í hlut. Líkt og þrælahald hlutgerir það fólk, hneppir þá sem verða háðir því í fjötra og veldur heilbrigðum ástarsamböndum skaða.“

Biblíutextarnir sem eru valdir fyrir daginn í dag fjalla í fyrsta lagi um umhyggju Guðs fyrir þeim sem eru í fjötrum og loforð um björgun frá þeirri eymd og þjáningu sem kúgun veldur (2Mós 3.4-10).

Í öðru lagi er skorað á okkur að hafa „flekklausar hendur og hreint hjarta, sækjast ekki eftir hégóma og vinna ekki rangan eið“ (Sálm 24.1-6) en allt þetta er auðvelt að tengja við klámfíkn og eyðileggjandi áhrif hennar. Hjónabönd hafa beðið óbætanlegan skaða vegna þess að annar aðilinn varð háður hégómanum klámi sem flekkar hendur og hjarta og oftast er farið í felur með vegna þess að viðkomandi veit upp á sig skömmina. Þegar upp kemst er sársaukinn mikill og í besta falli tekur við langt og erfitt ferli til að losna úr fjötrum klámhegðunar.

Góðu fréttirnar eru að Guð heyrir kvein þeirra sem eru þrælar eða þolendur slíkrar hegðunar. Með Guðs hjálp er unnt að snúa við, já Guð kemur til að „leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent“ eins og segir í fyrsta textanum (2Mós 3.8).

Misbeiting er ekki kristnu fólki sæmandi

Í þriðja lagi er varað við saurlífi og hórdómi og því að misnota aðra. Við erum minnt á að líkami okkar og annarra er ekki bara vél sem við getum gert hvað sem er við heldur „musteri heilags anda sem í okkur er og við höfum frá Guði“ (1Kor 6.9-20). „Það merkir að öll svið lífs okkar,“ eins og segir í efninu, eiga að vera helguð Guði og öll misbeiting okkar sjálfra eða annarra er ekki kristnu fólki sæmandi.

Kannski finnst einhverjum það fullmikið að tala um það að horfa á klám í tölvunni sem misbeitingu en það er tvennt sem styður þá fullyrðingu. Annars vegar misbjóðum við eigin huga og bjóðum hættunni heim að yfirfæra það sem við sjáum í tölvunni yfir á einhvern í umhverfi okkar. Hins vegar eru þau sem starfa í klámiðnaðinum oft í einhvers konar fjötrum, undirseld mannskemmandi aðstæðum sem hafa víðtæk áhrif á líf þeirra. Með því að vera neytandi kláms styðjum við þrældóminn sem margir eru hnepptir í, jafnvel börn.

Grafalvarlegt mál

Í fjórða lagi heyrum við orð Jesú um börnin, smælingjana (Matt 18.1-7): „En hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.“ Þar höfum við það. Í augum Guðs er það grafalvarlegt mál, já dauðasök í andlegum skilningi, að menga líf barna og ungmenna. Klám er ein birtingarmynd slíkrar lífsmengandi hegðunar. Guði er ekki sama og við erum kölluð til að hlú að mannlegri reisn og láta okkur varða kjör fólks á þessu sviði sem öðrum.

Hitt er annað, að „kynferðið [e. Sexuality] er gjöf Guðs fyrir sambönd fólks og til að tjá ástúð og nánd,“ eins og segir í efninu í þýðingu sr. Hjalta Þorkelssonar. Kynlíf er eðlilegur hluti lífsins og hvergi fordæmt sem slíkt í Biblíunni. En það er afskræming þess sem fjötrar og skemmir, innan og utan veggja heimilisins.

Að standa vörð um mennskuna

Í bæninni sem karabíska kirkjufólkið sendir okkur og lesin er víða um heim á þessum degi, þriðja degi alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar, segir:
Endurnýja þú líkama okkar og huga, Guð,
fyrir himneska náð þína.
Skapa í okkur hreint hjarta og hreinan huga
svo að við vegsömum nafn þitt.
Sameina kirkju þína
svo að fólkið þitt helgist
fyrir Jesú Krist,
sem með þér lifir og ríkir
í einingu Heilags Anda,
um aldir alda.
Amen.

Við tökum heilshugar undir þessa bæn, bæn um endurnýjun, hreinsun, helgun. Og við biðjum þess að við mættum, hvert á okkar hátt sem einstaklingar, fjölskyldur og kristin trúfélög, standa vörð um rétt hverrar manneskju til að lifa með reisn og njóta virðingar.

Ekkert okkar getur upp á eigin spýtur stöðvað veldi klámiðnaðarins og bjargað þeim sem þjást í fjötrum hans á svo margvíslegan hátt. En við getum öll beðið, beðið Guð um að varðveita okkur sjálf og fólkið í kring um okkur, ekki síst börnin, frá því sem misbýður mennskunni, og stuðlað að vitundarvakningu og hagnýtri hjálp á hvern þann hátt sem okkur er unnt.

Hægri hönd Guðs

Lokaorð efnisins í dag eru ljóðræn yfirlýsing um hægri hönd Guðs, sem er meginþema vikunnar, hægri hönd Guðs sem er tákn fyrir kraft Guðs (sbr. 2Mós 15.6), snertingu Guðs sem miðlar lækningu og endurreisn.
Hægri hönd Guðs
læknar í landi okkar,
læknar það sem brast í líkama okkar og sál;
svo dásamleg er snerting hennar, handar Guðs,
og kærleikurinn mikilsverður,
því að Guð læknar okkur
með hægri hendi sinni.

Megi Guð snerta við þínu lífi og mínu að við fáum lifað lífi í reisn og virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum.

Flutt að kvöldi 20. janúar 2018 í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, á Samkirkjulegri alþjóðlegri bænaviku