Sálmabók

625. Það sækir að mér uggur

Hvar ertu, Guð?

1 Það sækir að mér uggur og syrtir að í bráð.
Ég sé þig ekki lengur, hvar er þín mikla náð?
Ég geng um grýtta vegi og glata minni trú
í köldum kynjaheimi. Hvar ertu, Guð minn, nú?

2 Ég treysti ekki lengur að takir þú við mér
og traðka því á öllu sem mönnum heilagt er.
Í gleymsku get ég horfið en gleði skortir mig.
Hvað ertu, Guð, að gera? Ég gleymdi' að spyrja þig.

3 En mitt í dagsins amstri ég mæti þér og finn
að mögulega varstu hér alltaf, Drottinn minn.
Í hjarta mínu heyri ég hljóma orðin þín.
Með tregafullum tóni þú talar enn til mín.

4 Þú lýsir mér í dimmu og læknar hverja sorg.
Mig leiðir fram um vegu og ert mín trausta borg.
Mér undur lífsins færir þá ást sem best ég skil.
Svo ef ég opna augun þá ertu, Guð minn, til.

T Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson 2010 – Vb. 2013
L Sigurður Flosason 2010 – Vb. 2013
Eldra númer 905
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is