180. Legg þú á djúpið ♥
1 Legg þú á djúpið eftir Drottins orði
og æðrast ei því nægja mun þinn forði
þótt ómaksför þú farir marga stund.
Ef trú og dáð og dugur ei þig svíkur
er Drottinn lífs þíns enn þá nógu ríkur
og mild hans mund.
2 Legg þú á djúpið þegar Kristur kallar
og kveð án tafar holdsins girndir allar
og feta beint í fótspor lausnarans
og lát ei kross né kvalir ykkur skilja
en keppstu við að stunda Guðs þíns vilja
með hlýðni hans.
3 Legg þú á djúpið, þú sem enn ert ungur
og æðrast ei þótt straumur lífs sé þungur
en set þér snemma háleitt mark og mið,
haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni
og stýrðu síðan beint í Jesú nafni
á himins hlið.
4 Legg þú á djúpið, þú sem þreyttur lendir
úr þungaróðri heimsins – Jesús bendir –
ó, haf nú Drottin hjá þér innan borðs.
Þú fer þá góða för í síðsta sinni
því sálarforða skaltu byrgja inni
Guðs eilífs orðs.
5 Legg þú á djúpið, ó, þú sál mín auma,
en eftir skildu hégómlega drauma,
þeir sviku þig og sjá, þinn afli brást.
Á djúpið út, það kvöldar, Jesús kallar
því kvitta vill nú syndir þínar allar
Guðs eilíf ást.