569. Þinn andi, Guð ♥
1 Þinn andi, Guð, til Jesú Krists mig kalli
og komi mér á hina réttu leið
svo ætíð ég að brjósti hans mér halli
í hverri freisting, efa, sorg og neyð.
2 Þinn andi, Guð minn, upp mig sífellt lýsi
með orði þínu, ljósi sannleikans,
í lífi' og dauða það mér veginn vísi
til vors hins þráða, fyrirheitna lands.
3 Þinn andi, Guð, mitt endurfæði sinni
og í mér skapi hjarta nýtt og gott
er aftur verði eftir líking þinni
og ávallt beri þinnar myndar vott.
4 Þinn andi, Guð, mitt helgi' og betri hjarta
og hreinsi það frá allri villu' og synd
og höll þar inni byggi dýra' og bjarta
er blíða sífellt geymi Jesú mynd.
T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Andreas P. Berggreen 1856 – PG 1878
Tænk, når engang den tåge er forsvunden