Kjörorð íslenska lýðveldisins

Kjörorð íslenska lýðveldisins

Þegar þessi orð eru skoðuð í ljósi núverandi aðstæðna veltir maður fyrir sér hvort „sjálfskaparvítin“, sem Ólafur minntist á, hafi valdið því gríðarlega tjóni sem við urðum fyrir nú á haustdögum. Ekki er það ólíklegt en blessunarlega hafa þau ekki grandað íslenskri þjóð, þó vissulega standi hún löskuð eftir.
fullname - andlitsmynd Stefán Einar Stefánsson
21. janúar 2009

Um mitt árið 1944 hrönnuðust óveðurský sem aldrei fyrr upp yfir Evrópu. Andstæðar fylkingar bandamanna og öxulveldanna svokölluðu, bárust á banaspjótum og útlitið var oft og tíðum svart. Vart mátti á milli sjá hvort helreið Hitlers næði að brjóta á bak aftur varnir bandamanna eða hvort hinum síðarnefndu tækist að hrinda sókn inna illu öxulvelda. Við þessar aðstæður hafði enginn ástæðu til að gleðjast því framtíðin var allt annað en björt. En þá tók lítil þjóð við ysta haf að flykkjast á Þingvöll. Þar var útlitið heldur ekki bjart, grenjandi rigning og suddi buldi á fólkinu. Eitthvað sérstakt lá í loftinu.

Kjörorð hins íslenska lýðveldisFrá hinum forna þingstað barst frétt um gjörvallan heiminn. Íslenska þjóðin hafði lýst yfir sjálfstæði og rofið ríkjasamband það sem staðið hafði með nokkrum breytingum við hinar stærri þjóðir Norðurlanda allt frá Gamla sáttmála 1262. Hafði þjóðin því í fyrsta skipti frá lokum 13. aldar fengið fullt forræði yfir málum sínum. Þessi litla þjóð endurheimti sjálfstæði sitt á þeim tímum þegar margar af voldugri og stærri þjóðum Evrópu höfðu misst sjálfsforræði sitt og sjálfsvirðingu. Lýðveldisstofnunin 17. júní 1944 verður af þessari ástæðu ætíð þverstæðukennd, svo ekki sé fastar að orði kveðið, sé hún borin saman við aðstæður í Evrópu á sama tíma.

Íslendingar höfðu í raun staðið sjálfstæðir að mestu frá Dönum frá árinu 1940 þegar löndin tvö voru hernumin. Hér á landi var ástandið á margan hátt róstusamt enda setti hersetan sterkan svip á samfélagið. Í stjórnmálalífinu var ólgan ekki minni og áhrifamestu stjórnmálaskörungar landsins hugsuðu Sveini Björnssyni ríkisstjóra þegjandi þörfina eftir að hann hafði skipað ríkisstjórn í óþökk þeirra. Hér var því ekki aðeins sældinni fyrir að fara og það hlýtur að teljast mikil áræðni af svo veikburða og varnarlausri þjóð, að lýsa sig sjálfstæða á slíkum tímum.

Þó að mannfjöldinn hafi verið mikill sem safnaðist saman á Þingvöllum þegar tilkynnt var um stofnun lýðveldis, voru ekki allir þess umkomnir að verða vitni að þeim atburði. Af þeim sökum safnaðist mikill fjöldi fólks saman hinn 18. júní við tröppur Stjórnarráðsins í Reykjavík og þar var hinum merka áfanga einnig fagnað. Meðal þeirra sem tóku til máls við það tækifæri var Ólafur Thors, vörpulegur leiðtogi og ræðuskörungur. Þar sagði hann m.a.: „.. vart hefir nokkru sinni fyrr verið bjartara yfir framtíð þessa lands en einmitt í dag, ef sjálfskaparvítin verða oss eigi að grandi.“

Þegar þessi orð eru skoðuð í ljósi núverandi aðstæðna veltir maður fyrir sér hvort „sjálfskaparvítin“, sem Ólafur minntist á, hafi valdið því gríðarlega tjóni sem við urðum fyrir nú á haustdögum. Ekki er það ólíklegt en blessunarlega hafa þau ekki grandað íslenskri þjóð, þó vissulega standi hún löskuð eftir. En í ræðu sinni færði Ólafur áheyrendum sínum, sem og komandi kynslóðum, ágætt veganesti sem nú er vert að minnast. Því var ætlað að vísa veginn framhjá sjálfskaparvítunum. Veganestið fólst í því að eigna íslenska lýðveldinu kjörorðið „mannhelgi.“ Það gerði hann af þeirri hugsjón að við mættum um alla framtíð:

„óska þess að lifa í friði við aðra. Mestu skiftir þó að vjer sjeum eigi sjálfum oss sundurþykkir. Vjer vonum að þótt vjer sjeum fáir og lítils megnugir, megi oss takast að skapa rjettan skilning á högum vorum, og samúð með baráttu vorri og hugsjónum. – Þá mun oss auðnast að tryggja oss þann sess í heimi framtíðarinnar, sem vjer þörfnumst og teljum oss hæfa til að skipa.“

Megi mannhelgin verða í fyrirrúmi, nú þegar við hefjumst handa við uppgjörið og endurreisnina.