Agúrkur og vínber

Agúrkur og vínber

Í þeim anda erum við stundum í sporum apans í búrinu sem þefar af gúrkubitanum. Miðlarnir sturta yfir okkur sögum af fólkinu sem veifar framan í okkur vínberjunum.

Ég velti því stundum fyrir mér að hin áþreifanlegu gæði lífsins sækja gildi sitt ekki í magnið sjálft heldur það samhengi sem þau standa í.


200 krónur


Setjum sem svo að ég fari út í Krambúð og kaupi mér samloku og sódavatn á 800 krónur. Ibrahim vinur minn sem þar starfar segir mér að nú sé tilboð í gangi og gefur mér ríflegan 200 króna afslátt af krásunum. Nett ánægjukennd leikur um smásálina: „Já, þetta var óvænt, ha, já? takk fyrir mig!“

 

En hvað ef ég væri nú að endurnýja heimilisbílinn. Þegar búið væri að semja um kaupverð og allir pappírar undirritaðir þá tilkynnti sölumaðurinn mér glaður í bragði að nú væru tilboðsdagar í bílasölunni. Þau ætluðu að gefa mér heilan 200 króna afslátt af kaupverðinu. Ég myndi stara á hann furðulostinn. Er ekki allt í lagi hérna hjá ykkur?

 

En samt væri þetta sama upphæðin. Bara í allt öðru samhengi.

 

Og auðvitað verður þetta enn áhrifameira þegar samanburðurinn snýr að einhverjum öðrum. Ef Ibrahim í Krambúðinni hefði gefið mér 200 króna afslátt en svo yrði ég vitni að því að næsti viðskiptavinur fengi 500 króna afslátt af svipaðri upphæð. Þá myndi stundargleðin hverfa eins og dögg fyrir sólu.


Agúrkur og vínber

 

Eitt sinn gerðu vísindamenn tilraun á tveimur öpum sem voru hvor í sínu búrinu. Þeir fengu agúrkubita í hendurnar ef þeir réttu rannsakandanum steinvölu. En svo fékk annar apinn vínber en ekki gúrku. Vínberið er auðvitað miklu bragðmeira og eftirsóknarverðara og þetta vakti athygli hins apans. Þegar hann svo rétti fram steininn fékk hann ekkert vínberið heldur agúrkubitann aftur. Þegar hann hafði sannreynt að þetta væri ekki vínber – henti hann bitanum í andlitið á vísindamanninum.

 

Þið getið horft á myndskeið af tilrauninni á youtube. Ég er alveg viss um að þið eigið eftir að skilja apagreyið vel og réttlætiskennd ykkar verður misboðið! Mælikvarðarnir hafa jú svo mikið að segja í lífinu.

 

Nýársdagur


Í dag er enginn venjulegur dagur í kirkjunni. Nýtt ár er gengið í garð í hinu svo kallaða kirkjuári. En áður en einhver ranghvolfir augunum og hugsar með sér að þessi kirkja sé alltaf á skjön við það sem gengur og gerist úti í samfélaginu þá leyfi ég mér að minna á að helstu tímamót ársins taka mið af þessu kirkjuári. Þar eru hátíðardagarnir hvort sem fólk fer í skíðaferðir eða sækir kirkju af því tilefni, nú eða hvort tveggja. Fyrsti sunnudagur í aðventu gefur tóninn fyrir nýtt skeið á þessu kirkjuári.

 

Þess vegna hlýðum við á guðspjall þessa sunnudags ekki með það í huga hvaða vegarnesti það færir okkur fyrir þá viku sem er framundan – heldur eru þetta skilaboð sem við eigum að taka til okkar allt árið.

 

Lúkas guðspjallamaður greinir frá því þegar Jesús var að hefja þjónustu sína. Þarna birtist okkur texti sem er eins og stefnuyfirlýsing Guðs ríkisins nú eða kirkjunnar ef því er að skipta. Lúkas er stundum kallaður guðspjallamaður hinna fátæku og smáðu því hann gefur þeim hópum alveg sérstakan gaum.

 

Þar segir:

 

Andi Drottins er yfir mér

af því að hann hefur smurt mig.

Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,

boða bandingjum lausn

og blindum sýn,

láta þjáða lausa

og kunngjöra náðarár Drottins.

 

Hér setur Jesús fram mælikvarða og samanburð. Það er svo margt við þennan texta sem talar inn í aðstæður okkar sem vegum og metum lífsins gæði og hnoss og spyrjum okkur hvað er eftirsóknarvert og hvað ber að forðast.

 

En hér er ekki spurt hvernig við komum út í samanburðinum við aðra heldur í hvaða aðstæðum er það sem verk okkar skipta máli? Hver eru það sem þurfa mest á framlagi okkar að halda?

 

Starf mannsonarins beindist að þeim sem voru veikir og áttu sér enga málsvara í grimmum heimi. Og við skynjum það á lestri guðspjallanna að framkoma okkar við þá er um leið prófsteinninn á siðferði okkar. Allt um kring blasir það við okkur, óréttlætið sem okkar smæstu systur og bræður mega þola. Hvar stöndum við í raunum þeirra og mótlæti? Hvernig svörum við þeirri knýjandi spurningu, hvað við gerðum fyrir okkar minnstu systkin?

 

Og aftur setur Jesús fram mælikvarða. Náðarár – er það ef til vill biðtími eftir að við tökum okkur á? Tíminn á milli upprisu og endurkomu? Stundarkorn í samhengi eilífðar sem mannkyn fær til þess að lifa í anda þeirrar köllunar sem það á að starfa eftir.


Skil / Skjól

 

Hér í Neskirkju er þessi nýársdagur kirkjunnar jafnan sérstök hátíð. Við höfum þann sið að opna nýja myndlistarsýningu á þessum degi. Nú er það Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir sem auðgar okkur með verkum sínum.

 

Hugleiðing hennar beinist einmitt að mælikvörðunum – mörkunum sem við mætum á lífsgöngu okkar þar sem eitt tekur við af öðru. Tímamót renna upp og við skynjum breytingar, stórar sem smáar.

 

Sýningarstjórinn Vala Pálsdóttir kemst svo að orði í umfjöllun um verkin: „Í afstæðu tímans skiptir lengd ekki máli heldur sú þekking og reynsla sem vex innra með okkur.“

 

Við sem erum daglega hér í þessu rými erum auðvitað forréttindafólk að fá að hugleiða þau verk sem hér eru sýnd. Stundum er auðvelt að greina af útlínum og myndum hvað listafólkið vill segja og sýna. Stundum, og svo er í tilviki verka Áslaugar, þarf að hugsa óhlutbundið ef svo má segja. Hvað merkja þau form sem hér eru dregin upp? Hvaða kraftar eru hér að verki? Hvert er erindi listarinnar við áhorfandann?

 

Hugvekjur Áslaugar snúast að miklu leyti um sömu málefni og dagur þessi ber með sér. Hver erum við? Hvað skiptir okkur máli? Hafa þær spurningar nokkurt gildi nema með því að við drögum einhvers konar línu, setjum mælikvarða horfum á allt það annað en þann alheim sem skynjun okkar sjálfra myndar?

 

Vala lýsir verkunum nánar: „Lína er dregin í sandinn, steinar eru lagðir niður sem verða að grjóthleðslu, sem verður svo að vegg sem síðan myndar skjól. Skjól fyrir veðráttu, hraða, óreiðu, tíma og öllu öðru utanaðkomandi. Öruggt rými. Þar ríkir jafnvægi sem leyfir sárum að gróa, fræjum að spíra og gefur rósum næði til að opnast ofurhægt –springa út og blómstra.“

 

Þetta er fallegur texti og hann kallast á við orð Jesú í guðspjalli dagins. Þar er með sama hætti horft til landamæra mannssálarinnar og skjólið sem okkur ber að veita. En þetta er ekki veggur þess öryggis, þar sem tilvera okkar fær að vera í friði fyrir umhverfinu og líðan samferðafólks.

 

Tilgangur okkar og köllun eru hér orðuð og þau beinast að þeim systkinum okkar sem hafa borið skarðan hlut frá borði. Samanburðurinn er allur þeim í óhag. Jesús horfir til þeirra og svo beinast sjónirnar að okkur sjálfum sem fáum notið meira af gæðum jarðar en margur annar.

 

Hér fá línurnar sem skilja á milli okkar og þeirra, siðferðilegt gildi. Þarna liggja skyldur okkar. Þarna mætum við sjálfum Guði á vegferð okkar um lífið – í okkar minnstu bræðrum og systrum.


Prósentufólk

 

Já, við erum prósentufólk. Við mælum okkur út frá því hvernig hlutur okkar er í hinum risastóra samanburði. Í þeim anda erum við stundum í sporum apans í búrinu sem þefar af gúrkubitanum. Miðlarnir sturta yfir okkur sögum af fólkinu sem veifar framan í okkur vínberjunum. Fræðin segja að þetta gangi svo langt að sjálfsmynd, sérstaklega unga fólksins sé löskuð með alvarlegum afleiðingum. Áhrifavaldarnir hafa sannarlega áhrif, en mælikvarðarnir eru allir óraunsæir svo nú geysar faraldur kvíða um byggðir okkar og ból.

 

Boðskapur Krists á sannarlega erindið við okkur á þessum tímum. Þar er einmitt lína dregin í sandinn og við erum minnt á það að tilgangur okkar er ekki sá að bera okkur saman við sólbrúna og stælta kroppa sem spóka sig um á framandlegum ströndum, nú eða glæsihallir auðfólks. Nei, hér er settur fram gerólíkur mælikvarði.

Þegar Jesús leggur línurnar fyrir framtíðina þá talar hann til þeirra sem eiga undir högg að sækja. Hann er kominn til að flytja fátækum gleðilegan boðskap. Umhyggja hans og kærleikur eiga að vera okkur skjól og viðmið þar sem við greinum hismið frá kjarnanum, hégómann frá verðmætunum.

 

Að baki býr sú hugsun sem við tökum með okkur inn í nýtt kirkjuár. Hann er einhvern veginn svona: Hvert sem hlutskipti okkar kann að vera í hinum risastóra samanburði sem við leggjum á líf okkar og tilveru, þá horfir Guð á manneskjuna og sér þar endalaus og ómetanleg verðmæti.