Sálmabók

73b. Yfir hverri eykt á jörðu

1 Yfir hverri eykt á jörðu
englar Drottins halda vörð.
Dúnmjúkt lífsins dægur falla
dropum lík í rakan svörð.
Árin seytla eins og lindir,
aldir hníga líkt og fljót,
eilífðin sem úthaf bíður,
allra tíma stefnumót.

2 Þytur tímans þungu vatna
þýtur enn, hið nýja ár.
Stara niður stjörnu augu,
stundin verður heit og sár.
Allir dagar ævi minnar
eru, Drottinn, sekt á mér.
Sjúk og döpur sál mín grætur,
syndum hlaðin, eftir þér.

3 Stara niður stjörnu augu,
stara inn í hjarta mitt.
Bið ég hljóður bænir mínar,
blessa, Drottinn, nafnið þitt.
Lát mig alla lífsins daga
lúta, Drottinn, einum þér.
Nafni þinnar dýrðar deyja,
Drottinn himna, veit þú mér.

4 Yfir lífsins svörtu sanda
sendu náðar brosið þitt.
Eftir villu, brot og blekking
blessa, Drottinn, hjarta mitt.
Drottinn, vægðu, dæm þú eigi,
Drottinn Guð, ég trúi' á þig.
Jesú, þínum jólum fagna,
Jesú Kristur, heyr þú mig.

T Stefán frá Hvítadal, 1931– Sb. 1972
L Sigfús Einarsson, 1916 – Vb. 1976
Yfir voru ættarlandi
Sálmar með sama lagi 785
Eldra númer 107
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is