Sálmabók

574. Mikils ætti ég aumur að akta

1 Mikils ætti ég aumur að akta
ást og miskunn Guðs míns góða,
að hann sendir oss að vakta
engla sína burt frá voða.
Hollum þessum hans höfðingjum
hér vill oss Guðs vesalingum
mikil oft liggja makt á.

2 Guð faðir þá gáfu sæta,
góðan son sinn til vor sendi,
Guðsson lausn og liðsemd mæta
líkn oss veitti' af sinni hendi.
Helgur andi' oss huggar feginn,
hjálpin hans bregst engan veginn.
Guð vill enn brest vorn bæta.

3 Ef oss þetta ei nóg þætti
eykur Guð á virðing slíka,
englum sínum hann ofan á bætti,
oss ljær hann þá dyggðaríka.
Þannig nú með þýtt samheldi
þjónar oss allt himneskt veldi.
Oss það forundra ætti.

4 Dýrðleg þessi Drottins gæði
daglega þiggja heimsins þjóðir.
Þó er ei minna það hjálpræði
að þjóna oss slíkir kappar góðir
sem í kringum sjálfan standa
soninn, föður og helgan anda,
skærir með skýrleiks æði.

5 Guð minn bauð þeim göfuglegum
geyma að mér í ferðum mínum,
öllu starfi og útvegum
einnig bera' á höndum sínum
svo við stein ég steyti' ei fæti,
stórum engum meiðslum mæti.
Illt vér ei iðka megum.

6 Svo mun koma á seinasta dómi
sjálfur Guð með engla alla,
láta þá með lúðrahljómi
lýð rétt kristinn fyrir sig kalla.
Af veraldar vindum fjórum
vel mun þá með blíðleik stórum
heilsa oss Herrann frómi.

T Ólafur Jónsson á Söndum fyrir 1627 – Hymnodia Sacra 1742
Englavísur
L Kvæðabók Ólafs Jónssonar á Söndum fyrir 1627 – Hymnodia Sacra 1742

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is