Sálmabók

602. Í fornöld á jörðu var frækorni sáð

1 Í fornöld á jörðu var frækorni sáð,
það fæstum var kunnugt en sums staðar smáð,
það frækorn var Guðs ríki', í fyrstunni smátt
en frjóvgaðist óðum og þroskaðist brátt.

2 Þá dundu' yfir stormar og hretviðrin hörð
og haglél og eldingar geisuðu' um jörð.
Það nístist af frosti, það funaði' af glóð
en frjóvgaður vísir þó óskemmdur stóð.

3 Og frækornið smáa varð feiknarstórt tré,
þar fá mátti lífsins í stormunum hlé,
það breiddi sitt lim yfir lönd, yfir höf,
á lifenda bústað, á dáinna gröf.

4 Í skjóli þess þjóðirnar þreyta sitt skeið
og þreyttur fær hressing á erfiðri leið,
í skjóli þess hrakinn og vesall fær vörn,
þar velja sér athvarf hin saklausu börn.

5 Það vantar ei enn þá hin ísköldu él
og orma sem vilja þess rót naga' í hel
en hvernig sem fella það farið er að
þeir fá því ei grandað né eyðilagt það.

6 Það blómgast og vex og æ blómlegra rís
í breiskjandi hita, í nístandi ís,
af lausnarans blóði það frjóvgaðist fyrst,
þann frjóvgunarkraft eigi getur það misst.

7 Frá heimskauti einu til annars það nær
þótt önnur tré falli, þá sífellt það grær,
þess greinar ná víðar og víðar um heim
uns veröldin öll fær sitt skjól undir þeim.

8 Og sú kemur tíðin að heiðingja hjörð
þar hælis sér leitar af gjörvallri jörð,
sú tíðin að illgresið upp verður rætt
og afhöggna limið við stofninn sinn grætt.

9 Hve gleðileg verður sú guðsríkisöld.
Um gjörvallan heim ná þess laufskálatjöld.
Úr hvelfingu myndast þar musteri frítt,
þar mannkynið allt Guði lof syngur blítt.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Pilgrimsharpan 1862 – JH 1885
Sálmar með sama lagi 491
Eldra númer 302
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is