Sálmabók

419. Nú vil ég enn í nafni þínu

Ungmenna bænarkorn á kvöld

1 Nú vil ég enn í nafni þínu,
náðugi Guð, sem léttir pínu,
2 mér að minni hvílu halla´
og heiðra þig fyrir gæsku alla
3 þáða´ af þér á þessum degi,
því er skylt ég gleymi eigi.
4 En það má ég aumur játa,
angri vafinn sýta´ og gráta,
5 móðgað hef ég margfaldlega
mildi þína guðdómlega.
6 Útslétt mínar syndir svartar,
sundurkramið lækna hjarta
7 afþvegið í æðsta flóði
endurlausnarans Jesú blóði,
8 svo ég kvittur sofi´ í friði
sál og líf af englaliði
9 umkringd, Satans illsku hrekki,
ógn og slægðir finni ekki.
10 Blessa hús og hvílu mína,
hjástoð lát mig merkja þína,
11 þá mun ásókn illra anda
ei hið minnsta kunna´ að granda.
12 Lát mig þenkja´ á þessu kvöldi
það ég lifi´ í veiku holdi,
13 brothætt gler og bólan þunna
brotna senn og hjaðna kunna.
14 Þú einn, Guð, skalt þar um ráða
þínar kný ég á dyr náðar,
15 af míns hjarta innsta grunni
andvarpa og bið með munni.
16 Þegar ég skal seinast sofna
sál viðskilur, fjörið dofnar,
17 hjartans faðir, í hendur þínar
hverfa lát þá öndu mína.
18 Hold í jörðu hægt lát blunda
helgra svo þar bíði funda
19 og upprisinn að ég víki
inn með þér í himnaríki.
20 Þar mun ég þúsund þakkir færa,
þér sé lofgjörð, prís og æra.

T Hallgrímur Pétursson, 1759 – Vb. 2013
L Íslenskt þjóðlag – ÍÞ 1906 – Vb. 2013
Sálmar með sama lagi 395
Eldra númer 940
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is