Salt jarðar

Salt jarðar

,,Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það?“(Matt. 5:13) Þessi orð Jesú eru ein af þeim sem menn vitna hvað oftast til í Biblíunni á meðal kristinna manna í Japan....
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
07. september 2009

,,Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það?“(Matt. 5:13) Í þessu samhengi þýðir ,,salt jarðar“ eitthvað sem hefur áhrif á heild jafnvel þótt magnið sé lítið eða eitthvað sem er ómissandi fyrir heildina jafnvel þótt í litlu magni sé. Þessi orð Jesú eru ein af þeim sem menn vitna hvað oftast til í Biblíunni á meðal kristinna manna í Japan. Ef tíu manna japanskur söfnuður væri spurður hvaða orð Jesú í Biblíunni væru í mestu uppáhaldi þá myndu a.m.k. fjórir til fimm meðlimir hans kjósa þessi orð.

Ástæða þess er sú að japanskt, kristið fólk tekur þessi orð Jesú bókstaflega, því finnst þeim beint til sín. En í Japan er aðeins 1% af íbúafjöldanum kristið og það þarf sjálft að standa straum af öllum kostnaði við safnaðarstarfið. ,,Það er hægt að hafa áhrif á heild þó að við séum í minnihluta“. Kristnir menn í Japan finna bæði jákvæð skilaboð frá Jesú og köllun í orðunum ,,salt jarðar“.

Þrátt fyrir smæð sína hefur kristnin í Japan haft mikil áhrif á samfélagið þar. Áhrif kristninnar má sjá t.d. í sögu þróunar lýðræðis, í sögu verkamannahreyfingar, í mótmælahreyfingum gegn stríði og í bókmenntum. En hvernig höfðu þau áhrif? Í stuttu máli með því að segja ,,NEI” þegar meirihlutinn sagði ,,JÁ” eða með því að vekja athygli á fleiri flötum mála sem aðrir tóku sem sjálfgefið mál. En kristið fólk stóð vitaskuld ekki andspænis meirihlutanum aðeins til að vera á móti. Það var vegna réttlætiskenndar sinnar sem fólkið tjáði sig.

Hér á Íslandi hafa kristin trúarbrögð verið nær yfirgnæfandi í sögunni allt frá kristnitökunni þótt fólki hafi verið að fækka í þjóðkirkjunni síðastliðin ár. Það hlutverk sem japanska kirkjan tekur að sér sem ,,salt jarðar“ virðist frekar tilheyra þeim sem falla undir önnur trúarbrögð en kristni eða trúleysingja hér á landi ef marka má orðið ,,jarðarsalt“ í merkingu um meiri- eða minnihluta. Við sem erum í kirkjunni skulum muna þetta og virða hlutverk þeirra sem jarðarsalts. Það er ekki endilega það sama og vera sammála þeim í ýmsum málum.

En snertir orðasambandið ,,salt jarðar“ í aðeins mál sem snerta meirihluta eða minnihluta. Ef það er svo, virðist orðasambandið að eiga lítið erindi fyrir þá sem búa í löndum sem telja sig til ,,kristinna þjóða,” Í eðli sínu hafa mál þar sem meiri- og minnihluti myndast um engin tengsl við það hvort eitthvað sé rétt eða rangt, eða að eitthvað sé eftirsóknarvert eða ekki. Meirihlutinn getur haft rangt fyrir sér og stuðlað að einhverju sem er ekki eftirsóknarvert en það getur líka verið öfugt líka. Þar snýst málið einfaldlega um fjölda þess og hlutfall af heildarfjölda sem styðja ákveðið sjónarmið. Er það kjarni sem Jesús hafði í huga þegar hann fjallaði um jarðarsalt?

Ef við skoðum djúpt persónuleika hverrar manneskju, þá hefur sérhver sína eiginleika og eigindir. Kjarni manneskjunnar eru raunar blanda af persónuleika, eiginleikum og eigindum, hæfileikum og köllun, nefnilega kjarni manneskjunnar, það sem gerir hana að henni sjálfri. Yfirborðsleg aðgreining, sem oftast er notuð til þess að draga línu á milli meirihluta eða minnihluta eins og t.d. þjóðerni, húðlitur, kynhneigð eða pólitískar skoðanir, ná ekki til þessarar dýptar. Sérhver manneskja er m.ö.o. einstök tilvera og hana er ekki hægt að leysa af hendi af einhverri annarri manneskju. Virði persónuleika manneskju og samband hennar við aðrar er einfaldlega einstakt. Þetta er augljóst þegar við sjáum hvers virði barn og börn hefur fyrir föður og móður. Manneskja getur tekið yfir vinnu föðursins eða móðurinnar og verið til staðar en hún getur aldrei komið í stað foreldranna sjálfra.

Í þessu samhengi er manneskja alltaf í minnihluta - eða nákvæmlega sagt ,,alein“. Það er víst eftirsóknarvert fyrir mann að lifa lífi sínu eins og maður sjálfur. En stundum getur það verið óþolandi álag að vera maður sjálfur vegna einmitt þess eiginleika eða hæfileika. Þeir sem hafa t.d. stundum óvenjulmikla hæfileika í íþróttum eða tónlist þurfa að þjálfa sig meira og gefa meira af sér en venjulega er. Þeir sem hafa fundið köllun sína í hjúkrun þurfa oft að horfast í augu við margt sorglegt og hryllilegt. Það getur því oft verið auðveldara að kasta eiginleika sínum og köllun í burtu og fela sig í hóp eða í einhverri staðalímynd og þykjast vera ,,eins og margir aðrir,” Að halda í eiginleika sína er m.ö.o. að vera öðruvísi en margir aðrir.

Eins og við getum ímyndað okkur þykir eiginleikinn kostur þegar hann virkar vel en um leið og hann gerir það ekki verður hann að galla. Hver er raunar munurinn á milli þess að vera umburðarlyndur maður og þess sem þorir ekki segja hug sinn, að hafa sterkan vilja og að vera þrjóskur? Það gæti einnig gerst að sá lífsháttur sem maður kýs fyrir sjálfan sig falli ekki að væntingum fólks í kringum okkur. Þannig þegar við höldum í eiginleika okkar, lifum við jafnframt með göllum okkur og jafnvel ágreining við aðra. Enginn er fullkominn.

En við sem leggjum trú okkar á Jesú Krist finnum stuðning í einmanaleika sem við þurfum að þola sí og æ til þess að lifa lífi okkar eins og við sjálf. Sá stuðningur kemur frá Jesú eða hann sjálfur er stuðningurinn. Því að eiginleiki hans sem Guðs sonur þekur okkar ófullkomleika. Vegna eiginleika hans getum við verið ófullkomnir menn fyrir augum Guðs. Við mætum Jesú í þessari dýpt lífsins okkar. Trúin er því hluti eiginleika okkar, sem gerir oss að okkur sjálfum. Er þessi eiginleiki okkar ekki salt jarðar sem Jesús á við?

Við erum salt jarðar. Og salt dofnar ekki svo framarlega sem við erum eins og þau sem við erum með og í trú á Jesú. Óttumst ekki og verum við sjálf. Jesús óskar þess.