Sálmabók

108. Frjóvgunareikin vökvuð, væn

1 Frjóvgunareikin vökvuð, væn,
velblómguð stóð með laufin græn
þegar á jörðu sást til sanns
son Guðs íklæddur holdi manns.

2 Af hverri grein draup hunang sætt,
hjálpræðiskenning fékk hann rætt,
öll hans umgengni ástúðleg
angraðar sálir gladdi mjög.

3 Guði var þekkt það græna tréð,
glöddust himnar og jörðin með.
Í hans fæðing það vitnast vann
og við Jórdan þá skírðist hann.

4 Saklaus því leið hann sorg og háð
syndugt mannkyn svo fengi náð.
Hið græna tréð var hrakið og hrist,
hér af það visna blómgaðist.

5 Visnað tré ég að vísu er,
vægðu, réttlætis Herrann, mér,
gæskunnar eikin græn og fín,
geymdu mig undir skugga þín.

6 Tæpti ég mínum trúarstaf
á tréð sem drýpur hunang af.
Sjón hjartans öllu angri í
upplýsist nær ég smakka á því.

7 Þegar mér ganga þrautir nær,
þér snú þú til mín, Jesú kær,
hjartað hressi og huga minn
himneskur náðarvökvi þinn.

T Hallgrímur Pétursson Ps. 32
L Weisse 1531 – Sb. 1589 – SÓ 2015
Veni redemptor gentium (íslensk breyting)
Eldra númer 135
Eldra númer útskýring T
Biblíutilvísun Lúk. 23.27–31

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is