Hótel jörð

Hótel jörð

Draumar þeirra sem unnu að endurreisn Skálholts um miðja síðustu öld hafa ræst og það þarf engan utanaðkomandi fagaðila í veraldlegum hótelbransa til að bjarga staðnum. Kirkjuráði ber að standa vörð um starfsemina þar.
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
04. mars 2014

Hótel jörð

Um síðustu helgi var ég með hóp nemenda á lokaári guðfræðinámi á kyrrðar- og fræðsludögum í Skálholti. Það var yndislegt eins og alltaf áður og ekki síst fyrir þá sök að þar verð ég vitni að því hvernig nemendur upplifa staðinn, söguna og helgina og tileinka sér helgihaldið sem myndar rammann utan um þessa daga. Á laugardagsmorgninum hafði hótelstjórinn í Skálholti séra Kristján Valur Ingólfsson borðmessu í matsal skólans þar sem sakramentinu var útdeilt en brauðið hafði hann bakað í biskupsbústaðnum snemma um morguninn samkvæmt uppskrift ekkjunnar í Sarefta (1Kon 17).

Sungnir voru sálmar, m.a. eftir hótelstjórann sjálfan, og svo lauk athöfninni með kærleiksmáltíð, venjulegum morgunverði að hætti staðarins eins og gerðist meðal hinna frumkristnu. Kristján Valur hefur áður haft slíkar borðmessur með nemendum og hef ég þar upplifað hvernig messan sem slík og sérstaklega heilagt sakramentið færist eins og nær þátttakendum þegar hún er flutt á þennan hátt – verður þeim áþreifanleg og persónuleg.

Seinna þennan sama morgun ræddi vígslubiskupinn við nemendur um köllunina til vígðrar þjónustu í kirkjunni og þann vanda og ábyrgð sem fylgir því að starfa sem prestur og djákni. Ásamt með sr. Agli Hallgrímssyni staðarpresti söng hótelhaldarinn með okkur tíðagjörðina hvern morgun að viðbættum kvöldsöng (Vesper) og náttsöng (Completorium). Helginni lauk svo með messu í dómkirkjunni þar sem nemendur þjónuðu með staðarpresti í útdeilingu sakramentisins, með ritningarlestrum og flutningi almennrar kirkjubænar.

Með þessum hætti tekur þjóðkirkjan utan um væntanlegt starfsfólks sitt og hlúir að því á síðustu metrunum að embættisprófi. Sjálfur hef ég horft á það í gegnum árin hvernig köllun þessa unga fólks eins og fullkomanst í þeim faðmi þjóðkirkjunnar sem Skálholtsstaður er.

* * *

Þessi starfsemi er í samræmi við gildandi lög um Skálholtsskóla þar sem gert er ráð fyrir sérstöku guðfræðisviði sem skapar tengingu milli Skálholtsskóla og Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands. Í ljósi sögunnar eru þessi tengsl afar dýrmæt því að snemma var hugað að menntun presta og djákna eftir að Skálholt varð biskupssetur. Sjálfur er hótelhaldarinn upplagður til að útfæra þessi tengsl því að hann er sérmenntaður í helgisiðafræðum og hefur kennt þau fræði við deildina í mörg ár.

Lesendum pistla á trú.is er nú e.t.v. farið að gruna hvað ég á við með hótelhaldaranum í þessu samhengi, en það er að sjálfsögðu hin makalausa grein eftir kirkjuráðsmanninn sr. Gunnlaug Stefánsson sem hann nefnir „Björgum Skálholti“. Af geininni má ráða að það sé ekki hlutverk kirkjuráðs að standa vörð um starfsemina þar og ekki heldur skólaráðsins, þjóðkirkjunnar eða fólksins í sveitinni heldur fyrst og fremst þess sem hann kallar fagaðila í almennrum hótelrekstri.

Starfsemi skólans skilgreinir hann sem hótel- og veitingarekstur í samkeppni á almennum markaði og gengur út frá því að laun biskupsins eigi að reikna sem framlag kirkjunnar til niðurgreiðslu á slíkri starfsemi. Dæmið kemur þannig út að tapið á rekstrinum sé svo hrópandi að það þurfi utanaðkomandi fagaðila til að reka eldhúsið og gistiheimilið. Staðreyndin er sú hvað sem öllum bókhaldsæfingum og talnaflóði líður að rekstur eldhús og gistiheimilis Skálholtsskóla ber sig og skilar nú arði.

Ég veit um góðan hug séra Gunnlaugs til kirkjunnar og hæfileika hans og snerpu þegar kemur að því að verja hagsmuni hennar enda hefur honum maklega verið treyst fyrir áhrifa- og valdastöðu þar sem hann er kosinn af kirkjuþingi í kirkjuráð. Þess vegna er afstaða hans gagnvart Skálholtsskóla mér og fleirum algerlega óskiljanleg.

Ef eitthvað er óraunsæ óskhyggja þá er það hugmyndir hans um utanaðkomandi fagaðila sem reki staðinn á grundvelli guðfræði þjóðkirkjunnar. Enginn ábyrgur fagaðili í þessum bransa myndi gera kjörorðin „biðjandi, boðandi og þjónandi“ að einkunnarorðum sínum. Kjörorð þeirra er aðeins eitt og það er hagnaður.

* * *

Kirkjuráð ber ábyrgð á staðnum og stendur vörð um að lögum um skólann sé framfylgt. Því auðnaðist að fela vígslubiskupi húsbóndavaldið yfir skólanum sem var rétt ákvörðun enda vandfundinn sá maður sem gæti farið betur með það. Kristján Valur er í röð þeirra afburðamanna sem þar hafa farið með biskupshlutverkið og haft auk fræðilegrar þekkingar nægilega mikið vit á stjórnsýslu til þess að reisn væri yfir starfseminni.

Það traust sem hann og kona hans Margrét Bóasdóttir njóta innan kirkjunnar og í lista- og fræðaheiminum hér heima og erlendis er ómetanlegt í þessu sambandi og snertir beint þau þrjú svið sem skólanum ber að sinna. Það er eins og guðleg forsjón hafi verið með í spilinu þegar fólkið sem nú starfar í Skálholti var valið enda margreynt að fagmennsku og kærleika til staðarins.

Draumar þeirra sem unnu að endurreisn Skálholts um miðja síðustu öld hafa ræst og það þarf engan utanaðkomandi fagaðila í veraldlegum hótelbransa til að bjarga staðnum. Kirkjuráði ber að standa vörð um starfsemina þar í nafni kirkjunnar, þjóðarinnar og allra þeirra sem lagt hafa fram fé og stutt að þessari endurreisn fyrr og síðar.

Þegar ég var að skrifa þessa grein hringdi í mig trúuð kona sem biður reglulega ásamt vinkonum sínum fyrir framgangi guðskristni í landinu. Hún hafði nýlega verið á kyrrðardögum í Skálholti og átti vart orð til að lýsa dvölinni þar. Nú var framtíð Skálholts henni ofarlega í huga og hún treystir því að Guð haldi verndarhendi sinni yfir staðnum. Þær vinkonurnar biðja nú fyrir færsælli lausn á málefnum staðarins. Ég tek undir bænir þeirra. „Mjölskjóðan skal eigi tóm verða og viðarsmjörið í krúsinni ekki þrjóta“ (1 Kon 1:14) – ef starfsemin fær að dafna þar á þeim grunni sem hún er nú.