Sálmabók

156b. Ég á mér hirði

1 Ég á mér hirði hér á jörð
sem hefur gát mér á,
hann blessar mig og býður nægð,
mig bresta ekkert má.

2 Ef eigra ég um eyðisand
og enga leið ég finn
hann leiðir mig á græna grund
og greiðir feril minn.

3 Við vötnin hans ég næðis nýt
svo nærist sál og líf,
hans helga nafn mér vísar veg
og veitir skjól og hlíf.

4 Þótt fari ég um dimman dal
er Drottinn samt mér hjá,
ég trúi' á hann og ekkert illt
mér ótta vekur þá.

5 Ég styðjast vil við staf þinn, Guð,
mig styrkir sproti þinn,
í hverri neyð þú býr mér borð
og bikar fyllir minn.

6 Já, fylgja mun mér gæfa Guðs
sem gengur mér við hlið
og alla daga ævinnar
ég á hans náð og frið.

T Svavar A. Jónsson 1995 – Sb. 1997
L Columbian Harmony 1829 – Sb. 1997
NEW BRITAIN / Amazing Grace
Sálmar með sama lagi 550a 550b
Eldra númer 730
Eldra númer útskýring T

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is