Biblíusýning í Auðunarstofu

Biblíusýning í Auðunarstofu

Á sýningunni lýkst það upp fyrir mörgum að prentun á jafn viðamiklu verki og Biblíunni var hér áður fyrr ekkert annað en afrek. Það verður ekki einungis eignað nafnkunnum forvígismönnum biblíuprents og –þýðinga heldur líka og ekki síður þeim handverksmönnum, prenturum og prentsveinum sem unnu þau óteljandi handtök sem liggja að baki sérhverju eintaki.
fullname - andlitsmynd Haraldur Hreinsson
20. ágúst 2015

Í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal stendur nú yfir sýning á prentuðum biblíuútgáfum fyrri alda. Auk heildarútgáfna Biblíunnar fram til 1859 má einnig sjá ýmiss konar biblíulegt efni, Nýja testamenti, Saltara, Saltaraljóð, Guðspjallaharmóníur, Súmmaríur o.fl.

Hinn efnislegi veruleiki Biblíunnar

Eins þversagnakennt og það kann að hljóma þá kemur fólk ekki á biblíusýningu til að lesa. Það kemur til þess að skoða. Við virðum fyrir okkur stærð bókanna, umfang, útbúnað, efni, áferð, lit. Leikum okkur að því að endurbyggja horfinn veruleika hlutanna sem eru til sýnis. Sumar bækurnar eru vel með farnar og virðast lítið lesnar. Við getum hugsað okkur að þær hafi verið vel varðveittar í kirkjum eða fljótt komist í hendur safnara sem kunnað hafa með þær að fara. Aðrar hafa verið mikið notaðar og lesnar í þaula. Þurft á viðgerðum að halda eftir að hafa velkst í höndum fólks og milli staða í tímans rás. Saga flestra eintakanna er því miður fallin í gleymsku. Þar verðum við að láta ímyndunaraflið nægja. Á því eru þó örfáar athyglisverðar undatekningar eins og sýningargestir geta komist að raun um.

Í allar áttir

Sýning sem þessi teygir anga sína í margar áttir og tengist meginstraumum vestrænnar menningar síðustu alda með margvíslegum hætti. Saga siðbreytingarinnar verður ekki sögð án þess að fjalla um uppgang prentlistar og biblíuprents. Með endurreisn og húmanisma komu fram málvísindamenn sem þjálfuðu með sér kunnáttu og færni til að þýða úr frummálunum. Þannig kastar sýningin í Auðunarstofu ljósi á íslenskar birtingarmyndir þessara menningarstrauma. Biskupar eins og Guðbrandur og Þorlákur Skúlason á Hólum og Þórður Þorláksson í Skálholti voru allir annálaðir lærdómsmenn og fulltrúar evrópskrar menningar og mennta í íslenskum sveitum. Um það vitna prentgripirnir sem til sýnis eru í Auðunarstofu.

Afrek hinna ókunnu verkamanna

Á sýningunni lýkst það upp fyrir mörgum að prentun á jafn viðamiklu verki og Biblíunni var hér áður fyrr ekkert annað en afrek. Það verður ekki einungis eignað nafnkunnum forvígismönnum biblíuprents og –þýðinga heldur líka og ekki síður þeim handverksmönnum, prenturum og prentsveinum sem unnu þau óteljandi handtök sem liggja að baki sérhverju eintaki. Prenttæknin var stutt á veg komin. Aðstæður að mörgu leyti fábrotnar. Hver einasta síða var prentuð með handpressu.  Áður þurfti að setja hana upp – staf fyrir staf, bil fyrir bil línu fyrir línu. Sýningin í Auðunarstofu er líka minnisvarði um afrek hinna ókunnu erfiðismanna.

Opin út ágúst

Sýningin í Auðunarstofu er opin út ágústmánuð og er aðgangur ókeypis. Ástæða er til að hvetja alla sem búa nyrðra eða eru á ferðinni að gefa sér tíma til að heimsækja sýninguna. Sjón er sögu ríkari.