Sálmabók

454. Um heimaslóð og heiðloft blá

Ég heyri þig

1 Um heimaslóð og heiðloft blá
minn hugur víða fer
og alls staðar má eitthvað sjá
sem unað vekur mér
og vott um ást og visku þína ber.
Ég heyri þig í haustsins stríða vindi,
ég horfi á þína dýrð í vorsins yndi
og fyrir allt ég þakka þér.

2 Ég heyri þig á hljóðri stund
sem hvísl í næturblæ,
ég sé þinn mátt í gróðurgrund
sem grænkar undir snæ
og aftur þér til dýrðar blóm sín ber.
Ég heyri þig ...

3 Ég leita’ í kvöl og þröng til þín
og þrjóti skilning minn
þá andar þú á augu mín
svo eitthvert ráð ég finn
og brot af þinni visku veitist mér.
Ég heyri þig ...

4 Ég styðst við þína styrku hönd
á stuttri ævileið,
á óttans för um ókunn lönd,
við unað jafnt sem neyð
þín ást og forsjá fylgir ávallt mér.
Ég heyri þig ...

T Böðvar Guðmundsson 2009 – Vb. 2013
L Jón Hlöðver Áskelsson 2009 – Vb. 2013
Eldra númer 844
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is