641. Í anda, Kristur, enn ég lít ♥
1 Í anda, Kristur, enn ég lít
hið auða fíkjutré
sem fordæmt með sín fölnuð lauf
til foldar visnað hné.
2 Því ávöxtu það enga bar
með auð sín blöð og tóm.
Mér er sem sjái' eg sjálfan mig
og sjálfs mín skapadóm.
3 Ég er þitt fordæmt fíkjutré
sem fell og visna skjótt.
Mitt líf nú senn er orðið allt
og að fer dauðans nótt.
4 Á fund þinn, Kristur, kem ég nú,
ég krýp og til þín bið.
Við kross þinn sprettur lífsins lind
með líkn í sínum nið.
5 Þinn, Kristur, snart ég klæðafald
með kærleiksmáttinn sinn,
mér hvarf af augum hula sú
sem huldi guðdóm þinn.
6 Mér athvarf, Kristur, orð þitt var,
þitt ávarp veikum reyr:
Rís, sonur minn, þín synd er bætt
en syndga eigi meir.
7 Mér athvarf, Kristur, orð þitt var,
þitt orð sem heyri' eg nú:
Ég lifi og þú lifa munt,
þér lífið gaf þín trú.