Þann 26. nóvember 1095 var haldin ein örlagaríkasta ræða sem flutt hefur verið. Ræðuna flutti Úrban páfi II. f á kirkjuþingi sem haldið var í Clermont í Frakklandi. Enn þann dag í dag er hún endurómuð í fréttunum þó að fáir hugsi út í það lengur. Hún hefur mótað samskipti kristinna manna, múslíma og gyðinga allt til þessa dags. Afleiðingar hennar áttu eftir að breyta gangi sögunnar. Aftur og aftur hafa menn vitnað í þá hugmyndafræði sem þar var sett fram, síðast eftir árásirnar á New York og Washington þann 11. september árið 2001 þegar Georg W. Bush kallaði til krossferðar gegn hinum illu öflum í heiminum sem höfðu þá birst í líki Al Qaida-liðanna, hinna múslímsku öfgamanna sem steyptu farþegaflugvélum á Tvíburaturnana og Pentagon- bygginguna. Viðbrögðin frá hinum múslímska heimi létu heldur ekki á sér standa og Bandaríkjaforseti varð að draga snarlega í land og hætta að nota hugtakið krossferð. Svo sterkt er þetta orð og svo djúpstæðir eru þeir atburðir sem áttu sér upphaf með ræðu Úrbans. Og þetta undirstrikar enn og aftur hin fornu sannindi, að vilji maðurinn skilja samtíma sinn og marka sér stefnu til framtíðar, þá verður hann fyrst að þekkja hið liðna.
Ræða Úrbans páfa á umræddu kirkjuþingi hafði í för með sér hvorki meira né minna en tveggja alda styrjöld milli kristinna manna í Evrópu og múslima í Austurlöndum nær. Þessi styrjöld, sem gengur undir samheitinu „krossferðir," hafði að sínu leyti gífurleg áhrif á sögulega þróun í Evrópu langt fram eftir öldum. Færa má sterk rök fyrir því, að þeirra áhrifa gæti enn þann dag í dag eins og ég nefndi hér áðan.
Á kirkjuþinginu í Clermont voru ekki aðeins nærstaddir 13 kaþólskir erkibiskupar, 225 biskupar og 400 ábótar, heldur einnig kristnir riddarar í þúsundatali. Þeir hlustuðu með athygli á páfa, er hann sendi út brennandi ákall sitt með þessum orðum:
„... um þær miklu hörmungar, erfiðleika og kúgun, sem hrjáir, þrúgar og þjakar kristna menn í Jerúsalem, Antíokkíu og annars staðar í Austurlöndum. Heiðingjar hafa tekið Landið helga herskildi. Bræður, því boða ég yður: Berist ekki á banaspjót innbyrðis, heldur snúið bökum saman með trúbræðrum ykkar gegn aðkomuþjóðunum. Gangið undir merki Krists í óvígum her kristinna manna. Þið munuð annað hvort koma heim sem sigurvegarar eða ávinna ykkur eilífa sigursælu með dýru blóði ykkar. Hrópið hvarvetna einum munni herópið: Til Jerúsalem! Farið af stað og frelsið Jerúsalem, ef ykkur er annt um sálarheill ykkar. Þá munuð þið öðlast fyrirgefningu allra ykkar synda; því að Guð vill það!"
Ræðan var haldin á torgi undir berum himni, og hinn mikli herskari riddara, sem safnast hafði saman á torginu, tók nú undir við páfa og hrópaði einum rómi: „Guð vill það, Guð vill það!" Síðan þyrptust menn saman um ræðustól páfa og veittu úr höndum þjóna hans viðtöku vígðum krossi úr rauðu klæði, en af þeim krossi drógu þau tíðindi, sem í vændum voru nafn sitt.
Undir lok ræðunnar krupu riddararnir á kné og sóru þess dýran eið að leggja ekki niður vopn fyrr en þeir hefðu frelsað hina heilögu gröf Krists úr höndum múslima og komið Landinu helga undir stjórn kristinna manna. Hundruð þúsunda áttu eftir að láta lífið í því stríði sem nú var hafið.
7. júní 1099 settist krossfaraherinn um borgina helgu, Jerúsalem. Umsátrið um Jerúsalem stóð í einn mánuð og átta daga. Reyndist það krossförunum ákaflega erfiður tími. Kæfandi hiti kvaldi þá og þeim þótti lítið til landsins koma. Heimamenn voru flestir kristnir og tóku fagnandi á móti krossfarrhernum. Mikill trúarhiti heltók hermennina við að horfa upp á turna borgarinnar helgu. Þetta var í fyrsta sinn sem svo stór hópur kom til Jerúsalem frá Vesturlöndum og það eftir að hafa liðið ægilegar þjáningar og fært miklar fórnir. Margir riddaranna bjuggust meira að segja við heimsendi. Jerúsalem var í huga þeirra miklu meira en venjuleg borg. Hún var tákn himnaríkis á jörðu og krossfararnir þráðu að deyja fyrir hana. Í augum hermannanna urðu múslímarnir sem héldu borginni óvinir Guðs í fyllstu merkingu þess orðs. Þeir spilltu og menguðu borgina sem var helgastur allra heilagra staða. Og moskan mikla sem gnæfði yfir borginni var tákn alls þess sem krossfararnir voru komnir til að sigrast á. En múslímarnir sem bjuggu í borginni gerðu sér enga grein fyrir trúarhitanum sem rak þessa menn áfram. Ef til vill væri nær að tala um trúaræði í þessu sambandi. Sjálfir hefðu múslímarnir aldrei liðið að nokkur her kristinna manna settist um Mekku.
Múslímar vörðust vel, enda múrar borgarinnar háir. Flestir kristnir menn höfðu verið reknir úr borginni til að koma í veg fyrir að nokkur gæti svikið hana í hendur innrásarmanna. Herstjóri borgarinnar var hinn egypski Ad-Daula og lét hann menn sína hæða her kristinna manna með því að ræna krossum úr kirkjum borgarinnar, koma þeim fyrir efst á borgarmúrunum og leika þá illa. Ærði þetta atferli krossfaraherinn sem þótti sem múslímarnir væru verkfæri Satans að hæða sjálfan Jesú Krist. 10. júlí hófst stórárás á borgina og eftir mikið mannfall brutust krossfarar inn í borgina um hádegisbil þann 15. júlí 1099 og næstu tvo daga lögðu þeir hana undir sig með oddi og egg. Voru nú engin grið gefin, en borgarbúar myrtir án manngreinarálits. Fjöldamorðin í Jerúsalem eru meðal grimmilegustu hermdarverka veraldarsögunnar. Íbúar Jerúsalemborgar voru brytjaðir niður og krossfararnir létu greipar sópa um auðæfi hennar.
Slátrunin stóð yfir í þrjá daga. Á hinum fjórða degi, sunnudegi, var gefin hvíld frá manndrápum til guðsþjónustu, en daginn eftir var morðunum fram haldið. Engum var sýnd miskunn, hvorki konum, börnum né gamalmennum. Og það voru ekki aðeins múslímar sem fengu að kenna á æði krossfaranna. Öllum Gyðingum sem náðist til var smalað saman í stærsta samkunduhús borgarinnar. Síðan var kveikt í og allir sem inni voru brenndir lifandi, allt Gyðingasamfélagið sem bjó í Jerúsalem. Segir sagan að margir hafi kosið að kasta sér fram af borgarmúrunum frekar en að falla í hendur krossfaranna. Lýsingarnar á morðunum eru svo ægilegar að vart er hægt að hafa þær eftir. Segja samtímaheimildir að ægilegur daunn hafi legið yfir borginni langt fram eftir haustinu. Eina þekktustu samtímaheimildina um fjöldamorðin í Jerúsalem þann 15. júlí árið 1099 ritaði Raymond frá Aguiles, en hann fylgdi krossfarahernum. Hann segir svo frá:
„Sumir manna okkar hálshjuggu óvinina, aðrir skutu þá með örvum þannig að þeir féllu úr turnunum þar sem þeir höfðu leitað skjóls. Öðrum var varpað í eldana sem loguðu um borgina. Hrúgur af föllnum lágu um alla borgina. Það var erfitt að komast áfram á hestbaki vegna líkanna. En þetta var ekkert á móts við það sem gerðist í musteri Salómons þar sem Gyðingar voru vanir að biðjast fyrir. Hvað gerðist þar? Ef ég segi sannleikann mun hann fara langt fram úr öllu því sem þér er fært að trúa. Látum því nægja að segja að í musteri Salómons riðu menn í blóði upp að hnjám hestanna."
Alls myrtu krossfararnir 40.000 manns þessa þrjá daga sem blóðbaðið stóð. Í þeim hóp voru bæði Gyðingar og múslímar og aðrir sem bjuggu í borginni helgu. Þar var enginn greinarmunur gerður á. Öllum íbúum borgarinnar var útrýmt. Yfirmenn hersins gerðu ekkert til að koma í veg fyrir slátrunina eða stöðva hana. Allir lögðu sitt að mörkum. Og enginn virðist hafa séð eftir gjörðum sínum, heldur fagnaði herinn því að borgin hefði verið „hreinsuð."
Þegar fréttir bárust af fjöldamorðunum urðu margir kristnir menn í Evrópu fyrir miklu áfalli. Þetta stríð var hætt að vera venjulegt landvinningastríð, en hafði snúist upp í heilagt stríð þar sem litið var á óvininn sem óvin kristinnar trúar. Þó voru aðrir sem fögnuðu tíðindunum. En múslímar um allan hinn íslamska heim fylltust skelfingu og hétu hefnd. Segja má að sú hefnd sé enn í fullu gildi.