Sálmabók

382. Yndislega ættarjörð

1 Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína,
þakkarklökkva kveðjugjörð,
kveð ég líf þitt, móðir jörð.
Móðir, bæði mild og hörð,
mig þú tak í arma þína.
Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína.

2 Fagra, dýra móðir mín,
minnar vöggu griðastaður,
nú er lífsins dagur dvín,
dýra, kæra fóstra mín,
búðu' um mig við brjóstin þín,
bý ég þar um eilífð glaður.
Fagra, dýra móðir mín,
minnar vöggu griðastaður.

3 Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda' í hendur.
Foldin geymi fjötur sinn.
Faðir lífsins, Drottinn minn,
hjálpi mér í himin þinn
helgur máttur, veikum sendur.
Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda' í hendur.

T Sigurður Jónsson frá Arnarvatni – Sb. 1945
Sveitin mín
L Bjarni Þorsteinsson 1901 – Svb. 1991
Sveitin mín
Eldra númer 435
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is