Sálmabók

130. Hvíli eg nú síðast huga minn

1 Hvíli eg nú síðast huga minn,
Herra Jesú, við legstað þinn.
Þegar ég gæti' að greftran þín
gleðst sála mín.
Skelfing og ótti dauðans dvín.

2 Sektir mínar og syndir barst
sjálfur þegar þú píndur varst.
Upp á það dóstu, Drottinn kær,
að kvittuðust þær.
Hjartað því nýjan fögnuð fær.

3 Svo finni eg hæga hvíld í þér,
hvíldu, Jesú, í brjósti mér.
Innsigli heilagur andi nú
með ást og trú
hjartað mitt svo þar hvílist þú.

4 Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst,
viska, makt, speki' og lofgjörð stærst
sé þér, ó, Jesú, Herra hár,
og heiður klár.
Amen, amen um eilíf ár.

T Hallgrímur Pétursson Ps. 50
L Sigurður Sævarsson 2007 – Vb. 2013
Eldra númer 817
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Jóh. 19.38–42

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is