Sálmabók

751. Lífið er stutt

1 Lífið er stutt og líðun manns
líkt draumi hverfur skjótt,
finnst þó mjög langt í hörmum hans
hjartað nær missir þrótt,
kristileg frelsun krossberans
kemur aldrei of fljótt,
erfiðisdagur iðjandans
undirbýr hvíldarnótt.

2 Ó, að sérhvert mitt augnatár,
undir hörmungar vígt,
gæti, miskunnar Herrann hár,
hjarta þitt blessað mýkt
svo þú mín styttir angursár,
auðmjúkur bið um slíkt,
fyrr mun ei gróa fengið sár
fyrst það blæðir svo ríkt.

3 Veit mér, ó, Guð, að vilji þinn
viljann minn sigri hér,
til þess minn vilji viljann þinn
virði sem skyldugt er.
Það sé minn vilji' og viðleitnin
verða svo hlýðinn þér
að hirting þína sérhvert sinn
sé kært að þiggja mér.

4 Skal ég svo kvíða nokkru? Nei.
Nærri' er útrunnið skeið.
Senn ber að höfnum hrakið fley,
huggun gefst lengi þreyð
og hvort ég lifi eða dey
eilífs lífs von er greið.
Guð minn, Guð minn, mig einan ei
yfirgef þú í neyð.

T Hjálmar Jónsson frá Bólu 1845 – Sb. 1945
L Hymnodia Sacra 1742 – ÍÞ 1906 – Vb. 1976 / R Róbert A. Ottósson, 1967
Hvar mundi vera hjartað mitt
Sálmar með sama lagi 620
Eldra númer 382
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is