Gospel

Gospel

Þetta er Guð paþosins, Guð gospelsins – sem minnir okkur á það að taka stöðu með þeim sem hrjáður er og smáður í heimi sem einkennist oftar en ekki af eigingirni og græðgi.

Við fögnum góðum gestum sem hingað eru komnir í kirkjuna til þess að glæða hana lífi með söng sínum. Gospelkórinn æfir vikulega hjá okkur í Kirkjulundi og við njótum í staðinn innblásturs þeirra og krafta hér í messunni. Sannarlega er þar mikils að njóta. Tónlistin sem hópurinn flytur gefur okkur svo mikið. Tónarnir, textinn og ekki síst túlkunin gefa henni sérstöðu sína. Gospel er sálmasöngur tilfinninganna – tjáning mennskrar sálar við gjöfum Guðs.

Martin Luther King

Á erlendum málum eru tilfinningar gjarnan nefndar paþos eða passíon. Það getur náð yfir allan skalann – ástríðu, þjáningu innlifun og eldmóð. Því tilfinningarnar – paþosið – er tákn hins breytilega. Einmitt það að sama orðið skuli eiga við um þjáningu og ástríðu minnir okkur á það að hversu næmur heimur tilfinninganna er að breytingum. Þar er fátt stöðugt og óhagganlegt. Nei, sá sem sýnir kenndir sínar lætur í ljós svipbrigði, hann lætur sér ekki fátt um finnast og hann bregst við þegar eitthvað misbýður réttlætiskenndinni. Og hér höfum við kórinn sem sérhæfir sig í tilfinningaríkri tjáningu. Velkomin hingað í kirkjuna og komið hingað sem oftast! Svo merkilega vill til einmitt núna að í vikunni sem leið voru fjörutíu ár liðin frá því að einn helsti merkisberi slíkra hugmynda í kristinni kirkju var myrtur. Það var séra Martin Luther King, blökkumannaleiðtoginn sem barðist fyrir jafnrétti kynþáttanna í Bandaríkjunum.

Hann var einmitt alinn upp og starfaði í þeirri hefð sem við getum kennt við hina tilfinningaþrungnu trúartónlist – gospel. Þegar hann sté fram á sviðið og flutti ræður sínar var hann ekki fulltrúi hefðanna. Hann benti fólki á fjötra vanans sem geta komið í veg fyrir að menn greini þær umbætur sem þörf er á. Vaninn getur slegið blindu á augun svo við sjáum ekki þær kröfur sem kærleikurinn gerir til okkar – en kærleikurinn er hin æðsta dygð eins og postulinn segir.

Festa og breytileiki

Vissulega eru þeir margir sjá í trúnni slíkar hliðar og benda á formfestuna og hefðirnar sem kirkjan hefur í mörgum tilvikum myndað í aldanna rás. Og svo þegar aðstæðurnar kalla á okkur að breyta sýn okkar á umhverfi og náunga reynast fjötrar hefðanna stundum þyngri en svo að jafnvel kærleikurinn fái þar einhverju áorkað. Er átakanlegt að fylgjast með því hvernig jafnvel kirkja Krists getur sligast undan því fargi. En það mikill misskilningur að ætla að takföst hrynjandin sé það sem kristindómurinn – trúarbrögð hinna göfugu tilfinninga – snúist um. Hún getur reynst skjól fyrir óréttlæti og í nafni hennar reisir margur háa þröskulda fordóma og mannhaturs til varnar því að hver einstaklingur fái notið sín í krafti þess að vera dýrmæt og einstök sköpun Guðs.

Þegar Marteinn Lúther King flutti ræðu sína um afnám kynþáttamisréttis í Bandaríkjunum lýsti hann draumsýn þeirri sem hann átti og svo margur hefur vitnað til síðan. Þó er ekki víst að menn viti að í þeirri þekktu tölu leiddi hann út af spádómsriti Jesaja. Þar talar hann einmitt um fyrirstöðurnar og höftin fjötra huga okkar og hjarta. Nei, hann spáði því eins og Jesaja forðum að „sérhver dalur [skuli] hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum.“ Já, hindranirnar sem varna því að kynþættirnir geti lifað í sátt og samlyndi skyldu hverfa fyrir kærleikanum og þeirri vitund að allir menn eru skapaðir jafnir – skapaðir í mynd Guðs og því dýrmætari en orð fá lýst. Fyrirstöðurnar eru fordómarnir, dalverpin er óttinn við það að varpa þeim af okkur. En allt þetta fletur Guð út því máttur hans er mikill og kærleikur óþrjótandi. Þessi texti talar inn í alla tíma og ekki síst nútímann þar sem enn er tekist á um hefðir og kærleika innan kirkju Krists.

Paþos trúarinnar

Þarna sjáum við fagnaðarerindið í hnotskurn og eins hitt hvernig sú menning, sem uppfóstraði Gospel tónlistina og nærði, nýtti sér fagnaðarerindið til þess að vinna á meinum þeim sem mannlegt samfélag hafði alið með sér. Fagnaðaerindið er máttugra en fordómarnir. Kærleikurinn er hatrinu yfirsterkari. Paþos trúarinnar er aflið til breytinga og bóta því kærleiksverkin eru birtingarmynd trúarinnar. Þetta hafði annar Lúther bent á tæpri þúsöld áður þegar hann, vopnaður heilagri ritningu, reis upp gegn stirðnuðum hefðum trúarstofnunarinnar á þeim tíma.

Slíkt er sannarlega fagnaðarerindi - Gleðilegur boðskapur. Og það er einmitt merking orðsins Gospel – eða „góðspjall“ eins og það er kallað í íslensku hómilíubókinni frá 13. öld. Það orð þykir kristnum mönnum hæfa vel boðskapnum um fyrirgefningu syndanna, um hjálpræði mannsins, um trú, von og kærleika – um allt það dýrmæta og góða sem heilög ritning færir okkur, já, sem fagnaðarerindið miðlar. Gospel er einmitt sett saman til þess að lofa það hversu dásamlegur veruleiki það er að eiga hlutdeild í þeim sigri og að vera hluti af þeim hópi sem kennir sig við Krist.

Sterkur kjarni

Textarnir fjalla einmitt um þann hóp. Þeir fjalla um hópinn sem sameinast um fagnaðaerindið. Kristur líkir honum við hjörð. Það er ekki að ástæðulausu því hjörðin er einmitt á ferð um ólíka vegu og henni mæta misjafnar aðstæður. Lífið er þannig. Sumir eru einmitt fangar í fjötrum óréttlætis. Menn fara villur vega.

Textarnir minna okkur á það hvað það er að vera kristin. Það er að eiga sér slíka leiðsögn að menn láta ekki blekkjast þótt því sé haldið fram að fólk eigi að fylgja innantómum orðum þeirra sem láta stjórnast af hatri og ótta. Sá sem á sér góðan hirði er ekki eins og villuráfandi sauður sem eltir skugga og vind. Nei, hann hefur í brjósti sínu bæði sannfæringu og samvisku sem veitir honum leiðsögn í lífinu. Og hann býr yfir þroskuðum tilfinningum sem gefa honum styrk og afl til þess að breyta venjum sínum ef þær stangast á við þá leiðsögn. Þetta er svo mikilvægur hluti af trúnni. Þannig störfuðu þeir báðir endurbótamennirnir og nafnarnir. Staðfestan sem skín út úr orðum þeirra minnir okkur á það hvers virði það er að eiga sér raunveruleg markmið í lífinu. Hugrekkið sem birtist í verkum þeirra minnir okkur á gildi þess að hafa ríkan fjársjóð góðra kennda sem gefa okkur máttinn til þess að breyta því sem þarf að breyta.

Góði hirðirinn

„Ég er góði hirðirinn“ segir Jesús. Það að eiga sér góðan hirði er að hafa sanna leiðsögn í lífinu. Það er röddin sem talar til okkar í mótlæti daganna sem og í góðæri og minnir okkur á að bindast ekki hinu forgengilega heldur leita þeirra verðmæta sem mölur og ryð fá ekki grandað. Hann sýnir okkur leiðina í gegnum það sem ekki skiptir máli og það sem jafnvel sendir okkur í burtu frá þeim góða vegi sem við erum kölluð til að fylgja. Oft er því búinn sá búningur að það sé í anda orða Guðs, en er það sannarlega ekki ef það leiðir til haturs og tortryggni gegn náunga okkar. Í þeim anda segir postulinn: „Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.“

Því þótt aðalsmerki tilfinninganna sé að breyta og breytast – er kristin trú fjarri því að vera tilviljanakennd og duttlungakennd hugmyndafræði sem stöðugt fylgir tíðarandanum eftir. Nei, hún er öflug og hlaðin merkingu vegna þess að í innsta kjarna hennar er kærleikurinn til Guðs. Sú ást endurspeglast í afstöðunni til náungans - sérstaklega þeim sem minnstur er. Þetta er sú siðfræði sem kristin trú byggir á og hvort tveggja er grundvallað á djúpum og einlægum tilfinningum sem hvetja okkur til þess að rétta hag náungans og rísa upp gegn óréttlætinu.

Þetta er það sem trúarleiðtoginn Marteinn Lúther King hafði að leiðarljósi er hann reis upp gegn misréttinu. Og sjálfur birtist Guð okkur í Biblíunni ekki sem Guð hins óbreytanlega, heldur í mynd Krists. Þar er hann Guð sköpunar, Guð sem reiðist, syrgir, hungrar og þyrstir – og kallar okkur fram til samfélags við sig. Það samfélag er grundvallað á sterkustu tilfinningunni: kærleikanum. Þetta er Guð paþosins, Guð gospelsins – sem minnir okkur á það að taka stöðu með þeim sem hrjáður er og smáður í heimi sem einkennist oftar en ekki af eigingirni og græðgi. Slíkur er Guð kristinnar trúar, Guð sem birtist okkur í orðum og verkum Jesú Krist.

Textar: Es. 34.11-16,31, 1Pét 2.21-25 og Jóh 10.11-16