Kirkjuhreyfingin

Kirkjuhreyfingin

Þegar menn finna kirkjunni samlíkingu verður skipið oft fyrir valinu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að eðli þess er að vera á hreyfingu. Það má ekki stranda á einhverju skeri bókstafstrúar og afturhalds þegar það þarf að geta haldið áfram í gegnum söguna, miðlað góðum boðskap og haft áhrif til batnaðar á samfélag sitt og umhverfi.

Textar: Sl. 91.1-4, Ikor 3.6-9 og Jóh. 4. 34-8.

Nú síðasta sunnudag bárum við inn nýja Biblíu í Keflavíkurkirkju með hátíðlegum hætti. Börn gengu inn gólfið með hina helgu bók í höndunum og henni var komið fyrir á altarinu þar sem hún mun standa um ókomin ár.

Óður til framtíðar

Þessi athöfn var á margan hátt táknræn. Þátttaka barnanna átti að minna okkur á það hversu nýtt þetta verk er og að það vísar til framtíðar. Börnin eiga ríkan sess í guðspjöllunum. Jesús sagði jú að hver sem ekki tekur við Guðs ríki eins og barn muni aldrei inn í það koma: enda tökum við á móti orði Guðs með þeim hætti sem barn þiggur góða gjöf. Flest vorum við líka á barnsaldri er við urðum hluti af þessu samfélagi.

Já, þetta var stór dagur í kirkjunni okkar. Þessi nýja útgáfa markar mikil tímamót en sú Biblía sem notuð hefur verið hérlendis fram til þessa byggir á þýðingarvinnu sem hófst í lok 19. aldar og er var gefin út árið 1912.

Misjafnar viðtökur

Þessi innreið Biblíunnar í Keflavíkurkirkju hafði því á sér yfirskrift bjartsýni og sakleysis eins og við tengjum gjarnan við börnin. En hún hefur þó ekki verið boðin velkomin með sama hætti víða í samfélaginu og margir hafa fett fingur út í ýmislegt sem þar mun vera að finna. Hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hvernig margur hefur brugðist við þessari þýðingu og því hvernig staðið hefur verið að verki við gerð hennar.

Nú heyrast tvenn sjónarmið um það hvernig Biblían eigi að vera þýdd. Önnur eru íhaldsöm og hafna því að hugmyndir og stefnur í samtímanum eigi að hafa mótandi áhrif á það hvernig textinn er þýddur. Í fljótu bragði virðast þau skiljanleg og rökrétt. Hvernig má það annars vera að merkingu orða sé hnikað til eftir því sem fellur að smekk hvers tíma? Ef orðið „bræður“ stendur í textanum hlýtur það að skjóta skökku við að tala um „systkin“ í íslenskum texta í anda nútímajafnréttis. Þeir hafa margir haft uppi mótmæli við því að færa textann svo til nútímahorfs.

Óréttlát gagnrýni

Ég er þó ósammála þessari gagnrýni og held að hún líti framhjá því hversu margslungið samfélag kirkjan er. Textarnir sem hér voru lesnir gefa vísbendingu um það hvernig kristnir menn eiga að byggja upp söfnuð sinn. Þarna er fjallað um samfélagið í kringum Krist. Þetta er lýsingin á söfnuðinum – kirkjunni sjálfri. Hvað segir þessi texti okkur? Er þetta lýsing á stöðnuðum hópi? Er þetta umhverfi þar sem allt er í föstum skorðum og ekkert breytist? Það held ég nú varla: Páll postuli talar um það hvernig hver og einn sinnir sínu hlutverki við það að tryggja vöxt og viðgangs þessa samfélags.

Hið sama kemur fram í boðskap Krists: „Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.“ Þetta er lýsingin á því samfélagi sem Kristur byggði upp. Þar ríkir ekki stöðnun og þar er ekki sú formfesta að engu megi breyta né hnika til.

Kirkjuhreyfingin

Kirkjan okkar er ekki föst í sömu sporunum. Hún er miklu líkari skipi sem heldur sína leið í gegnum söguna og menninguna þar sem hreyfanleikinn er hið sanna eðli hennar. Boðskapur hennar hefur sannarlega mótað okkur sem hér erum. Hugmyndir okkar um rétt og rangt, um samskiptin hvert við annað og um hlutverk okkar mannanna má að miklu leyti rekja til kirkjunnar og trúarrits hennar, Biblíunnar.

Þar er gjarnan talað um það hvernig krafan um að sýna náunganum kærleika gengur sem rauður þráður í gegnum boðskap Krists og kirkjan hefur leitast við að koma honum á framfæri. Frá öndverðu hefur líknarstarf verið hluti verkefna kirkjunnar. Boðskskapurinn um að gleyma ekki hinum minnsta bróður er meðal þess sem lagt hefur grunninn að því velferðarsamfélagi sem hér ríkir. Miklu fleira mætti nefna.

Nokkur dæmi um áhrifamátt Biblíunnar

Kristur gaf okkur fordæmi um það hvernig við eigum að meta hvert annað að verðleikum óháð því hverrar stöðu við erum, hvernig við lítum út, hver kynþátturinn er eða hvað annað sem kann að brengla sýn okkar hvert á annað. Þetta köllum við að bera virðingu hvert fyrir öðru og göngum út frá því að hver manneskja verðskuldi slíka virðingu hvernig svo sem fyrir henni kann að vera komið út frá þeim mælikvörðum sem hver tími kann að setja á verðgildi fólks og verðleika.

Þá er tungumálið okkar ótalið. Ef ekki hefði verið fyrir þýðingar á Biblíunni þegar á 16. öld er næsta víst að íslenskan stæði vart undir nafni sem sjálfstætt tungumál. Og á okkar tímum þar sem mannkynið glatar einu tungumáli á tveggja vikna fresti, ef marka má fréttir, hafa þýðingar á ritningunni á ýmis tungumál skipt sköpum fyrir viðgang þeirra. Enginn skyldi vanmeta þau áhrif sem þetta rit hefur – sem skýrir það auðvitað hvers vegna ný útgáfa þess er slíkt hitamál sem raun ber vitni.

Göran Persson sem lengi var forsætisráðherra í Svíþjóð getur þess að sögn í nýútkominni ævisögu sinni hversu illt það hafi verið að sænska kirkjan skyldi hafa slitið sig frá ríkinu með þeim afleiðingum að fjöldi fólks hefur yfirgefið hana. Honum er hugleikið sameiningarafl þjóðkirkju sem er sérstaklega brýnt á þeim tímum þegar fjölmenningin fer vaxandi og hnattvæðingin tröllríður öllu. Hér ber að sama brunni.

Gagnvirk áhrif

En kirkjan verður einnig fyrir áhrifum frá umhverfi sínu. Slík áhrif eru nauðsynleg til þess að hún staðni ekki og glati allri tengingu við þá sem henni tilheyra hverju sinni. Þá skiptir það litlu máli þótt boðskapur hennar sé dýrmætur – ef hún nær ekki að búa hann í þann búning sem umhverfið skilur og þekkir. Textarnir í dag minna okkur á þessa staðreynd. Söfnuðurinn er síbreytilegur og aðstæðurnar ólíkar.

Þeir eru fjölmargir sem að honum standa og hann mynda. Og þeir vinna með margvíslegum hætti. Biblían er ekki rituð í einni andrá. Það er öðru nær. Ritunartími hennar nær aftur 13. aldir fyrir Krists burð og allt fram til fyrstu aldar eftir Krist. Það gefur auga leið að heimildir þessar eigum við í ólíkum handritum og afskriftum frá ólíkum tíma. Og þar er ekki allt ritað með sama hætti.

Þýðing og ritskýring

Þannig verður verk þýðenda Biblíunnar aldrei sambærilegt því þegar menn taka bók eftir einn höfund og snara henni yfir á annað tungumál – þótt slíkt verk sé sannarlega vandasamt. Nei, slík þýðing verður alltaf öðrum þræði túlkun og heimfærsla. Þeir sem tala um texta hennar sem óbreytanlegt orð misskilja annað hvort eða fara vísvitandi með rangt mál. Því hér er enginn einn að verki: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.“

Þegar menn finna kirkjunni samlíkingu verður skipið oft fyrir valinu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að eðli þess er að vera á hreyfingu. Það má ekki stranda á einhverju skeri bókstafstrúar og afturhalds þegar það þarf að geta haldið áfram í gegnum söguna, miðlað góðum boðskap og haft áhrif til batnaðar á samfélag sitt og umhverfi.

Þróttmikil kirkja

Þegar börnin gengu fram að altarinu með nýju Biblíuútgáfuna í höndunum voru þau sem tákn um það líf og þann framtíðarþrótt sem í kirkjunni býr.  Við getum svo sem kallað það merki um líf og þrótt að Biblían skuli vekja deilur á okkar dögum og við getum fagnað því að hún selst eins og heitar lummur í bókabúðum. Og við skulum fagna því að unnt er að flytja frásagnir hennar, dæmisögur og ómetanlegum boðskap með þeim hætti sem hver tími skilur og getur móttekið. Því boðskapurinn á erindi inn í hvern tíma og hvert það samfélag sem vill þroskast á Guðs ríkis braut.