Sálmabók

414. Nú hverfur sól í haf

1 Nú hverfur sól í haf
og húmið kemur skjótt.
Ég lofa góðan Guð
sem gefur dag og nótt,
minn vökudag, minn draum og nótt.

2 Þú vakir, faðir vor,
ó, vernda börnin þín
svo víð sem veröld er
og vonarstjarna skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.

3 Lát daga nú í nótt
af nýrri von og trú
í myrkri hels og harms
og hvar sem gleymist þú
á jörð sem átt og elskar þú.

4 Kom, nótt, með náð og frið,
kom nær, minn faðir hár,
og leggðu lyfstein þinn
við lífsins mein og sár,
allt mannsins böl, hvert brot og sár.

T Sigurbjörn Einarsson 1983 – Vb. 1991
L Þorkell Sigurbjörnsson 1983 – Vb. 1991
Eldra númer 592
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is