Kotroskin þjóð

Kotroskin þjóð

Ég var pínulítið skotin í þessum bláeygða Jesú og ef ég hefði fundið plakat af honum eins og hann birtist í þáttunum þá hefði ég verið fljót að klessa því upp á vegg við hliðina á George Michael og félögum í Wham.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
10. janúar 2010
Flokkar

Hildur Eir Bolladóttir

Ég veit ekki hvort þú manst eftir þáttaröð sem sýnd var í sjónvarpinu um páska fyrir réttum tuttugu árum og fjallaði um líf og starf Jesú frá Nasaret, hófst við fæðingu hans og endaði við hina opnu gröf á páskadagsmorgni. Þetta var mjög barnvæn biblíufræðsla engin Mel Gibson stíll á henni, Jesús með skærblá augu allt til enda og guðsdómlega fagur á að líta, ef til vill hafa einhverjir ungir áhorfendur fengið þar staðfestingu á þeim grun sínum að gott fólk sé jafnan með viðurkennt útlit og kannski hafa mörg brúneygð börn fundið til vanmáttar gagnvart hinum sænsk ættaða Jesú sem klæddi sig eins og vel meinandi félagsráðgjafi. Ég hugsaði þetta nú reyndar ekki svo djúpt á þeim tíma þar sem ég sat dreyminn fyrir framan sjónvarpsskjáinn heima í Laufási en þó vil ég gera þá játningu hér og nú að ég var pínulítið skotin í þessum bláeygða Jesú og ef ég hefði fundið plakat af honum eins og hann birtist í þáttunum þá hefði ég verið fljót að klessa því upp á vegg við hliðina á George Michael og félögum í Wham. Það vantaði raunar ekkert í þessa þætti nema hefðbundna rómantík en söguþráðurinn bauð vart upp á slíkt. En svo var eitt atriði í þessum þáttum sem hafði gríðarleg áhrif á mig og mína sjálfsmynd sem barn en það var atriðið sem lýsti guðspjalli dagsins í dag þegar Jesús var tólf ára og varð viðskila við foreldra sína á Páskahátíðinni í Jerúsalem. Í fyrsta lagi hafa svona “ég týndist” sögur mjög sterk áhrif á börn, þegar ég segi þessa sögu í sunnudagaskólanum fylgja gjarnan eftir a.m.k hundrað örlagasögur úr Smáralindinni og Kringlunni þar sem lítið barnshjarta hefur slegið örar en venjulega og tár læðst fram á hvarma. En það sem hafði kannski enn sterkari áhrif á mig úr þessu atriði í sjónvarpinu var sú undrun sem andlit fræðimannanna gömlu úr musterinu lýstu þegar Jesús sat 12 ára gamall og talaði við þá eins og jafningja og sagði þeim hluti sem þeir ekki vissu og hljómuðu sem nýr sannleikur í þeirra eyrum, sem það og var. Ég man að Jesús gekk inn í musterið og kom sér fyrir inn í hringnum þar sem spekingarnir sátu og ræddu ritningarnar, hoknir af reynslu og bornir uppi af virðingu samfélagsins og þarna braut Jesús enn og aftur viðmið valdsins og settist sem barn mitt á meðal karlanna því hann vissi í hjarta sínu að Guð væri með honum og að hann hefði eitthvað nýtt og sérstakt að segja inn í þetta samfélag. Hann gekk ekki inn í það á sömu forsendum og hinir því meðan Jesús var barn þá var hann bara barn og þóttist ekkert vera neitt annað, þess vegna er hin hliðin á þessum gjörningi hans hin barnslega sjálfhverfa sem er eðlileg þegar maður er 12 ára og þess vegna skil ég svo dæmalaust vel viðbrögð Maríu því ég hef sjálf upplifað að týna barninu mínu þegar það var þriggja ára og ég gleymi aldrei máttleysinu í fótunum hvernig hnéin gáfu eftir eins og ég hefði verið mænudeyfð og þegar drengurinn loks fannst, húðskammaði ég hann áður en ég lyppaðist sjálf niður og hágrét. En það sem hafði svo dæmulaust mkil áhrif á mig í þessu atriði þáttarins þegar ég var barn var það að sjá lítinn dreng öðlast svona mikla virðingu og vera svona mikinn sigurvegara innan um gamla og virðulega kalla. Ég man nefnilega hvað það hafði mikla þýðingu fyrir mig sem barn þegar einhver fullorðinn tók heiðarlega mark á mér og fannst ég hafa eitthvað til míns máls, foreldrar mínir mega einmitt eiga það að hafa ætíð komið þannig fram við mig og það var eitt það allra sterkasta og mikilvægasta sem þau gáfu mér í uppeldinu, ég mun ætíð búa vel að þeirri gjöf. Ég man að pabbi las oft fyrir mig ræður áður en hann flutti þær opinberlega og bað mig um rökstutt álit og þegar hann starfaði sem leiklistargagnrýnandi á Akureyri þá bauð hann mér oftast með á frumsýningar og ræddi síðan leikverkið og frammistöðu leikaranna á leiðinni heim eins og það kæmi alveg til greina að mínar skoðanir myndu hafa áhrif á leikdóminn og ég var kannski bara 10 ára. En ég man því miður líka eftir því að hafa verið krakki inn í verslunum og hver kúnninn á fætur öðrum var tekinn fram fyrir mig eins og ég væri annars flokks manneskja af því að ég var barn. Og eins man ég eftir því að hafa mætt slíku viðmóti í grunnskóla, sérstaklega þegar ég var unglingur í Skagafirði, ég man að kennararnir tóku oft ekki mark á skoðunum mínum eða vændu mig jafnvel um að segja ósatt, þessu mun ég heldur aldrei gleyma en geymi í hjarta mínu mér til aðvörunar.

Það verður aldrei horft framhjá þeirri staðreynd að íslenska þjóðin er smáþjóð. Kannski má með réttu segja að við séum eilíft barn á meðal annarra þjóða. Örlög okkar sem þjóðar endurspeglast dálítið í örlögum barnsins. Við erum t.d. oft dálítið sjálfhverf af því að við höfum ekki kynnst veröld hinna fullorðnu þjóða sem hafa háð stríð og tekist á við fjöldann allan af kreppum. Við erum líka dálítið barnslega drjúg með okkur, berum okkur gjarnan saman við aðra eins og það skipti einhverju máli. Hugtakið best í heimi hefur oft loðað við markmið okkar. Kannski má segja að íslenska þjóðin sé meira eins og kostroskinn krakki, við höfum alveg gríðarlega margt fram að færa, erum vel menntuð og upplýst en höfum ekki alltaf dómgreind til að meta hvernig við eigum að færa fram kosti okkar, þannig að það megi verða til sem mestrar farsældar. Stundum erum við haldin þrjóskumótþróaröskun og þá þýðir ekkert fyrir umheiminn að tala við okkur, þá ætlum við bara okkar leið og þurfum ekkert að bíða eða taka tillit til annarra. Páll postuli gefur okkur frábærar leiðbeiningar um það hvernig við getum orðið farsæl smáþjóð í pistli dagsins, þar segir hann :” Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum. Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa.”

Staðreyndin er nefnilega sú að Guð hefur úthlutað okkur þessu landi, það er Guðs vilji að þú sért Íslendingur, heimurinn allur er líkami Krists en limirnir á þeim líkama eru margir og hafa ólíkum hlutverkum að gegna. Það er gríðarlega dýrmætt að þjóðirnar hafi ólíku hlutverki að gegna því höndin vinnur ekki verk fótanna. Líkami okkar er orðinn býsna reyndur í þessari pólitík en þjóðirnar þurfa enn að vaxa og þroskast í visku og náð. Ég held að vandi íslensku þjóðarinnar felist í óttanum við að vera ekki tekin alvarlega, ég man vel þennan ótta sem barn og einmitt þess vegna hafði sagan um Jesú 12 ára svo mikil áhrif á mig. En hvað var það sem Jesús sagði eða gerði sem hafði svona mikil áhrif á karlskarfana þarna í musterinu? Jú hann kom fram í trausti til Guðs, það lýsti af honum trausti sem tekur manninn kannski alla ævina að öðlast ef hann þá öðlast það nokkurn tímann. Þið takið eftir að það greinir hvergi frá því í guðspjallinu hvað hann sagði sem hafði svona mikil áhrif á öldungana sem beinir þ.a.l. sjónum okkar að því hvað hann var og í hvaða valdi hann gekk fram. Hann hafði þetta óvenjulega sjálfstraust sem var borið uppi af hreinræktaðri trú og trausti til þess að Guð myndi aldrei yfirgefa hann. Hvað getum við sem bernsk þjóð lært af þessari sögu? Jú við getum lært að treysta því að við fæddumst ekki fyrir tilviljun á þessari norðlægu eyju, Guð hefur falið okkur það hlutverk að gæta þessa lands, að vera lítil þjóð í stóru og mikilfenglegu landi, já í stórbrotinni náttúru, okkur er falið að varðveita sérkenni okkar og treysta því að líf okkar hér hafi tilgang. Ef við mætum umheiminum með þessu trausti þá öðlumst við þá virðingu og þann frið sem við þráum. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. .