Sálmabók

463. Hjálpa, Guð, í hengiflugi

1 Hjálpa, Guð, í hengiflugi,
hegðun vor er feigðarganga,
vatn er mengað, loft og láð.
Bundnir viðjum grimmrar græðgi,
ginntir vélum eigin máttar
jörð vér bruggum banaráð.

2 Opna, Drottinn, augun haldin
að vér sjáum dómsins letur
rituð á vor ríku borð.
Ánauð vorrar eigingirni
af oss tak og lát oss vakna,
vitkast, lifna við þitt orð.

3 Blóðug jörðin brot vor grætur,
brostin er vor heyrn og næmi,
andinn sljór og augun blind.
Bjarga, Drottinn, birta láttu,
blómin hýrna, fugla kvaka,
hreinsa oss við lífs þíns lind.

4 Gef oss, faðir, vit og vilja
veginn þinn að sjá og fara,
hríf þú oss af heljar slóð.
Lífga andann, lát oss frjálsa
lifa svo að jörðin finni
hjá oss birt sín ljóðaljóð.

T Svein Ellingsen, 1978 – Sigurbjörn Einarsson, 1996 – Vb. 2013
Stans oss på vår vei mot stupet
L Kjell Habbestad, 2008 – Vb. 2013
Stans oss på vår vei mot stupet
Eldra númer 845
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is