Alþjóðleg og samkirkjuleg bænavika - hugvekja

Alþjóðleg og samkirkjuleg bænavika - hugvekja

Alþjóðleg og samkirkjuleg bænavika byrjaði þennan dag 18. janúar 2018. Nokkur hvatningaorð að taka þátt í bænavikunni, íhuga efnið og biðja saman í einrúmi og saman um einingu og samstöðu.
fullname - andlitsmynd Guðmundur Guðmundsson
18. janúar 2018
Flokkar

Flutt 18. janúar 2018 í Akureyrarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Það eru 110 ár síðan Paul Wattson, anglikanskur prestur frá New York, hafði forgöngu um að kristnir menn söfnuðust saman til átta daga bænavöku, milli Péturs og Páls-messu 18 og 25. janúar. Og það eru 50 ár síðan Alkirkjuráðið og Kaþólska kirkjan undirbjuggu fyrst sameiginlegt efni til notkunar þessa bænaviku. Efnið er undirbúið af kirkjudeildunum á ákveðnu svæði, að þessu sinni frá kirkjunum á karabíska svæðinu.

Yfirskriftin er valin að þessu sinni og ekki af ástæðulausu um það þegar Móses leiddi Ísraelsmann út úr þrælahúsinu í gegnum Rauða hafið: „Hönd þín, Drottinn, hefur gert sig dýrlega“ (2Mós 15.6). Í efninu er fjallað um afleiðingar nýlendustefnunnar á karabíska svæðinu og ýmsa fjötra sem fólk glímir við, svo sem mansal, klám, ofbeldi, skuldir og fátækt og þess beðið að iðrun, sátt og endurreisn mannlegrar virðingar verði komið á, ekki síst fyrir tilstuðlan kirknanna sem veita margskonar aðstoð á svæðinu.

Við erum kölluð til að biðja saman og í einrúmi þessa daga fyrir einingu kristinna manna með systrum og bræðrum í trúnni um víða veröld. Við höfum haft þann hátt á hér á Akureyri að fara á milli kirknanna og safnast saman þegar venja er að vera með bænastundir í söfnuðunum. Okkur fannst það sem Guðs handleiðsla að uppgötva það að alla daga vikunnar koma kristnir menn saman til bæna hér um slóðir. Dagskrá um það liggur fyrir á vefsíðum kirknanna og prófastsdæmisins. Svo verðum við með sameiginlega samkomu með þátttöku fulltrúa frá söfnuðunum í Glerárkirkju fimmtudaginn 25. janúar kl. 20. Það er gott að taka þátt í þessari dagskrá en meginsjónarmiðið er að sameinast í bæn og þá þarf maður ekki að vera með öðrum heldur getur gert eins og Meistarinn leiðbeindi okkur um að vera í einrúmi. Þá verður líka bænin oft einlægari og ærlegri þar sem þú og Guð þinn mæla ykkur mót og eigið saman stund.

Eins og ég nefndi er efnið frá svæði þar sem kirkja og samfélag ganga í gegnum erfiða tíma fjárhagslega og náttúruhamfarir hafa herjað á eyjarnar. Það vekur okkur til umhugsunar og samúðar, samstöðu og verka. Bæn er oft fyrsta verk til að bæta heiminn sem við lifum í. Guðs orðin sem hafa verið vandlega valin og hugvekjurnar kenna okkur að finna til með systrum okkar og bræðrum í fjarlægð en um leið lærist okkur að það er kannski ekki svo harla mikill munur á aðstæðum okkar og þeirra.

Við erum hluti af alþjóðlegri kirkju. Samfélag trúaðra nær frá austri til vesturs, frá norðri til suðurs. Sú samkennd sem Drottinn kenndi okkar þegar hann horfði yfir mannfjöldann og kenndi í brjósti um fólkið á að vera okkur leiðarljós í þjónustu kærleikans. Stundum hefur mér fundist fólkið í þjóðkirkjunni vera sinnulaust um þessa vídd trúarinnar og verið sjálfhverft í einhvers konar þjóðrækni og sérstöðu sinni. Það er í hrópandi andstöðu við Drottinn okkar og frelsara sem minnir okkur á að hann var flóttamaður í Egyptalandi eins og Ísraelsmenn á sínum tíma.

Þá er þetta samkirkjuleg bænavika. Við höfum fundið til þess sem komið höfum saman á annan áratug hér um slóðir til bæna að þessi vika hefur skapað samkennd og vináttu yfir mörk sem venja eða ósiður hafa myndað í tímans rás. Það sem sameinar okkur er bæn í Jesú nafni, bæn Drottins og fagnaðarerindið um hann. Oft höfum við minnt okkur á að Jesús einn er sameining kirkjunnar og fjölbreytileikinn, skoðanamundur og ólíkir siðir og venjur á ekki að skilja okkur að. Þannig var Drottinn og þannig er Guð með útbreiddan faðm móti öllum til að frelsa og leiða.

Við viljum hvetja alla til að taka sér tíma til bæna, lesa og íhuga efnið í einrúmi eða mæta á þær bænasamverur sem auglýstar eru þessa daga í söfnuðunum. Orðið er kristnum mönnum uppspretta trúar og vonar. Lestrarnir eru valdir með efni hvers dags í huga til að vekja okkur til samkenndar og bæna fyrir söfnuðunum og fólki á karabíska svæðinu um leið skulum við láta anda Guðs minna okkur á það annað sem neyðin kennir okkur að biðja fyrir. Látum bænina vera okkar fyrsta og fremsta verk þessa viku.

Átta daga bænirnar má nálgast á netinu með því einfaldlega að googla: Átta daga bænir