Sálmabók

658. Ég horfi yfir hafið

1 Ég horfi yfir hafið
um haust af auðri strönd,
í skuggaskýjum grafið
það skilur mikil lönd.
Sú ströndin strjála' og auða
er stari' eg héðan af
er ströndin stríðs og nauða,
er ströndin hafsins dauða
og hafið dauðans haf.

2 En fyrir handan hafið
þar hillir undir land,
í gullnum geislum vafið
það girðir skýjaband.
Þar gróa' í grænum hlíðum
með gullslit blómin smá,
í skógarbeltum blíðum,
í blómsturlundum fríðum
má alls kyns aldin sjá.

3 Þar sé ég sólu fegri
á súlum standa höll
í dýrð svo dásamlegri,
hún drifin gulli' er öll.
Þar sé ég fylking fríða
og fagurbúna sveit
um ljóssins sali líða
með ljóssins ásýnd blíða
í unaðs aldinreit.

4 Ég hljóður eftir hlusta,
ég heyri klukknahljóm.
Hve guðleg guðsþjónusta
er Guðs í helgidóm!
Ég heyri unaðsóma
og engla skæra raust;
um Drottins dýrðarljóma,
um Drottins verk þeir róma
um eilífð endalaust.

5 Er þetta hverful hilling
og hugarburður manns?
Nei, það er fögur fylling
á fyrirheitum hans
er sýnir oss í anda
Guðs eilíft hjálparráð
og stríðsmenn Guðs þar standa
við stól hins allsvaldanda.
Þar allt er eilíf náð.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Tegernsee 1506 – Horn 1544 – Sb. 1589
Fröhlich so will ich singen
Eldra númer 440
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is