Sálmabók

128. Ég kveiki á kertum mínum

Á föstudaginn langa

1 Ég kveiki' á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

2 Í gegnum móðu' og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa
en dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

3 Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

4 Ég bíð uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð sem lifir
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.

5 Þú ert hinn góði gestur
og Guð á meðal vor,
og sá er bróðir bestur
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.

6 Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa frið.

7 Að kofa´ og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla
þó allir svíki þig.

8 Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.

T Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, 1924 – Vb. 1933
Á föstudaginn langa
L Guðrún Böðvarsdóttir um 1925 – Vb. 1946
Eldra númer 143b
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is