Aðferðafræði þrautsegjunnar

Aðferðafræði þrautsegjunnar

Þegar kom að því að velja ritningarvers drengsins, völdu þeir það saman, og að baki valinu er leiðbeining og umvöndun föður sem vill dreng sínum vel. ,,Leitið og þér munuð finna” snýst ekki bara um trúnna sagði Jens syni sínum, það á líka við í lífinu.

Það er vor í lofti á margvíslegan hátt í kirkjunni þessa dagana. Síðasta vika hefur verið vika voruppskeru í Neskirkju en allt barnastarf kirkjunnar er nú komið í sumarfrí. Síðastliðinn sunnudag var vorferð sunnudagaskólans en úr messu fór rúta á sveitabæinn Grjóteyri í Kjós þar sem að sunnudagaskólabörn, foreldrar, ömmur og afar fengu að koma við ungviðið á bænum og borða pylsur í sveitaloftinu.

Síðan tók við uppskeruvika þar sem að á þriðja hundrað grunnskólabarna fengu pylsur, djús og krassandi krókódílasögu í tilefni vorslita í barnastarfinu. Stúlknakórinn og barnakórinn héldu sína pylsuveislu og á fimmtudag heimsótti stúlknakór Neskirkju skólakór Kársness og kórarnir sungu saman. Eftir gjöfulann vetur er því reglulegt helgihald, fræðslu og tónlistarf með börnum Vesturbæjar komið í frí.

Í sumar verða hér hópar unglinga að störfum, leiklistarstarf kirkjunnar æfir vikulega í Neskirkju en sá hópur notar sumarið til að setja á svið gjörninga á fjölmennum stöðum og vekja þannig athygli á brýnum málefnum. Síðsumars verða í Neskirkju leikjanámskeið fyrir börn 6-10 ára og síðan hið merkilega sumarnámskeið fermingarbarna sem er frumkvöðlastarf okkar safnaðar og er nú haldið í 12 sinn.

Upptalningu minni er ætlað að vekja athygli á þeirri forgangsröðun sem að viðhöfð er í Neskirkjusöfnuði. Hér er ungt fólk sett í forgang.

Í þessari fyrstu messu minni sem æskulýðsprestur njótum við þeirra forréttinda að hafa með okkur skírnarbarn, hann Heiðar Örn, og fermingarungmenni, Jens Nikulás Quental. Skírnin og fermingin innsigla og innramma afstöðu kristindómsins til bernskunnar og þar með mennskunnar.

Það er fátt sem að ber með sér meiri helgi, meiri dulúð og nálægð við leyndardóm guðsríkisins en nýfætt barn. Ég komst ekki hjá því að rifja upp við foreldra Heiðars þá upplifun að heimili breytist í helgidóm við nærveru nýfædds barns. Þau tæru augu elskunnar sem að hvítvoðungurinn sér heiminn með og mætir okkur í augum Heiðars er samkvæmt Jesú lykillinn að því að skilja og skynja leyndardóm trúarinnar. ,,Leyfið börnunum að koma til mín. Því að slíkra er Guðs ríki.”

Við Íslendingar tölum oft um trú okkar sem barnatrú og vísa þannig í það trúaruppeldi sem að við fáum sem börn við rúmstokkinn eða hjá eldra fólki í fjölskyldunni. Hugmyndin um barnatrú er í eðli sínu falleg játning á mikilvægi trúaruppeldis og viðurkenning á þeim sannindum sem að Jesús miðlar með orðum sínum að í afstöðu bernskunnar endurspeglast trúartraust sem ber að stefna að á fullorðinsárum.

En skuggahlið hins barnslega trausts er sú, að þrátt fyrir að Guð og foreldrafaðmur séu örugg skjól, er heimurinn ekki traustsins verður.

Í dag er dagur barnsins en þeim degi er ætlað að minna á þá stöðu sem að börn búa við í heiminum. Í tilefni þess hefur barnaheill staðið fyrir ýmsum viðburðum undanfarna viku til að vekja athygli á þeim sára vanda sem að börn heimsins standa frammi fyrir. Einn leikskóla hér í sókninni, Mánagarður, hengdi upp 69 stórar rauðar blöðrur til að vekja athygli á þeirri staðreynd að 69 milljónir barna njóta ekki þeirra mannréttinda að læra að lesa, skrifa og reikna. Þá stóð barnaheill fyrir gjörningi á Austurvelli til minningar um þau 8 milljón börn sem að deyja árlega áður en þau hafa náð fimm ára aldri. Það er auðvellt að missa móðinn andspænis slíkum vanda og sannarlega finnur maður fyrir takmörkum sínum til að viðhalda hugsjónum um að breyta heiminum í brauðstriti hversdagsins.

Guðspjall dagsins færir okkur fá svör um hvers vegna óréttlæti heimsins bitnar ekki síður á smælingjum árið 2011 og á dögum Jesú, í tíðaranda sem svo oft vill setja sig á háann stall gagnvart því menningarstigi sem að viðmælendur Jesú bjuggu við.

Guðspjallið færir okkur hinsvegar raunsæja aðferðafræði um það hvernig að við getum sem samfélag, kirkja og einstaklingar breytt heiminum – eitt barn í einu.

Dæmisaga Jesú færir okkur slíka aðferðafræði, aðferðafræði þrautsegjunnar. Viðmælandinn sem að þessi ágengi maður fer til hefur samkvæmt sterkri ritskýringarhefð verið álitinn Guð og dæmisagan þannig kennsla í því hvernig að okkur ber að sýna staðfestu og þrautsegju í bæninni. Sú túlkun byggir meðal annars á framsetningu höfundar Matteusarguðspjalls á þessari dæmisögu Jesú. En sé textinn skoðaður er hvergi sagt, né gefið í skyn, að hér sé um Guð að ræða.

Eftir að hafa vakið ,,vin” sinn og dregið hann og börn úr rúmi á miðnætti biður söguhetja dæmisögunnar. ,,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.” Þannig bregst söguhetjan við svengd þess sem hann fer í umboði fyrir og hættir á það að brjóta kurteisisvenjur samfélagsins í þeirri viðleitni.

Hin sorglega staðreynd sem blasir við á degi barnins, 11 árum eftir að þúsaldarmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um að fyrir árið 2015 verði hugursneyð helminguð, öllum börnum heimsins tryggð grunnskóla-menntun og dánartíðni ungbarna lækkuð um tvo þriðju, er sú að þau markmið eru víðsfjarri. Vaxandi heimsmarkaðsverð matvæla og einræðis-stjórnarfar margra ríkja Norður Afríku og Asíu veldur því að hungursneyð fer vaxandi og ekki sér högg á vatni við að bæta möguleika barna til menntunar.

Það er auðvellt að missa móðinn andspænis slíkum vanda en það megum við ekki gera. Ekki sem einstaklingar, ekki sem kirkja og ekki sem samfélag. Þrautsegja og dónaskapur skiluðu árangri í dæmisögunni ,, Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.”

Fagnaðarerindi guðspjallsins boðar þó ekki frekju og dónaskap eitt og sér heldur kemur í beinu framhaldi orð Jesú ,,Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“

Við megum treysta því að séum við að beita okkur í þágu fólks, þeirra sem að hungrar og þyrstir, þeirra sem að ekki njóta þeirra mannréttinda að læra að lesa, skrifa og reikna og þeirra sem að halloka fara í samfélaginu, þá veitir heilagur andi okkur það sem við þörfnumst í þeirri viðleitni. Kraft, hugrekki, þrausegju, réttsýni og elsku.

Slík trú er ekki barnaleg trú, þó að hún byggji á þeirri heimsmynd að að baki veruleikanum sé ástrík hönd guðs og á þeirri sannfæringu að allar manneskjur séu helgar og eigi kröfu til matar og mannréttinda í gegnum lífið.

Ég fékk þau forréttindi í síðustu viku að verða vitni að samskiptum og sambandi þeirra feðga sem hér sitja, Jens Quental og Jens Jenssonar. Þegar kom að því að velja ritningarvers drengsins, völdu þeir það saman, og að baki valinu er leiðbeining og umvöndun föður sem vill dreng sínum vel. ,,Leitið og þér munuð finna” snýst ekki bara um trúnna sagði Jens syni sínum, það á líka við í lífinu.

Megi þessi ritningarorð vera þér og okkur öllum leiðarljós í þeirri viðleitni að leita Guðs, að vanda okkur lífinu, að sækjast eftir draumum okkar og að berjast fyrir réttlátari heimi.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.