543a. Ó, ljóssins faðir, lof sé þér ♥
1 Ó, ljóssins faðir, lof sé þér
að líf og heilsu gafstu mér
og föður minn og móður.
Nú sest ég upp því sólin skín,
þú sendir ljós þitt inn til mín.
Ó, hvað þú, Guð, ert góður!
2 Þú býr á háum himnastól
og hefur skapað þessa sól
og alla veröld víða,
þú klæðir grösum fagra fold,
þú fæðir veikan orm í mold
og dýr og fuglinn fríða.
3 Þig lofa gjörvöll lífsins mál,
þig lofar einkum mannsins sál,
hún þekkir elsku þína.
Ég veit, minn Guð, þú verndar mig,
ég veit ég á að biðja þig
sem tilbjóst tungu mína.
4 Þitt blessað ljósið lýsi mér
svo lifi ég og fylgi þér
á vísdóms vegi sönnum
en auk mér þroska, dyggð og dáð
svo dafni ég í Jesú náð
hjá Guði' og góðum mönnum.
5 Þigg, Guð, minn faðir, hug og hönd,
mitt hjarta, vilja, líf og önd
svo blessuð boð þín geymi.
Að treysta, hlýða, þóknast þér
sé þúsund sinnum dýrra mér
en fylgja holdi' og heimi.