Hátíðarhöld Guðríkisins

Hátíðarhöld Guðríkisins

Framan af prestskap mínum hafði ég oft sama leiða drauminn og fyrir kemur enn að hann vitjar mín. Mér þykir sem ég sé að undirbúa guðsþjónustu. Ég hef þá jafnan í mörg horn að líta og að mörgu að gá. Ég er eins og þeytispjald um allt til að gæta þess að allt sé nú til reiðu þegar messan hefst; Að hentugir sálmar séu valdir og æfðir. Að organistinn og ég séum samstíga í öllu, að meðhjálparinn viti hvað hann á að gera, að messuklæði séu til reiðu, altarisbúnaður, blóm og hvaðeina sem á að nota við helgihaldið.

Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti: Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.

Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.

Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.

I

Framan af prestskap mínum hafði ég oft sama leiða drauminn og fyrir kemur enn að hann vitjar mín. Mér þykir sem ég sé að undirbúa guðsþjónustu. Ég hef þá jafnan í mörg horn að líta og að mörgu að gá. Ég er eins og þeytispjald um allt til að gæta þess að allt sé nú til reiðu þegar messan hefst; Að hentugir sálmar séu valdir og æfðir. Að organistinn og ég séum samstíga í öllu, að meðhjálparinn viti hvað hann á að gera, að messuklæði séu til reiðu, altarisbúnaður, blóm og hvaðeina sem á að nota við helgihaldið. Börn eru jafnan nærverandi í draumnum og eiga að gera eitthvað til gleðiauka, kannski flytja helgileik sem ég hef þá æft sjálfur og tekið til búninga og leikmuni. Þau þurfa að vera viðbúin að koma fram þegar þeim er ætlað. Ég keppi við tímann sem stekkur inn á sviðið í samhringingunni og orgelið fylgir eftir með forspili sínu. Þá er ég enn í náttfötunum og hef ekki neina ræðu, man ekki messusönginn. Ég er í angist og uppnámi. - Þá finnst mér óhjákvæmilegt að vakna af þessum vonda draumi og minna sjálfan mig á að ræðan liggur tilbúin frammi á skrifborðinu mínu og enn eru nokkrir klukkutímar til messu og enginn helgileikur í dag.

II

Ég giska á að manninum sem ekki var veislubúinn í dæmisögu guðspjallsins hafi liðið svona líkt og mér í drauminum. Kannski var hann einn af þjónunum og hafði haft svo mikla önn við að gera betur en vel fyrir húsbónda sinn að hann hafi gleymt þessum mikilvægu boðum að fara í þjónsbúninginn og komið þess í stað á náttfötunum í veisluna, sveittur eftir erfiði veisluundirbúningsins. Miklu líklegra er þó að hann hafi fátt hugsað yfirleitt og ekki hirt um óskir og hugulsemi konungs síns.

Við sem eigum að halda Kirkjuþing erum samankomin til guðsþjónustu með Dómkirkjusöfnuðinum, og þar eð við erum öll þjónar og textarnir leiða hug okkar að húshaldinu í guðsríkinu skulum við íhuga í dag þjónustu okkar sem einstaklinga og kirkju. Fyrst skulum við þó meta stöðu okkar í Þjóðkirkjunni eins og á stendur.

III

Í lexíunni er talað um þjóð sem ekki þekkti Drottin. Eitt sinn þekkti þessi þjóð ekki Guð vors lands. Menn komu og boðuðu trú á nafn hans fyrir drjúgri þúsöld. Þeir báru boðskapinn um náð Guðs í veikum og sprungnum kerjum. Nóg var þó í þeim til þess að þessi þjóð mætti ná að taka trú á Guð og hún hefur haldið henni til þessa dags, eða svo viljum við halda.

Nú er svo komið að stór hluti þjóðarinnar er orðinn næsta blandinn í trúnni. Þriðjungur barna elst upp án þess að þeim séu kenndar bænir. Aðeins um fjórðungur barna í bestu sóknum þéttbýlisins stunda barnasamkomur reglulega einhvert ár ævi sinnar. Fá fermingarbarnanna kunna trúarjátninguna þegar þau koma til okkar og sum þeirra kunna ekki Faðir vor. Kennsla í kristnum fræðum er á undanhaldi í barnaskólastiginu, og á unglingstiginu og í framhaldskólunum heyrir til undantekninga að nokkuð sé kennt um trú eða sið yfirleitt.

Helstu hugmyndir Íslendinga um Jesú Krist munu í því fólgnar að hann hafi verið spámaður, siðapostuli, einn af mörgum sem komið hafi fram í heiminum á liðnum tímum. Það sé á engan hátt óyggjandi sem eftir honum er haft. Við séum hins vegar fylgjandi honum af því að í þeim heimshluta sem mest hefur markast af boðskap hans séu mestu framfarirnar og ríkastur velferðarstuðningurinn. Það sé hins vegar til marks um takmarkanir kenninga hans að þær hafi jafnframt mótað þær þjóðir sem mesta grimmd hafa sýnt í tilverunni.

IV

Nú fólgin í því rík hugsunarvilla og skelfileg fáfræði að taka Jesú aðeins sem siðapostula. Ummæli hans um sjálfan sig verða með engum hætti strikuð út sem óvissar heimildir, því þau tjá sjálfsskilning hans og eru undirstaða orða hans og gerða yfirleitt. Hann kallaði sig mörgum nöfnum sem í Gamlatestamentinu áttu aðeins við Guð og sagði að hann og faðirinn væru eitt, og hann var krossfestur á grundvelli játningar sinnar við særingu æðsta prestsins um hvort hann væri sonur Guðs. Hann fæddist og dó sem einkasonur hins hæsta.

Það er grunntónn, forspjall og inntak allrar boðunar kirkju hans að hann hafi risið upp frá dauðum svo sem svo rækilega er auglýst hér yfir altari höfuðkirkju Guðs kristni á Íslandi.

Það er því runnin upp kristniboðstími á ný í skilningi sem ekki hefur þekkst síðan í árdaga þjóðar okkar. Við sem skipum Kirkjuþing höfum það hlutverk að marka leiðir fyrir framrás meginþunga fagnaðarerindisins. Víða er áhugasamt og ábyrgt fólk í framkrókum með fagnaðarerindi Krists til þjóðarinnar. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að tryggja það að virðingarverð viðleitni fái framgang og þann stuðning sem samanlögð ráð allra megna. Í öðru lagi kemur svo ábyrgðin á góðri reglu.

Það er því gleðilegt að fá að eiga þátt í að móta kirkjunni heildstæða stefnu á næstu árum og mega á þessu þingi að setja starfsmannastefnu, hefja starf að sérstakri stefnumörkun í barnafræðslu kirkjunnar og öldrunarþjónustu. Að koma Orðinu til uppvaxandi kynslóðar er án vafa þýðingarmesta verkefni kirkjunnar á hverjum tíma og þjónustan við hin gömlu holl þakkargjörð þeirra sem af þeim þágu líf og uppeldi.

V

Okkur öllum sem viljum lifa í þjónustu við Krist berst dagskipun hans: Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið. Okkur tjóir ekki að benda á aðra og ætlast til neins af þeim sem eflt gæti Guðsríki á Íslandi ef við sjálf látum okkur í léttu rúmi liggja. Hverju og einu okkar er fólgið þetta erindi Drottins, Konungsins.

Þó okkur sé víða bent á að leita fullkomnunar þá er það fosenda að við erum ekki fullkomin. Þó kristniboðarnir væru ákaflega breyskir menn: Stefnir níðskældinn, Þorvaldur víkingur í lund og Þangbrandur ofstopamaður þá komst kristni á á Íslandi. Þeir léðu sig Hvíta Kristi til þjónustu með kostum og göllum og hann var í þeim veikum máttugur. Því hafði erindi þeirra framgang. Nú veltur á því sama með okkur.

VI

Lífi og veruleika fagnaðarerindisins er oft líkt við veislu í Biblíunni. Spámennirnir hafa oft á orði að Guð búi þjóðunum veislu og Jesús sjálfur var mikill veisluhöldur og samkvæmismaður. Lífið í Guðsríkinu markast af því að Guð gefur og við þiggjum og jafnframt af gleðinni sem ríkir þar.

Allir textar dagsins minna á þetta. Postulinn minnir á siðgæðið sem er allt um allt ekkert aukaatriði í kristnum dómi, heldur einn helsti ávöxtur trúarinnar. Framar stendur þó lofgjörðin, bænin og það að heyra Guðs orð. Verum athyglissöm börn og vinir Krists í húsi hans. Gefum gaum að orðum hans að svo fari ekki að við í annríki okkar gleymum að helga okkur honum.

Hugsum okkur að veislubúningurinn sem guðspjallið minnist á sé skírnarkjóllinn sem við voru ífærð við skírn okkar og hafður var vel við vöxt að hann entist okkur um alla ævi. Þetta er táknrænn búiningur og við ílkæðumst honum í anda í hvert sinn sem við signum okkur. En það gerist ekki fyrir ytri athöfn eina heldur fyrir daglegt, já, iðullegt afturhvarf til hans sem er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið.

Forðumst það í þjónustu okkar að leggja svo mikla áherslu á viðbúnaðinn að við gleymum tilefni veislunnar, því að sjálfur Guð er hjá okkur, sá sem jólin kalla Immanúel, Guð með oss; páskarnir Drottinn vorn og Guð; og hvítasunnan þann sem í anda sínum uppfyllir fyrirheitið: Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Lifum honum, störfum í anda hans, með honum í verki.

Flutt við messu í Dómkirkjunni á 20. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 13. október 2002, við setningu Kirkjuþings