Sálmabók

368. Sólin brennir nóttina

Ást

1 Sólin brennir nóttina
og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir
og eftir sólarlag.

2 Þú ert yndi mitt áður
og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi
og sólbráð á vetrarins ís.

3 Svali á sumardögum
og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli
og söngur ef allt er hljótt.

4 Söngur í þöglum skógum
og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið
og Guð á himnum að vin.

5 Þú gafst mér skýin og fjöllin
og Guð til að styrkja mig.
Ég fann ei hvað lífið var fagurt
fyrr en ég elskaði þig.

6 Ég fæddist til ljóssins og lífsins
er lærði eg að unna þér
og ást mín fær ekki fölnað
fyrr en með sjálfum mér.

7 Ást mín fær aldrei fölnað
því eilíft líf mér hún gaf.
Aldirnar hrynja sem öldur
um endalaust tímans haf.

8 Aldir og andartök hrynja
með undursamlegum nið;
það er ekkert í heiminum öllum
nema eilífðin, Guð – og við.

Þú gafst mér skýin ...

T Sigurður Nordal 1917
L Magnús Þór Sigmundsson 2003

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is