Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen Á bjartasta tíma ársins erum við samankomin hér í Hallgrímskirkju í Reykjavík við biskupsvígslu. Á þessum degi sem kenndur er við Jóhannes skírara, Jónsmessunni. Birtunni fylgir jafnan gleði og bjartsýni og þess megum við minnast þegar aftur fer að dimma, að Jesús sem sagðist vera ljós heimsins er alltaf með okkur, einnig á dimmum dögum.
Vegna hans erum við líka hér í dag. Í húsinu sem frátekið hefur verið fyrir þjónustuna við hann. Jesú, sem samneytti syndurum og leit fram hjá viðteknum siðum og venjum í nafni kærleikans. Hans Biblía var Gamla-testamentið og úr því var lesið hér áðan, úr spádómsbók Míka. Í þeirri bók standa orðin, sem eru nokkurs konar samnefnari fyrir það sem spámenn Gamla testamentisins vildu koma á framfæri. „Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: Þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“
Við eigum að þjóna Guði. Þeim Guði er Jesús Kristur birti okkur og boðaði. Sú þjónusta er ekki ætluð fáum heldur öllum mönnum, á öllum tímum. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra sem tilheyrum Kirkjunni að koma þessu erindi á framfæri og lifa í samræmi við það. Öll framganga okkar mótar líf okkar og ekki aðeins okkar heldur allra þeirra er á vegi okkar verða. Við berum því öll ábyrgð ekki bara gagnvart okkur sjálfum heldur einnig því samfélagi sem við lifum í.
Kirkjan hefur haft mótandi áhrif á samfélagið alla tíð, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna þess erindis sem henni er ætlað að koma á framfæri. Það erindi er gefandi og gott, lífgefandi og styrkjandi. Þess vegna er Kirkjan ein af grunnstoðum samfélagsins. Kristin hugsun hefur mótað menningu okkar í meira en 1000 ár og á þeim arfi byggist samfélag okkar. Á kærleika, fyrirgefningu, réttlæti. Á boðorðunum 10, tvöfalda kærleiksboðinu og gullnu reglunni. Sem þjóð höfum við komið okkur saman um að svo skuli vera og gengið út frá því við lagasetningu og framkvæmd hennar.
Sú þjónusta sem Kirkjan innir af hendi í nafni Jesú Krists út um allt land er enn jafn mikilvæg og hún var á öldum áður. Öllum landsmönnum gefst kostur á henni óháð trúfélagsaðild. Eitt af einkennum þjóðkirkju er að hún stendur öllum opin. Jesús fór ekki í manngreinarálit og það gerir Kirkja hans ekki heldur. Erindi hennar er öllum ætlað.
Biblíutextar þessa sunnudags leggja áherslu á kærleika og miskunn.
Þegar fólk fer eigin leiðir eiga aðrir oft erfitt með að skilja. Þannig var með Jesú. Þess vegna sagði hann dæmisögur máli sínu til skýringar. Í dag eru þær tvær, en fjalla báðar um það að leita að hinu týnda.
Við þekkjum sennilega öll angistina sem heltekur okkur þegar við tínum einhverju. Verðum jafnvel andvaka af umhugsun um það hvar hluturinn er sem við týndum. Þrátt fyrir mikla leit þá finnst ekkert. Þetta er vond tilfinning og truflar huga okkar og dagleg verkefni.
Kvöld eitt þegar börnin mín voru lítil svaraði eitt þeirra ekki þegar ég kallaði á það. Ég kallaði aftur en fékk ekkert svar. Ónotatilfinning fór um mig og eitt andartak varð ég ráðalaus og stjórnlaus. Ég fór um allt húsið en fann ekki barnið. Ég sá einn gluggann galopinn og ímyndaði mér að barnið hefði prílað þar upp og dottið út. Ég fór út í myrkrið og þreifaði á jörðinni en fann ekkert. Ég fór aftur inn og gafst upp. Settist í stigann og sat þar sem lömuð af skelfingu. Reyndi að róa hugann og ná aftur að hugsa rökrétt. Þá heyrðist kallað, mamma. Og því líkur léttir. Enn í dag upplifi ég skelfinguna í huga og líkama þegar ég minnist þessa svo mjög fékk þetta á mig.
Það er því auðvelt að setja sig í spor hirðisins sem fór og leitaði að sauðinum sem týndist eða konunnar sem leitaði að peningnum, drökmunni sem týndist. En þau eru sögupersónur dæmisögu Jesú sem lesin var úr guðspjalli Lúkasar hér áðan. Þó að við séum þess meðvituð að gera gott og feta veg dyggðarinnar þá er það ekki alltaf svo að okkur takist það. Þess vegna er gott að þekkja þann Guð sem Jesús birti og boðaði. Eiginleikum þess Guðs er lýst í lexíu dagsins. Sá Guð fyrirgefur misgjörðir og sýknar af syndum. Lætur af reiðinni og sýnir mildi. Og enn sýnir hann oss miskunnsemi, segir í textanum og varpar öllum syndum vorum í djúp hafsins. Við skulum því leyfa Guði að komast að í lífi okkar og þjónustu og leyfa honum að eiga síðasta orðið. Muna að við eigum að feta í fótspor meistarans en ekki vera hann. „Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau“, segir Páll í pistli dagsins.
Við erum ekki eyland. Við sem nú þjónum Kirkjunni byggjum á því sem var og mótum það sem verður. Verkefni okkar er því sístætt. Sem Kirkja höfum við þurft að horfast í augu við mörg lærdómsrík mál og búa þannig um hnúta að við getum horft björtum augum til framtíðar. Það starf hefur eflt okkur og þeir ferlar sem mótaðir hafa verið eru öðrum fordæmi í samfélaginu. Við eigum líka að muna það að við tilheyrum samfélagi, bæði hinu veraldlega sem og hinu andlega. Þjóðfélaginu og Kirkjunni. Kristnu fólki út um allan heim, en nokkrir fulltrúar þeirra eru með okkur hér í dag sem og fulltrúar annarra kristinna kirkjudeilda. Þannig erum við áþreifanlega minnt á það að við tilheyrum hópi og ef einhver villist eða týnist eigum við ekki að láta það afskiptalaust, eins og guðspjallstextinn í dag minnir okkur á. Í kvenfélaginu Brautin í Bolungarvík voru á annað hundrað konur fyrir mörgum árum. Í nóvember var haldið upp á 100 ára afmæli félagsins og sagan rifjuð upp. Nú eru konur nokkrir tugir og aðeins um 20 virkar félagskonur. Þess vegna var það okkur Brautarkonum mikið fagnaðarefni þegar nokkrar konur gengu í félagið á afmælinu. Það fjölgaði um fjórðung eða svo í félaginu. En það gerðist ekki bara af sjálfu sér. Það gerðist m.a. vegna þess að við settum okkur það markmið að fjölga í félaginu og fundum leiðir til þess.
Það sama þarf Kirkjan að gera. Þau sem yfirgefið hafa Kirkjuna á undanförnum árum hafa valið það af ýmsum ástæðum. Nú þarf að setja það markmið að fjölga í Kirkjunni og finna leiðir til þess. Við þurfum að vera eins og hirðirinn sem leitar eða konan sem leitar. Þau leituðu þar til þau fundu og þannig eiga vinnubrögð okkar að vera. Við viljum ná til þeirra sem ekki eru í félaginu. Við eigum að gera það með gleði og áhuga, ekki bara til að hækka töluna heldur vegna þess góða erindis sem við höfum fram að færa. Við skulum einbeita okkur að því að flytja þann boðskap sem okkur er ætlað og leggja það allt í Guðs hendur hvernig við förum að því og hver árangurinn verður. Minnumst þess að það var hirðirinn í dæmisögunni sem fór og leitaði að sauðinum týnda en ekki einhver annar sauður. Verkefni kristinnar Kirkju er ærið og ofurmannlegt í raun. Þess vegna megum við aldrei falla í þá gryfju að við getum allt í eigin mætti og því síður ein og sér. Drottinn er hirðir okkar. Leyfum honum að stjórna okkur til góðra verka. „því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því“ segir postulinn í bréfi sínu.
En það er ekki nóg að halda því fram að erindi Kirkjunnar sé gott og gefandi. Það þarf að segja frá því hvert það erindi er. Grundvöllur þess er Jesús Kristur og boðskapur hans. Um hann getum við lesið í guðspjöllunum. Þar mætum við honum. Þar talar hann við okkur eins og við þau er sögurnar greina frá. Og sambandið er ekki bara á annan veginn. Við getum talað við hann í bæn og beðið fyrir okkur og öðrum. Við megum sleppa tökum á því sem við viljum ekki hafa lengur í farteskinu og fela honum það. „Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ segir hann. Og það er ótrúlegur léttir þegar þeim trúarþroska er náð.
Boðskapur Kirkjunnar á erindi við okkur hvert og eitt og hann á líka erindi við það samfélag sem við lifum í. Jesús Kristur lét sig varða mál einstaklinga sem og samfélags. Hann var leiðtogi sem læra má af í þeim fræðum og hann var alls ekki meðvirkur eins og okkur hættir til á stundum. Við lærum af boðskap hans sem og honum sjálfum og nærumst af Orði hans. Hann er bjargið sem byggja má á og reisir við það sem fallið hefur og finnur þau er týnast. Boðskapur hans á því við í dag, eins og áður, hann úreldist aldrei. Framtíð okkar er því björt eins og sumarnóttin og jafnvel þó við villumst af leið um stund verður að okkur leitað þar til við finnumst. Hið sama á við í lífi okkar. Ef við leitum þá finnum við því frelsari okkar gengur með okkur veginn og sendir okkur vini til hjálpar.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.