Sálmabók

204. Sjá þann hinn mikla flokk

1 Sjá þann hinn mikla flokk sem fjöll
er fjölsett gnæfa' í skrúði' af mjöll,
hið prúða lið sem pálmavið
fyrir hástól heldur á.

2 Það hetjuvalið hér má sjá
er hörmunginni miklu frá
heim komið hér til Herrans er
fyrir lambsins blessað blóð.

3 Og sínum Guði sigurljóð
nú syngur þessi hirðin góð
með hjörtun trú, svo hrærð og bljúg,
í sælla engla sveim.

4 Þeir fyrirlitning hlutu' í heim
en hér er um skipt fyrir þeim.
Þeir ljóma' í sól við lambsins stól
í sælu' um eilíf ár.

5 Æ, mörg var þeirra þrenging sár,
á þrungnum augum brunnu tár.
Þau hefur nú Guðs höndin trú
af þerrað þjónum sín.

6 Í lífsins prestaskrúði skín
nú skarinn, hátíð aldrei dvín
í himnavist, fyrir Herrann Krist
æ fjölgar helgur her.

7 Ó, mikli, fríði hetjuher,
af hjarta með þér gleðjumst vér,
þú reyndist trúr og raunum úr
ert leiddur laun að fá.

8 Guð launi þér á himni há,
þú hér á jörð með grát réðst sá,
nú vitum vér þú víst upp sker
með gleði sætum söng.

9 Já, syng af megni: leiðin löng
til lífs er stigin, hætt og þröng,
þér, líknin blíð sem leystir lýð,
sé lofgjörð ár og síð.

T Hans A. Brorson, 1765 – Stefán Thorarensen – Vb. 1861
Den store hvite flokk
L Norskt þjóðlag – BÞ 1912
Den store hvite flokk
Eldra númer 202
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Opb. 7. 9–17

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is