Sálmabók

628. Á handlegg minn er húðflúraður efinn

Hönd mín er þín

1 Á handlegg minn er húðflúraður efinn,
allt sem ég man
og allt sem mér finnst mögulegt ég viti,
á úlnlið mínum úrið sem þú gafst mér,
allt sem ég á,
allt sem slær og vísar svo ég rati.
Samt er eins og blindi mig þúsund vatta sól
og andlit mitt er logandi og undið,
samt er eins og hindri mig hégómi og bál
og hitinn skríði löturhægt í tundrið.
Leystu mig, leggðu mér til sjónauka og sverð
svo ég læri’ að vaða dýpstu sundin.
Ég leiði þig,
ég lýsi þér, hönd mín, hún er þín,
lófi þinn er lifandi og fundinn.

2 Í leiðakerfi lófa míns er stórborg,
stærri en ég,
með æsingi og illvirkjum og lúxus,
um æðar finn ég flúskrast óðar lestir,
fullar af sorg
og betli, stríði, hungursneyð og sirkus.
Þá er eins og grípi mig þróttleysi og værð
og hönd mín björt er handjárnuð og bundin,
þá er eins og gleypi mig þúsund orða tóm
og gliðni undan fótum mínum grundin.
Leystu mig ...

T Sigurbjörg Þrastardóttir 2007 – Vb. 2013
L Atli Heimir Sveinsson 2007 – Vb. 2013
Eldra númer 925
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is