Sálmabók

458. Í gegnum lífsins æðar allar

1 Í gegnum lífsins æðar allar
fer ástargeisli, Drottinn, þinn,
í myrkrin út þín elska kallar
og allur leiftrar geimurinn
og máttug breytast myrkraból
í morgunstjörnur, tungl og sól.

2 En skærast, Guð minn, skín og ljómar
í skugga dauðans vera þín
er röddin þinnar elsku ómar
í endurleystri sálu mín
og segir: Þú ert sonur minn,
því sjá þú, ég er faðir þinn.

3 Og aldrei skilur önd mín betur
að ertu Guð og faðir minn
en þegar eftir villuvetur
mig vermir aftur faðmur þinn
og kærleiksljósið litla mitt
fær líf og yl við hjarta þitt.

4 Lát undur þinnar ástar vekja
upp elsku hreina' í hverri sál
og öfund burt og hatur hrekja
og heiftrækninnar slökkva bál.
Lát börn þín verða í elsku eitt
og elska þig, sinn föður, heitt.

T Matthías Jochumsson – Sb. 1886
L Georg Neumark, 1657 – PG 1861
Wer nur den lieben Gott lässt walten
Sálmar með sama lagi 183 185 548 564 88
Eldra númer 18a
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is