Sálmabók

103. Nú gleðifregn oss flutt er ný

1 Nú gleðifregn oss flutt er ný
úr fögrum himinsölum:
Sá Guð er hæst býr hæðum í
vill hér í jarðardölum
oss búa hjá; um blessun þá
og birta leyndardóma
Guðs engla raddir óma.

2 Ein kyrrlát mær þá kveðju fær
sem kætir bæði' og hræðir,
að hennar sonur hjartakær
er hún á síðan fæðir
það veldi fær er voldugt nær
um víðar heimsins álfur
og hærra' en himinn sjálfur.

3 Við mey þá engill mæla réð:
„Þú munt af himnum þiggja
Guðs anda gjöf; þig mun þar með
Guðs máttur yfirskyggja.
Og lífs þíns von, þinn ljúfa son,
þú lausnara skalt kalla,
hann endurleysir alla.“

4 Lát kraft þinn, Jesú, Jesú minn,
mig jafnan yfirskyggja
og lát þitt orð og anda þinn
mér æ í hjarta byggja
svo ég sé þinn og þú sért minn
og þinn æ minn sé vilji
og ekkert okkur skilji.

5 Þitt himnaríki' í hjarta mér
þinn helgur andi búi
svo hafni' eg því sem holdlegt er
en hjarta til þín snúi
uns englum jafn þitt Jesúnafn
fæ ég með þeim að róma
hjá þér í lífsins ljóma.

T Thomas Kingo 1689 – Nikolaj F.S. Grundtvig 1837 – Valdimar Briem – Sb. 1886
Nu kom der bud fra englekor
L Mainz um 1390 – Nürnberg 1523 – Ssb. 1936
Es ist das Heil uns kommen her
Eldra númer 573
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Lúk. 1.26–38

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is