Sálmabók

622. Minn friður er á flótta

1 Minn friður er á flótta,
mér finnst svo tómt og kalt,
ég geng með innri ótta
og allt mitt ráð er valt.
Ég veit ei hvað mig huggi
og hvergi sé ég skjól,
mér ógnar einhver skuggi
þótt eg sé beint við sól.

2 Ég spyr mig: hvert skal halda?
en hvergi flýja má,
ég hrópa: hvað skal gjalda?
því hvergi neitt ég á.
Því stenst minn styrkur eigi,
sem stormi lostin björk
mitt höfuð þreytt ég hneigi
á hryggðar eyðimörk.

3 Þó lýsir líknarvonin,
ég lyfti trúarstaf,
ég er í ætt við soninn
sem eta girntist draf.
Ég sé mitt frelsi, faðir,
ég fylgi sveini þeim,
ég þekki ráðið, það er:
til þín að hverfa heim.

4 Þú breiðir arma bjarta
og barnið faðmar þitt,
ég finn þitt heita hjarta
og hjartað fagnar mitt.
Ég vil ei við þig skilja,
ég vel þitt náðarskjól,
mitt veika líf er lilja,
þín líkn er hennar sól.

T Matthías Jochumsson – Sb. 1886
L Kirstín Erna Blöndal 2007

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is