Kæru Krists vinir
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ Mt. 28 18-20
Þetta eru kveðjuorð Jesú til lærisveina sinna og þau er að finna í lokakafla Mattheusarguðspjalls, já þetta eru síðustu vers guðspjallsins. Mér kom þessi texti strax í hug þegar til mín var leitað og ég beðinn um að predika Guðs orð frá þessum predikunarstóli hér í dag í Fíladelfíu – á skírdag í sameiginlegri guðsþjónustu kristinna trúfélaga. Um leið kom fram í huga minn myndin af Einari Gíslasyni heitnum forstöðumanni safnaðarins sem hér ræður húsum. Hér stóð hann oft og lengi og predikaði af andagift og krafti sem tekið var eftir um allt land. Honum lá hátt rómur því erindið sem hann flutti var brýnt og það skyldi ná út til sem flestra. Trúboðskipun Frelsarans átti hug hans allann enda hefur Hvítasunnuhreyfingin frá upphafi lagt höfuðáherslu á trúboð og hún hefur breiðst hratt út um heimin frá því hún kom fram á sjónarsviðið fyrir rétt rúmri öld. Einar var sérstæður persónuleiki, rauðbirkinn og ljós á hörund eins og frændur okkar Írar. Hann sameinaði hörku og skapfuna víkingsins og blíðlyndi huggarans. Lengi stundaði hann sjómennsku og þessir hæfileikar komu honum að gagni bæði þegar hann stýrði skipi og söfnuði. Hann var baldinn og skjótráður sem ungur maður en fordæmi móður hans og eldri bróður beindu huga hans inn á við, samviska hans vaknaði og hann tók sinnaskiptum. Um leið valdi hann braut trúboðans og hann agaði sjálfan sig í þjónustunni. Hann var fundvís á leiðir og aðferðir til að koma Guðs orði að við hinar ýmsu aðstæður. Einar lærði ungur áherslur og stíl erlendra trúboða, en sem leiðtogi varð hann íslenskur í húð og hár og boðun hans varð með árunum æ tengdari kristnum arfi þjóðarinnar og hann kynnti sér kristnisöguna og fann þar tengingar við Hvítasunnuhreyfinguna. Hann nefndi það einu sinni við mig og lagði áherslu á það að Íslendingar hefðu skírst niðurdýfingarskírn, eins og hér í Fíladelfíu, þegar þeir voru á leiðinni heim frá Þingvöllum eftir kristnitökuna árið 1000. Hinir nýfrelsuðu notuðu til þess volgar laugar sem þeir fundu á leiðinni heim. Það dugði ekkert minna en að skírnarþegar færu alveg ofan í og hann lét á sér skilja að þar með væri öll sönn kristni í landinu hluti af Hvítasunnuhreyfingunni. Hann gat verið glettinn og skemmtilegur, en því fylgdi oftast alvara undir niðri. Vafalaust hafa margir þeirra íslensku goða og höðingja sem Íslendingabók segir frá að hafi skírst eftir kristnitökuna sumarið 1000 verið prímsigndir áður, þ.e. höfðu verið signdir krossmarki af presti til þess að geta umgengist kristna menn í friði og sátt. Margir þeirra hafa án efa þekkt kristinn sið og ekki aðeins af afspurn heldur eigin reynslu og tileinkað sér ýmislegt úr honum þótt þeir gengju honum ekki opinberlega á hönd enda hefur staðbundið kirkjulegt samfélag ekki festst í sessi fyrr en seinna. Margir hafa verið blendnir í sinni trú eins og heimildir greina að verið hafi um Helga magra sem játaði Krist heima fyrir í faðmi fjölskyldunnar en hét á Þór til sjóferða. Margir norrænir landnámsmenn höfðu dvalið langdvölum á Írlandi áður en þeir létu í haf og tóku land á Íslandi. Í Dyflini á Írlandi var ríki norrænna manna sem féll árið 871 og hafði það þá staðið um áratuga skeið. Vitað er að norrænir landnámsmenn tóku með sér konur, vinnufólk og þræla og að hér var frá upphafi byggðar kristinn siður og helgihald sem ekki hefur takmarkast við munkana og einsetumennina sem voru komnir hingað áður. Þeir voru nefndir papar og fylgdu sinni sérstöku hefð sem var í ætt við byzantíska kristni í austurlöndum nær. Sú kristni sem barst með trúboðum frá Skandinavíu og meginlandi Evrópu studdist helst við biskupsvald Rómarkirkjunnar. Hinn írski siður var ekki eins vel skipulagður og aðgreindur og rómarkristnin sem náði yfirtökunum. Keltnesk kristni lifði síðast á jaðarsvæðum Evrópu, Íslandi þar með töldu. Munkar og ábótar höfðu þar meiri áhrif en biskupar og sjálfstæðir höfðingjar byggðu kirkjur og komust þar með til áhrifa. Fáar heiðnar grafir hafa fundist á Íslandi og nýlega hafa fornleifafræðingar grafið upp kirkju á Austurlandi með írskum og skorskum einkennum sem byggð var fyrir hina opinberu kristnitöku. Ýmsar aðrar rannsóknir hafa sýnt að fólk af írsku bergi var mun fleira hér í upphafi Íslands byggðar en álykta má út frá þeim rituðum heimildum sem varðveist hafa. Margt bendir til þess að ákveðnar byggðir og sveitir hafi verið kristnar alveg frá landnámi og sú kenning fær því ekki staðist að landið hafi einhvertíma verið alheiðið. Konur gátu aflað sér þekkingar og komist til áhrifa í írskum kirkjusið og benda nöfn þeirra systranna Auðar djúpuðgu og Jórunnar mannvitsbrekku til þess að svo hafi verið hér á landi og það voru konurnar og vinnufólkið sem ól upp börnin og innrætti þeim góða siði. Djúpýðgi þýðir það sama og mytstík eða dulúð, enda var í írskri kristni oft meiri áhersla lögð það að samtengja kristin hugtök og hugsun þeirri menningu og þjóðsiðum sem fyrir var og má benda á náttúrumystikina í því sambandi sem felur í sér næmi á fegurð náttúrunnar sem vitnisburðar um góða sköpun Guðs.
Því nefni ég þetta hér - og geri að umtalsefni - að við eigum mikilvæga hefð og forsögu að varðveita og miðla inn í nútímann. Paparnir svonefndu voru ekki einangrað fyrirbrigði heldur hluti af þeirri miklu kristnu hreyfingu – ég vil segja trúboðshreyfingu, sem hófst með eyðimerkufeðrum frumkirkjunnar. Þeir fóru út í eyðimörkina til komast hjá neikvæðum áhrifum umhverfisins og aga sjálfa sig og efla samband sitt við Guð. Þeir urðu fyrirmyndir og oft urðu heil samfélög trúaðra til í kringum þá og þannig urðu klausturhreyfingarna til og þær höfðu margvísleg áhrif á trú og menningu fólksins. Írsku munkarnir litu á úthafið sem eyðimörkina og þeir leituðu samfélags við Guð þar sem þeir náðu landi og settust að. Aðrir fylgdu í kjölfar þeirra efldir af fordæmi þeirra og trúarstyrk.
Þessa kyrrlátu hefð eigum við og okkur er falið að miðla henni áfram inn í þann nútíma sem stundum virðist vera að kafna í hávaða og hraða, stressi og samkeppni. Nánast allt samfélagið er gegnsýrt hugsanagangi samkeppni og árangursmats – og það er góðra gjalda vert að mörgu leyti, ekki síst þegar hagsmunir heildarinnar og velferð fjöldans er höfð í huga. En hvert er lokatakmarkið, hvar fær sál okkar hvíld - hvert er hið raunverulega inntak mannlegra samskipta. Hver er ábyrgð mannsins?
Trúin á Guð, sambandið við Guð, samfélagið við Guð birtist í samfélagi okkar hvert við annað – afstöðunni til náungans. Hátíð páskana er að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var komin. Hann elskaði lærisveina sína og bað fyrir þeim. Þeir undirbjuggu sig undir hátíðina og efndu til kvölmáltíðar saman og undir borðum ræðir Jesús við lærisveinana og efnir þar til sýnikennslu sem reyndist vera leiðtoganámskeið sem lifað hefur með kirkjunni alla tíð síðan – betri leiðtogafræði og forsendur árangurs fyrirfinnast ekki. Honum var allt vald gefið eins og stendur í textanum, en hann lagði áherslu á hlutverk þjónsins. Hann tók líndúk og mundlaug með vatni og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum. Þetta var táknræn athöfn sem skírskotar bæði til skírnarinnar og fórnarinnar á krossinum. Vatnið hreinsar og helgar og þess vegna köllum við daginn skírdag. Lærisveinarnir eru frá teknir til að vitna um Jesú, meistarann sem drottnaði ekki og dómarann sem dæmdi ekki, heldur þjónaði og lagði líf sitt að veði fyrir frelsun mannanna. Lærisveinarnir verða furðu lostnir og Símon Pétur ætlar fyrst að neita meistara sínum um að þvo fætur sína, - en Jesús stendur fast á sínu og segir að ef þessi athöfn nái ekki fram að ganga þá eigi þeir ekkert sameiginlegt lengur. Með þessari athöfn hefur hann opinberað fyrir lærisveinum sínum lögmál hins nýja ríkis og forsendurnar fyrir framgangi þess á jörðinni. Eftir fótaþvottinn sest hann aftur við borðið og útskýrir fyrir þeim leiðtogahlutverkið og segir við við þá: „Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður. Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur.“ (Jh 14. 12-14) Þessi leiðtogaþjálfun og trúboðsaðferð er í raun og veru auðskilin en það er hvorki einfalt né auðvelt að fara eftir henni. Kristur þekkti veikleika lærisveina sinna og hann hafði til að bera fágætt innsæi á mannlega styrkleika og veikleika og vart er hægt að finna dæmi um betri fræðara og kennara en hann. Hann bað fyrir lærisveinum sínum og sendi þá út í heiminn með þessi orð að leiðarljósi: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem tekur við þeim, sem ég sendi, hann tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim er sendi mig.“ (Jh 13. 20)
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.