Sálmabók

205. Allt Kristur af kærleika virðir

1 Allt Kristur af kærleika virðir
og kennir um gjörvalla jörð,
er börnunum brosandi hirðir
og blessar með orði og gjörð.

2 Á fjallinu styrkur mun standa
og styðja á hjálpræðisfund.
Hann fylgir þeim fátæku' í anda
á fegurstu sælunnar grund.

3 Til fólksins af fögnuði mælir
og flytur þau sælunnar boð
að brátt verði syrgjendur sælir
og sveipaðir huggunar voð.
Fagnið og gleðjist í Guði
sem gefur hin himnesku laun.

4 Og sæl eru hógvær í hjarta
sem hljóta við vel unnið starf
þá jörð sem að blessun Guðs bjarta
mun birta sem himneskan arf.

5 Þau þyrstir að sönnu og svengir
sem sannleik og réttlæti þrá,
fá saðningu' er sálina tengir
við sæluna Guðs ríki frá.

6 Guð miðlar þeim miskunn sem breyta
af mildi við systkini sín
og opnar þeim leið sem að leita
í ljósið sem heiminum skín.
Fagnið og gleðjist í Guði
sem gefur hin himnesku laun.

7 Já, öll sem að hrein eru' í hjarta
þá himnesku signingu fá:
Er ljósið mun birtast hið bjarta
í blessun þau Guð munu sjá.

8 Og sæl þau er friðarboð færa
og flytja í lengd og í bráð.
Hann hvert þeirra barnið sitt kæra
mun kalla af elsku og náð.

9 Um eilífð mun sælan þau sefa
er sætt hafa ofsókn og þjást
og lausnarinn líkna og gefa
í lífinu kærleik og ást.
Fagnið og gleðjist í Guði
sem gefur hin himnesku laun.

T Bragi J. Ingibergsson 2018
L Helga Þórdís Guðmundsdóttir 2018
Biblíutilvísun Matt. 5.1–12

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is